mánudagur, 12. maí 2008

Þolinmæði eða öllu heldur skortur á henni

heldur áfram að vera minn akkillesarhæll. Ég hef verið frekar óþolinmóð á meðan á þessu bakveseni mínu hefur staðið og helst viljað verða góð í bakinu einn tveir og þrír. Þegar þrjár vikur voru liðnar frá aðgerðinni var fóturinn ennþá dofinn niður í tær og ég var farin að óttast að hann yrði bara aldrei góður. Stressaði mig upp yfir því en ákvað svo að hætta bara að hugsa um þennan blessaða fót minn. Það hjálpaði vissulega til að byrja að vinna og stússast því þá var miklu minni tími aflögu til að velta sér upp úr eigin vandamálum. Og um leið og ég hætti að hafa áhyggjur fór fóturinn að lagast. Ókey, ég er svo sem ekki orðin algóð ennþá en þetta er samt allt í áttina. Sem sagt hið besta mál.

Óþolinmæði hrjáir mig líka í ljósmynduninni. Ég er ekki að nenna að sökkva mér niður í að læra allt um ljósop, hraða og ólíkar linsur, heldur vil helst bara kunna þetta allt saman! Í gær fór ég t.d. út í Kjarnaskóg með nýja linsu sem Valur keypti um daginn og allar myndirnar sem ég tók misheppnuðust. Í fyrradag fór ég líka með myndavél út í Kjarnaskóg, að vísu með aðra linsu, og þó þær myndir hafi ekki beint verið misheppnaðar þá var engin góð.

Skortur á þolinmæði er hins vegar ekki að plaga manninn minn í hans ljósmyndun. Í gærmorgun fór hann út að Hundatjörn í Krossanesborgum með þrífót og aðdráttarlinsu/sjónauka og beið þar sallarólegur meðan fuglarnir vöndust nærveru hans. Í kjölfarið náði hann alveg frábærum fuglamyndum. Hann þarf bara að koma sér upp Flickr síðu svo fleiri geti fengið að njóta myndanna hans :-)

Engin ummæli: