mánudagur, 29. ágúst 2011

Smá úttekt á virkni LCHF mataræðis

Það er svona ca. mánuður síðan ég byrjaði að borða í grófum dráttum samkvæmt "Lítið af kolvetnum - mikið af fitu" mataræðinu. Þar af leiðandi finnst mér upplagt að gera smá úttekt á því hvernig þetta nýja mataræði hefur nú farið í mig. Það er líka ágætt fyrir mig að eiga þetta einhvers staðar á blaði.

Fyrstu tvær vikurnar gengu vel, ég var ótrúlega hress og saknaði sykurs, hveiti, kartaflna, pasta og hrísgrjóna nánast ekki neitt. Svo fór hins vegar aðeins að halla undan fæti. Þreytan kom aftur og með henni löngun í allt sem gefur skjótfengna orku. Ég verð nú samt að segja að ég hef verið ótrúlega dugleg að falla ekki í sykurpyttinn, þrátt fyrir allt. En sem sagt, þreytan hefur enn sem komið er ekki minnkað. Á tímabili hélt ég kannski að ég væri að ná mér hraðar upp eftir hvert þreytu-breakdown, en eftir að hafa legið í rúminu í allan gærdag og verið eins og drusla í dag (þegar ég átti frí og ætlaði að gera eitthvað skemmtilegt), þá er sú skoðun á undanhaldi. Verkir í skrokknum eru líka svipaðir. Ég hef heyrt/lesið að vöðvaverkir eigi að lagast mikið á þessu mataræði, en það er ekki mín reynsla enn sem komið er. Það sem hins vegar er betra, er hin svokallaða heilaþoka. Ég er ekki alveg jafn sljó yfir höfðinu, svona dags daglega, eins og ég var. Meltingin hjá mér var líka mun betri fyrstu 2-3 vikurnar, en síðustu 5-7 dagana hef ég verið skelfileg í maganum, svo það er greinilega ekkert til að treysta á. Kannski vegna þess að ég stórjók inntöku mína af mjólkurvörum...? Eða bara vegna þess að ég datt í stresskast vegna ljósmyndasýningar og fleiri hluta?

Æ jæja, það hvarflaði sterklega að mér í gær þegar ég lá í heiladauðu ástandi í sófanum að gefast upp á þessu mataræði. Mér fannst það svo sem ekki vera að gera það mikið fyrir mig. En þá áttaði ég mig á þessu með hugarstarfsemina sem er aðeins betri, og ekki veitti nú af. Er ekki frá því að ég sé líka aðeins minna gleymin... Þannig að, já ég ætla að þrjóskast við enn um sinn.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég er mun betri af hárlosinu sem hefur verið að hrjá mig frá því um áramót. Já og eitt annað og enn mikilvægara. Ég sef miklu betur - að minnsta kosti svona í heildina séð. Sef fastar og vakna ekki eins oft á nóttunni. Stundum næ ég því meira að segja að sofa non stop frá miðnætti og til ca. 7 eða 8 næsta morgunn.

Myndin sem ég var með á sýningunni

Curious sheep :) by Guðný Pálína
Curious sheep :), a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Kemur hér svo Anna systir og aðrir sem áhuga hafa, geti séð hana almennilega.

Annars er sannkallaður svefn-sólarhringur nú að baki og vonandi þarf ég aðeins minna að sofa í dag... Ég var í tvo og hálfan tíma við opnun sýningarinnar á laugardaginn, í steikjandi hita og sól, og kannski hef ég bara fengið sólsting. Eða svona "næstum því" sólsting. Ég gerði nákvæmlega ekkert annað en liggja og dorma endalaust í sófanum í gær. Ekki hindraði það mig samt í því að sofna í gærkvöldi og steinsvaf ég í alla nótt.

Annars var bara voða gaman á sýningunni. Það mætti margt fólk og flestir mjög jákvæðir á þetta framtak okkar. Mér finnst samt alltaf ótrúlega erfitt að sýna svona opinberlega, en ætli það venjist ekki (einhvern tímann).

Nú er ég í fríi í dag og Valur er í tveggja vikna fríi, og spurning í hvað dagurinn verður notaður. Ég er nú hálf drusluleg ennþá, en hef ekki áhuga á að liggja annan dag í sófanum, það er alveg á hreinu.

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Bær sem ég veit ekki hvað heitir

Shine a light on me by Guðný Pálína
Shine a light on me, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Já nú opinbera ég fáfræði mína hvað eftir annað hér á blogginu... En þessi mynd er tekin þegar við Valur vorum á heimleið eftir dagsferðina okkar á Melrakkasléttu fyrr í sumar. Þarna vorum við að keyra fyrir Tjörnesið minnir mig. Skv. korti gæti bærinn hugsanlega heitið Hallbjarnarstaðir, en ég sel það nú ekki dýrara en ég keypti það.

Annars er allt við það sama. Ég er að reyna að sofa eins mikið og líkaminn minn vill sofa þessa dagana, sem þýðir að ég kem mun seinna í sund en venjulega. Í morgun kom ég í sund rétt fyrir tíu og uppskar mikla undrun konunnar í skápnum við hliðina á mér. Henni fannst það greinilega pínu óþægilegt þegar þetta venjulega stemmir ekki lengur. Ég er sem sagt vön að vera að fara þegar hún er að koma, en nú var það akkúrat öfugt. Ég sagði við hana að ég væri bara komin í óregluna... hm, en ætli það verði nú svo lengi enn. Ætli sé ekki best að reyna að komast aftur í rútínu. Það hefur hingað til gerst á haustin þegar Ísak byrjar aftur í skólanum, en nú byrjar skólinn hjá honum ekki fyrr en eftir nærri 3 vikur, svo kerfið er allt í rugli. Annars var hann farinn að vakna sjálfur á morgnana í sumar, þannig að ef ég vil þá get ég alveg sofið lengur þá daga sem ég er að vinna seinnipartinn, svona eins og í dag. Jæja, sjáum bara hvað setur.

mánudagur, 22. ágúst 2011

Guðný kleyfhugi

Ljósmyndasýningin nálgast. Berglind hringdi í dag og sagðist hafa verið að koma að sunnan með myndirnar útprentaðar og ég skyldi koma og kíkja. Við vorum flestar þarna, og það var voða gaman að sjá myndirnar svona stórar og flottar. Það kemur samt alltaf upp einhver undarleg tilfinning hjá mér þegar ég sé myndirnar mínar útprentaðar. Þó ég viti að þetta sé ágætt, svoleiðis, þá finnst mér á einhvern hátt afskaplega óþægilegt að hafa mínar myndir til sýnis. Svo núna langar mig mest til að vera einhvers staðar langt í burtu þegar sýningin verður sett upp... sem er ástæðan fyrir því að Valur kallar mig kleyfhuga í ljósmynduninni...

sunnudagur, 21. ágúst 2011

Majones

Já hér kemur sem sagt uppskrift að majonesi... Það er frekar fyndið að vera á mataræði sem gengur út á að innbyrða sem mesta fitu, og mikil breyting frá því að innbyrða sem mest af kolvetnum... Ég er í tvígang búin að gera þetta majones, af því það átti að vera majones í uppskriftinni sem ég var að fylgja, en ekkert majones til á heimilinu. Þessi kemur úr bók sem fylgdi blandaranum okkar, og mér finnst hún fín. Hins vegar mæli ég ekki með að nota lífrænu ólífuolíuna frá Sollu, því hún er svo bragðsterk/beisk.

 1 stórt egg við stofuhita
 1 msk. ferskur sítrónusafi
 1 tsk. dijonsinnep
 1/8 tsk salt
 1/8 tsk pipar
 1 bolli ólífuolía

 Setjið allt nema ólífuolíuna í blandarann og látið ganga í 10-15 sek. Hellið þá ólífuolíunni smátt og smátt saman við, þar til massinn þykknar. Kælið í 30 mín.

laugardagur, 20. ágúst 2011

Falleg blóm sem ég man ekki hvað heita

Wild thing by Guðný Pálína
Wild thing, a photo by Guðný Pálína on Flickr.

En eru af sömu ætt og sápublóm... hehe sem heita ekki sápublóm. Ég þarf að fletta upp í einhverri jurtabók. Það er náttúrulega skömm að því að opinbera fáfræði sína á þennan hátt.

föstudagur, 19. ágúst 2011

Föstudagsþreyta

Það er eiginlega frekar fyndið að fylgjast með þreytu-munstrinu hjá mér. Á mánudögum er ég bara nokkuð brött, enda fara laugardagar og sunnudagar yfirleitt meira og minna í hvíld hjá mér. Þriðjudagurinn er líka nokkurn veginn í lagi en á miðvikudegi fer að halla verulega undan fæti. Það sést vel á því að ef ég á frí, þá fer miðvikudagurinn mest í afslöppun, en ef ég er í vinnu þá er ég frekar lúin. Annað hvert miðvikudagskvöld (og stundum oftar) eru fundir í ljósmyndaklúbbnum og oftar en ekki er ég of þreytt til að mæta. Ef ég mæti, þá sleppa 45 mínútur fyrir horn, en eftir það er umhverfishávaðinn að æra mig og ég hef enga ánægju af því að sitja lengur. Fimmtudagar eru þreytudagar, ég vakna yfirleitt þreytt og er hálf drusluleg allan daginn. Föstudagar eru "úrvinda" dagar. Ég vakna örþreytt þó ég hafi sofið mína átta tíma um nóttina. Allt er erfitt og þó ég fari í sund, þá er ég þung á mér og jafnvel með svima í lauginni. Ég lufsast einhvern veginn í vinnuna og reyni að standa mína plikt þar, þrátt fyrir að langa mest að liggja uppi í sófa. Reyni að láta ekki sjá á mér hvað ég er þreytt. Það tekst yfirleitt svona nokkurn veginn, þó einstaka sinnum fari ég að rugla eitthvað eða gera vitleysur. Eftir kvöldmat á föstudegi langar mig óstjórnlega í eitthvað sætt. Sjálfsagt bæði til að fá orku - og eins í huggunarskyni (tröstespising eins og Norðmenn kalla það). Ég horfi út og hugsa að það væri gaman að fara út að taka myndir, en það er ekki séns að ég hafi mig í það. Eins gott að það er að koma helgi og þá næ ég vonandi að tjasla mér nóg saman til að lifa næstu viku af... Hm, enginn skemmtipistill í þetta sinn. Ég berst sem sagt enn og aftur við þreytudrauginn, og eins og alltaf ef ég hef átt aðeins betri tíma, þá eru það vonbrigði. Ég hélt t.d. í alvöru að þetta nýja mataræði væri bara strax farið að skila árangri, en m.v. gigtarverki og þreytustig í gær, þá er enn töluvert langt í land með það. En ætli sé nú samt ekki best að þrjóskast við aðeins lengur... Kannski er ég líka að borða of mikið af mjólkurvörum, það er slatti af rjóma, smjöri, kotasælu og jógúrti sem ég innbyrði þessa dagana. Já já, það þýðir ekki að vera með uppgjafartón, bara berjast áfram!!

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Klisjumynd

Já það er misjafn smekkur manna. Svona myndir þættu nú einhverjum fallegar, en öðrum finnst þetta vera algjör klisja. Blár himinn sem ekki sér ský á, speglun í spegilsléttum sjó... o.s.frv. En mér finnst hún falleg á sinn hátt og fann hana þegar ég var að leita í gegnum myndasafnið mitt að myndum fyrir ljósmyndasýninguna á Akureyrarvöku. Við Álfkonur verðum sem sagt með enn eina ljósmyndasýninguna (ef ég hef sagt það áður þá verður bara að hafa það). Ég ætlaði nú eiginlega ekki að vera með... en svo hélt Valur að ég myndi sjá eftir því - svo ég sló til. Þetta er nú aðeins meira mál en áður, sérstaklega þar sem sýningin verður utandyra og myndirnar verða nokkuð stórar, eða 121 x 86 cm. Þær verða settar á steinstöpla sem staðsettir verða fyrir utan menningarhúsið Hof. Og já nóg um það. Nú var Valur að koma heim, en hann var í jarðarför í Reykjavík í dag. Svo það er best að fara að fá sér í svanginn - þessa fínu heimagerðu böku sem frúin var að elda.

þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Mikið sem er leiðinlegt að fara til tannlæknis

En það er víst ekki spurt að því. Ég fékk jú drep í rót um daginn, sem þýðir að það þarf að rótardrepa viðkomandi tönn og í dag var verið að fylla í rótina og svo á ég eftir að koma í þriðja sinn og þá verður sett fylling. Ekki er þetta nú beint gefins heldur. En það er að minnsta kosti gott að setjast aðeins niður og slaka á, það var svo mikill sprettur á mér áðan.

Ég var nefnilega að vinna í morgun og þó það væri rólegt í afgreiðslunni, þá hafði ég nóg að gera annað, og gleymdi tímanum þar til klukkan var orðin rúmlega hálf tvö. Þá áttaði ég mig á því að ég ætti að mæta til tannsa eftir tíu mínútur, og ákvað að hringja í starfsmanninn sem átti að leysa mig af, til að athuga hvort hann væri ekki með það á hreinu að hann hefði átt að koma fyrr. Hann var reyndar búinn að steingleyma því en dreif sig af stað. Ég kom samt 5 mínútum of seint til tannsa og var sveitt og með dúndrandi hjartslátt þegar ég settist í stólinn hjá honum. Hann var nú ekki stressaðri en það, að hann lét mig bíða í rúmar 5 mínútur eftir sér.

Jæja svo lá ég þarna með gapandi ginið í klukkutíma, og þegar ég ætlaði að standa á fætur aftur fékk ég þvílíkan svima, að ég þurfti að sitja á bekknum í smá stund og jafna mig. Eftir að ég var búin að borga tættist ég svo út í þorp að sækja vörur. Fór með vörurnar í búðina svo hægt væri að vinna við að taka þær upp og verðmerkja. Síðan fór ég með bókhaldsmöppurnar fyrir árið 2010 til endurskoðandans, en ég ætlaði að vera löngu búin að því. Í leiðinni þaðan kíkti ég inn í eina fatabúð, en fann að ég var ennþá hálf máttlaus og með hálfgerðan svima, svo ég dreif mig nú bara heim.

Nú er ég búin að borða afgang af morgunmatnum mínum (sem var í dag eggjakaka með púrrulauk, skinku og osti) og líður mun betur. Deyfingin er líka farin að minnka, sem betur fer. Næst á dagskrá er að fara og kaupa í matinn. Valur ætlar að elda pylsupasta og ég ætla að prófa að gera mér "pasta" úr kúrbít í staðinn fyrir venjulegt pasta.


sunnudagur, 14. ágúst 2011

Kúrbíts- og gulrótarkaka

Ég fann þessa köku á netinu og var að baka hana áðan. Hún hefði reyndar þurft að vera enn lengur í ofninum, en vá hún smakkast bara rosa vel.

P.S. Hm, mér varð illt í maganum eftir þessa blessuðu köku. Kannski vegna þess að í stað sykurs er í henni Xylitol, og ég er óvön því...

Snilldar hrökkbrauð

Ég hef verið að prófa nokkrar brauð og muffinsuppskriftir sem innihalda ekkert hveiti, með misjöfnum árangri. Í gær skellti ég í hrökkbrauð, sem er jafn gott og það er einfalt.

5 egg
2 1/2 dl.  sólblómafræ
1/2 dl.  sesamfræ
1/2 dl.  möluð hörfræ
1/2 dl.  saxaðar valhnetur
1 tsk. salt

Öllu blandað saman og hellt í smurða ofnskúffu. Bakað í miðjum ofni við 190 gráður í 10-11 mín.
Skerið í bita af æskilegri stærð þegar hefur kólnað aðeins. Geymist í ísskáp í 4-5 daga. Hentar vel að frysta og þiðnar á nokkrum mínútum. Því miður fylgir engin mynd... en já mér finnst þetta mjög gott :)

Sólin farin :-(

Já ég hef heldur betur notið þess að hafa þetta góða veður undanfarnar vikur, og því er fallið hátt að vakna við gráan himin, rigningu og norðanátt. Ég held raunar að það rigni ekki í augnablikinu, en ég sakna sólarinnar... Er til dæmis ekki að nenna í sund núna, í þessu veðri, hehe eins og veðrið sé eitthvað rosalega slæmt ;)

Kosturinn við veðrið (eða skort á sól) er sá að þá er maður löglega afsakaður til að vera inni og slappa af. Tja, kannski ekki þetta síðarnefnda, en ég er í þörf fyrir að hvíla mig og það er svo sem ágætt að geta gert það án þess að vera í stresskasti yfir því að vera að missa af góðu veðri úti. Ef ég væri í stuði, þá vantar nú aldeilis ekki verkefnin sem ég gæti unnið í hér innanhúss, en mér sýnist að það verði nú lítil framkvæmdagleði í dag. Kemur í ljós, kannski lifnar eitthvað yfir mér þegar líður á daginn.

laugardagur, 13. ágúst 2011

Fjaran í Búðardal

Fjaran í Búðardal by Guðný Pálína Þegar við Valur vorum að koma að vestan, stoppuðum við m.a. í Búðardal. Þar var ansi hvasst, en engu að síður afar fallegt niðri við sjóinn. Svo fundum við líka nýlegan veitingastað þarna niður frá, þar sem við gátum keypt heimagerða súpu og brauð, svo ekki skemmdi það nú fyrir. Annars er bara allt svipað að frétta. Dagarnir líða en í þessu dásemdarveðri sem verið hefur undanfarið er nú ekki hægt að kvarta. Mér finnst bara dýrðlegt að geta farið í sund á morgnana fyrir vinnu, þó ég syndi ennþá ekki nema ca. 10-12 ferðir og stoppi oft, til að sleikja sólina. Ég hef líka verið dugleg að fara í útiklefann, en því miður er sólin ekki komin þangað "inn" fyrr en um níu- hálftíuleytið, og það er eiginlega of seint svo ég nái henni. Ég hef að langstærstum hluta haldið mig við þetta nýja mataræði og ekki dottið í sykur-sukk-kast ennþá. Gærdagurinn var lang erfiðasti dagurinn því þá var ég svo ótrúlega þreytt allan daginn - og með þreytunni kemur sykurlöngunin. En ég náði svona nokkurn veginn að standa mig. Fékk mér grænt te og síðan kaffi í vinnunni, svona til að halda mér vakandi. Svo þegar ég kom heim lagðist ég á sólbekk fyrir aftan hús og steinsofnaði. Ég sofnaði líka í sófanum eftir kvöldmatinn, og já sofnaði fast og vel í gærkvöldi og steinsvaf meira og minna til klukkan hálf tíu í morgun. Það er nú aldeilis gott að geta hvílt sig þegar maður er þreyttur ;) Áðan fór ég reyndar á kaffihús með Sólrúnu og Rósu vinkonum mínum, og þá reyndi aðeins á, því það var ekkert í boði annað en sykurkökur. Ég valdi ostatertu og bað um rjóma með og borðaði svo bara hálfa sneið. Bað reyndar þjóninn um að fá "flís" af ostatertu en fékk auðvitað stóra þykka sneið. Rósa hló nú að mér, fyrir að mér skyldi detta það í hug að biðja um flís af kökunni, en það mátti reyna... En sem sagt, trixið er að fá sér þá rjóma með, því fitan veldur því að blóðsykurinn hækkar ekki jafn hratt. 
En já, nú er að koma matur. Valur er að grilla humar, svo það er best að láta ekki bíða eftir sér.

sunnudagur, 7. ágúst 2011

Í kvöldsól

Í kvöldsól by Guðný Pálína
Við Valur fórum aðeins út á Gáseyri í gærkvöldi. Það stendur alltaf fyrir sínu sem útivistarsvæði og alveg dásamlegt að hafa aðgang að þessum flotta stað. Sólin var aðeins að stríða okkur. Var fjarverandi framan af en kom svo loks þegar við vorum farin að huga að heimferð. Þá "þurftum" við auðvitað að stoppa aðeins lengur, og þá náði ég þessari mynd. Kaldbakur sést þarna í fjarlægð, en reyndar ekki í fókus. 

Það hefur verið afskaplega fallegt veður í dag, þó ég hafi nú haldið mig mest innandyra. Hitastigið svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir, 11 gráður og norðanátt, en sólin skín og það er fyrir mestu. Ég fór aðeins út í garð og reitti arfa í smá stund og við Valur snyrtum Seljuna, sem hefur aldrei náð fyrri sjarma eftir að hún fór á hliðina og við þurftum að færa hana.

Annars er dagurinn í dag sá þriðji í röð með höfuðverk og það fer að verða býsna þreytandi ástand. Kannski eru þetta fráhvarfseinkenni í tengslum við nýja mataræðið... en ég hef verið mjög dugleg að sleppa kolvetnum undanfarið. Kannski ekki sleppt þeim alveg 100%, enda ekki markmiðið hjá mér að megrast, svo ég má alveg borða pínu pons af kolvetnum. Snilldin er sú að við eigum þessa fínu næringarvog, svo það er minnsta málið að taka t.d. gulrót og vigta hana og fá fram upplýsingar um kolvetnamagn í gulrótinni (m.v. þyngd hennar). Ég ætla nú ekki að vera með neinar yfirlýsingar um það hversu vel mér á eftir að ganga með þetta mataræði, en ég finn strax mun á því hvað ég er miklu betri í maganum.

Ísak byrjar í ökukennslu á morgun og er spenntur fyrir því. Það er um að gera að nota tímann þar til skólinn byrjar, því eins og venjulega byrjar MA svo seint, og sumarvinnan hjá Ísaki búin, svo hann hefur ekki margt við að vera á daginn. 

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Mataræði

Ég er alltaf að spá og spekúlegra í ýmislegt varðandi mataræði, þó ekki sé nú hægt að segja að ég hafi prófað sérlega margt í þeim efnum. Það er að segja, ég hef aldrei farið á neina ákveðna matarkúra, en aðallega reynt að taka út sykur, hvítt hveiti, glútein og mjólkurvörur. Þetta með mjólkurvörurnar er nú reyndar pínu furðulegt. Ég þoli ekki að drekka venjulega mjólk, ýmsir ostar fara ekki vel í mig og t.d. sykraða jógúrt þoli ég ekki. En ég get borðað smjör, venjulegan brauðost og rjómi fer ágætlega í mig. Einhvern tímann áttaði ég mig svo á því að líklega væri það mjólkursykurinn sem ég er viðkvæm fyrir. En ef kolvetnin eru 4 gr. eða minna pr. 100 gr. þá get ég alveg borðað viðkomandi mjólkurvöru.

Undanfarið hef ég verið að lesa mér svolítið til um Low-Carb-High-Fat (kolvetnasnautt en fituríkt) mataræði og ég verð að segja að það er ýmislegt þar sem talar til mín. Þónokkrir læknar á Norðurlöndum eru farnir að mæla með þessu mataræði, einkum vegna þess að það hefur góð áhrif á fólk og dregur úr einkennum ýmissa sjúkdóma. Fólki með sykursýki 2 vegnar t.d. mun betur á þessu fæði heldur en því fæði sem yfirleitt er mælt með fyrir slíkt fólk. Á flugvellinum í Osló keypti ég bók eftir norskan lækni, dr. Sofie Hexeberg og er búin að gleypa hana í mig (bókina þ.e.a.s.). Þar er að finna sögur af fólki sem glímdi við ýmis vandamál og leið öllum mun betur við að skipta yfir á þetta mataræði. Sýnd eru dæmi um blóðprufur fyrir og eftir - og það sem best er, þegar stóð til að hún myndi skrifa bók, þá hafði læknirinn samband við 35 fyrrverandi sjúklinga sína og komst að því að 33 þeirra voru enn á þessu mataræði. Það finnst mér svo frábært því það sýnir jú að þetta virkar fyrir fólk.

Og þá er bara spurningin, hvernig gengur mér (sykurfíkli með meiru) að fylgja svona mataræði? Sofie mælir með því að byrja rólega og draga smám saman úr kolvetnamagni, svo maður fái slæm fráhvarfseinkenni (nokkuð sem hún sjálf klikkaði á og varð eiginlega fárveik). En já ég er að minnsta kosti aðeins farin að skoða þetta ... :-)

miðvikudagur, 3. ágúst 2011

Draumadagur

Já þrátt fyrir að hafa legið andvaka fram undir kl. 2 í nótt þá rættist bara ótrúlega vel úr deginum hjá mér. Ég hafði stillt klukkuna á átta af því ég ætlaði að fara að færa bókhald (þarf að gera það þegar lokað er í búðinni) en ég lá nú aðeins lengur því mér leið eiginlega eins og trukkur hefði keyrt yfir mig. En svo lufsaðist ég nú á lappir, sótti mér brauð og te og settist fyrir framan tölvuna. Ég var í smá kapphlaupi við klukkuna og náði að færa nánast alla reikningana sem eftir voru, áður en klukkan varð tíu. Nú á ég bara eftir að lesa yfir og leita að villum, og þá er hægt að skila skattinum því sem honum ber.

Um hálf ellefuleytið var veðrið úti svo yndislegt að mér fannst ekki annað hægt að fara í sund. Og af því ég var nú svo rosalega fersk, þá klæddi ég mig í sumarleg föt (alveg lykilatriði sko!) og hjólaði í sund. Þar fór ég í útiklefann (annað lykilatriði í svona góðu veðri!) og svamlaði svo aðeins milli bakkanna. Ég reyndi ekki einu sinni að þykjast ætla að vera dugleg. Synti bara rólega 2-3 ferðir í einu og hvíldi mig á milli. Þá lá ég með lokuð augun, með höfuðið á bakkanum og bara naut þess að vera til og láta sólina skína á mig. Svo hitti ég reyndar konu sem ég þekki og við spjölluðum í góða stund. Hún átti heima hér í hverfinu sem krakki og var nýlega að flytja aftur á fornar slóðir, bara ekki í sömu götuna. Ég entist nú ekkert voðalega lengi ofaní - en það var allt í lagi - ég gat þá notið þess að vera í útiklefanum að klæða mig og enn skein sólin á mig. 

Svo tók við að hjóla heim og það gekk nú ekki alveg jafn vel og að hjóla niðureftir... en hafðist án teljandi vandræða. Ég fann afganga af lambalæri í brúnni sósu í ísskápnum og settist með lambið, dagblöðin og tebolla út í garð. Það var svo kyrrt. Heyrðist bara í einstöku fugli sem flaug hjá, og svo þessi venjulegu umhverfishljóð, sem voru þó öll óvenju lágstemmd framan af. Börn að leik, bíll að keyra framhjá, en inn á milli var líka algjör þögn. Og ég var eins og köttur sem komist hefur í rjóma, mér leið svo vel. Svo reyndar fór að heyrast í sláttuvél og síðan þyrlu, en þetta var dásamlegt svo lengi sem það varði. 

Sem sagt: Draumadagur :-)


þriðjudagur, 2. ágúst 2011

Fimmtudagur í Noregi

Ferðasagan heldur áfram...

Anna hafði stungið uppá því að við færum að skoða garð, Ramme Gård, sem er í eigu norsks auðkýfings, Petter Olsen. Þetta er í raun stærðar býli sem er staðsett úti í sveit, og inni á svæðinu er skrúðgarður sem er opinn almenningi einn eftirmiðdag í viku yfir sumartímann. Þarna hefur verið stundaður lífrænn búskapur frá 1986, sem er mjög merkilegt finnst mér. 

Eftir að hafa klætt okkur eins létt og við gátum (27 stiga hiti úti) þá ókum við af stað um 12 leytið. Ég vissi svo sem ekki við hverju var að búast í þessum garði, hélt að þetta væru falleg blóm en meira hugsaði ég ekki út í það. Þannig að það er óhætt að segja að garðurinn hafi komið á óvart. Þarna inni er gönguleið, í hlykkjum og skrykkjum, og endalaust eitthvað sem kemur á óvart. Styttur, stígar, rjóður, gróður, vatn, blóm, matjurtir, já það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Ég var með stóru myndavélina með mér en eiginlega ekki rétta linsu m.v. tilefnið. Það hefði verið betra að vera með víðlinsu, sem hefði náð allri dýrðinni betur. Ég segi dýrð, því megnið af þessu var svo sannarlega dýrðlegt, þó alltaf megi deila um smekkinn. En ég held að myndirnar verði bara að tala sínu máli.
 Við vorum nýkomnar þegar við sáum þennan fallega blómaakur. Og þvílíkur ilmur. Þetta var sama lykt eins og af sápublómunum uppá hól í gamla daga, nema bara enn meiri angan.
 Það var gott að finna skuggsæla bletti inn á milli, þvílíkur var hitinn úti.

 Falleg tjörn og þessar hvítklæddu konur komu alveg eins og kallaðar inn í myndarammann. Það gerði reyndar líka karlmaður sem setti hendina inná myndina (óvart), en ég er búin að klippa hann burtu ;)
 Eins og sjá má kenndi ýmissa grasa þarna. Þessi bekkur leit út fyrir að vera nokkuð gamall.

  Já og inn á milli trjánna rákumst við á þessar kínversku/mongólsku? styttur.
 Þessi trjágöng voru býsna tilkomumikil, og fjölbreyttur blómagróður eins og sjá má.

 Þetta er hús auðkýfingsins og má ekki fara upp að því (skiljanlega).
 Á grasflötinni beint fyrir framan íbúðarhúsið er þessi "bygging". Þegar staðið er inni í henni miðri sést niður trjágöngin sem sáust fyrr.
 Þessi varð"maður" gætir tröppunnar upp að íbúðarhúsinu. Við Anna tylltum okkur á bekkinn þarna í smá stund, enda nauðsynlegt að slaka aðeins á og njóta þegar maður er á svona stað.
 Ég tók ekki eftir því fyrr en Anna benti mér á það, en hér sér maður sjóinn blasa við í fjarska. Mér fannst nú helst eins og ég væri stödd í einhverju allt öðru landi en Noregi, t.d. á frönsku rívíerunni, m.v. útsýni og hitastig.
Á landareigninni er líka kaffihús. Þar er allt lífrænt, bæði matur og drykkir. Eins og sjá má þá er ansi mörgum ólíkum stílum blandað saman í garðinum, svo úr verður hálfgert ævintýraland. Ég verð að viðurkenna fáfræði mína, get hreinlega ekki sagt hvaðan þessi byggingarstíll kemur sem hér sést. En kaffihúsið er í þessari byggingu. Við fengum okkur dásamlega kanilköku og settumst út í skuggann og nutum þess að slaka á eftir alla gönguna.

Svona í lokin þá verð ég nú eiginlega að segja frá því hvernig klósettin voru þarna í garðinum. Maður opnaði hálfgerða flekahurð og kom inn í rými þar sem vaskurinn var en síðan voru (að sjálfsögðu) klósett fyrir bæði kynin. Klósettið sýndist mér við fyrstu sýn vera kamar, enda var setan byggð ofan í trékassa, en þetta var nú reyndar vatnsklósett. Maður dró í langa keðju til að sturta niður. Vaskurinn var fyrirbæri út af fyrir sig. Hann var í laginu eins og risastór skel úr marmara. Töluvert fyrir ofan vaskinn var eins konar stytta sem hékk uppi á vegg. Þetta var einskonar andlit, með götum fyrir augu og munn. Munnurinn var opinn. Ég áttaði mig á því að þetta hlyti að vera krani og leitaði að einhverju til að skrúfa frá honum. Og jú jú, gyllt ljónshöfuð var þarna niðri til vinstri. Viti menn, þegar ég snéri ljóninu þá kom vatn út úr munninum þarna uppi. Frekar fyndið, enda fékk ég hálfgert hláturskast, mér fannst þetta svo skemmtilega absúrd. En ég klikkaði alveg á því að taka mynd af fyrirbærinu. 

Annað sem fékk okkur systur til að hlægja, voru styttur á öðrum stað í garðinum. Þær voru inni í rjóðri. Við innganginn að rjóðrinu var skilti sem á stóð "Den forbudte sti. All ferdsel skjer på eget ansvar". Þetta var sem sagt "bannsvæði" og á eigin ábyrgð að ganga þarna í gegn. Þrátt fyrir þessar aðvaranir var alveg ljóst að svæðið var opið almenningi (það sem var lokað var merkt með köðlum), svo við gengum áfram. Fyrst sáum við eina pínu dónalega styttu af karlmanni, og svo aðra. Þegar við gengum nær þessari síðari, sem var í formi risatyppis, kom góð vatnsbuna uppúr typpinu. Við áttuðum okkur á því að það var skynjari festur á tré, og þegar fólk gekk fyrir skynjarann til að komast að styttunni, þá fór vatnið í gang. Þetta var nú pínu fyndið, og ekki skemmdi fyrir að standa álengdar og sjá næstu menn lenda í því að fá á sig vatnsgusu...

Um kvöldið voru Kjell-Einar og Sigurður komnir heim úr Þrændalögum, svo við borðuðum öll saman. Það var "ekta" norskur sumarmatur, krabbi og rækjur í skel (sem maður þarf að pilla sjálfur). Hvítt brauð, majones og hvítvín með. Nammi namm. 

Daginn eftir ók Anna mér svo út á flugvöll og þar með var þessari Noregsferð minni lokið - og hér með ferðasögunni líka!

mánudagur, 1. ágúst 2011

Gulur akur

Yellow field by Guðný Pálína
Yellow field, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Myndin er tekin í Eyjafirði, eitt kvöld fyrr í sumar þegar við Valur fórum smá rúnt, svona til að viðra mig. Það var svo fallegt þegar kvöldsólin skein á gul blómin.

Miðvikudagur í Noregi

snérist að mestu leyti um hvíld og afslöppun. Veðrið var alveg dásamlegt og morgunmaturinn, sem samanstóð af súrmjólk með ferskum jarðarberjum og hindberjum, var borðaður úti. Eftir morgunmat datt Önnu í hug að við gætum gengið niður í Langhus Nærsenter, sem er smá verslunarkjarni í 10-15 mín. fjarlægð frá Briskevegen. Ég var að spá í það á leiðinni hvað trén væru orðin há, svona miðað við þegar Anna og Kjell-Einar voru nýflutt í hverfið. Anna þurfti aðeins að útrétta og eftir það ætluðum við að fá okkur kaffi í nýlegu kaffihúsi (sem er reyndar blanda af húsbúnaðar- og fataverslun og kaffihúsi), en þar var bara lokað. Í staðinn keyptum við okkur ís og sátum í sólinni og borðuðum hann. Við tókum svo strætó heim, því leiðin er öll upp í móti og ég vissi að miðað við þreytustig mitt, brattar brekkurnar og hitann úti, þá kæmist ég ekki alla leið gangandi.

Ég var hálf púnkteruð eftir göngutúrinn og sat bara á mínum rassi (já og lá á sófanum) á meðan Anna var í dugnaðarkasti og sló lóðina. Seinni partinn fór gamla að hressast aftur og fannst þá alveg nauðsynlegt að kíkja aðeins í Ski storsenter, sem er stærðarinnar verslunarmiðstöð. Anna var svo væn að koma með mér þangað og náði ég að kaupa tvennar leggings/buxur og einn bol. Nokkuð gott bara ;) Svo fórum við á einhvern bar/veitingastað þar sem við fengum okkur Tapas og sátum úti og borðuðum. Þvílíkur draumur í dós að lenda í svona góðu veðri, segi nú ekki meira!