miðvikudagur, 13. apríl 2005

Afrekuðum

að fara í bíó í gærkvöldi hjónin. Okkur finnst báðum gaman að fara í bíó en einhverra hluta vegna förum við samt ekki nema í hæsta lagi 3-4 sinnum á ári. Mig minnir að myndin hafi heitið "In good company" og hún var bara alveg ágæt. Það mátti a.m.k. hafa gaman af henni þó hún hafi ekki skilið mikið eftir sig. Ég skil samt ekki alveg hvernig þeir fara að því að halda úti kvikmyndahúsi á Akureyri. Held að við höfum verið 8 í allt sem vorum á þessari mynd og svipaður fjöldi í hinum salnum.

Annars er ég vöknuð fyrir allar aldir þessa morgnana, eða uppúr hálf sex, sem telst nú snemmt þegar ég á í hlut. Hvort sem það er birtan úti eða streita þá finnst mér þetta eiginlega ekki fyndið. Kannski er þetta bara ellin.... Finn það a..m.k. að B-manneskjan ég er farin að kunna vel við A-manneskju mynstrið. Fara snemma að sofa og snemma á fætur, líka um helgar. Enda var ég mætt í sund fyrir hálf níu á sunnudagsmorguninn síðasta. Það hefði nú einhvern tímann þótt frétt til næsta bæjar!

Engin ummæli: