Dagurinn byrjaði eins og allir aðrir dagar. Við vöknuðum um sjöleytið, Valur græjaði nesti handa fjölskyldunni og strákarnir fóru í skólann. Þá var komið að okkur fullorðna fólkinu að koma okkur af stað í vinnu. Ég ætlaði að keyra Val fyrst á stofuna og fara svo í sund áður en ég færi sjálf að vinna. En þá fundust bíllyklarnir hvergi. Sökudólgurinn var ég - hafði verið síðast á bílnum. Datt helst í hug að ég hefði sett lyklana í vasann á flíspeysunni minni (í stað þess að hengja þá á þar til gerðan snaga). Ekki voru þeir þar. Ég leitaði út um allt en datt þá allt í einu í hug að hugsanlega hefði ég gleymt þeim í svissinum (sem hefur aldrei gerst áður). Viti menn, þar voru þeir!
Við brunuðum af stað og ég skilaði Val af mér áður en ég ók sem leið lá upp í sundlaug. Þar tók við næsta vandamál. Komin úr öllum fötunum áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt sundgleraugunum heima, sem þýddi það að ég gat ekkert synt. Hefði getað klætt mig aftur og farið fram í afgreiðsluna til að fá lánuð sundgleraugu en nennti því ómögulega. Þannig að það var bara heitur pottur + gufa í þetta sinnið.
Eftir að hafa grillað mig og gufusoðið mætti ég í vinnuna um hálf níu leytið, tilbúin að takast á við verkefni dagsins. En þá var tölvan mín frosin og ég þurfti að endurræsa hana. Windows log in kerfið er hins vegar bilað í tölvunni (sem er ástæðan fyrir því að ég var löngu hætt að slökkva á henni en valdi alltaf stand by í staðinn) og það tók mig klukkutíma að komast inn í tölvuna. Klukkutíma! Var þá búin að logga mig inn einhvers staðar á milli 10 og 20 sinnum (hætti að telja eftir 10 skipti). Nú er liðinn rúmur hálftími síðan ég gat byrjað að vinna - en ég er bara dottin úr öllu stuði. Eins og einhver spyrji að því hvort maður sé í stuði!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli