Til dæmis þá er lokahrinan í gangi með að innrétta verslunina á Glerártorgi og það er alltaf að koma eitthvað upp sem þarf að sinna og hugsa út í. Ennþá er ótal margt sem við Sunna eigum eftir að gera í tengslum við flutningana, s.s. að panta meira af vörum, þrífa nýju búðina, pakka dótinu í Strandgötunni og flytja á Glerártorg, raða í hillur (sem verður kannski smá höfuðverkur), já og búa til vaktaplan fyrir sumarið. Plús fullt af dóti sem ég er örugglega að gleyma í augnablikinu. Það er annars frekar skrýtið að sjá þetta allt saman verða að veruleika. Við vorum orðnar vanar að skoða innréttingarnar á teikningum en svo er allt öðruvísi að sjá þær komnar upp. Sumt er alveg eins gott og maður hafði ímyndað sér, annað er betra og sumt er síðra. En iðnaðarmennirnir segja okkur að fólk sé að koma og skoða viðarhillurnar og hrósa því hvað þær séu flottar, þannig að það lofar góðu.
Á sama tíma og ég hugsa um Potta og prik frá morgni til kvölds hef ég verið að leita á netinu að íbúð á Ítalíu og er vonandi búin að finna þá einu réttu (með loftkælingu). Bíð bara eftir að fá staðfestingu frá miðlaranum. Þetta var í fyrsta sinn sem hún fékk bréf frá Íslendingi og henni fannst það voða gaman. Þá á ég bara eftir að panta flug frá Köben til Ítalíu + bílaleigubíl og þá er sumarfríið í höfn... Ég keypti mér meira að segja bikini í gær en það er nokkuð sem ég hef ekki gert síðan við fórum til Portúgal fyrir 11? árum síðan. Hef bara átt sundboli og tankini síðan því það er best að synda í þeim. Spurning að prófa að synda í bikini í fyrramálið, athuga hvort það er hægt.
Fleira sem ég hef þurft að hugsa um þessa dagana er yfirvofandi Svíþjóðarferð Ísaks. Ég sótti sænskar krónur fyrir hann í dag og á morgun fer pabbi hans vonandi með hann að kaupa stuttbuxur. Hann er bara búinn að týna 2 stk. KA stuttbuxum í íþróttum í vetur og þær koma ekki í leitirnar. Æ, já svo þyrfti ég helst að merkja fötin hans. En Ísak fer sem sagt á sunnudaginn í ferðina og verður í burtu fram á föstudag. Það er alla vega einn kostur við það, ég þarf þá ekki að hafa samviskubit yfir því að vanrækja soninn þegar ég mun verða í vinnunni frá morgni til kvölds alla vikuna (í stórum dráttum amk).
Valur verður líka fjarverandi lungann úr vikunni. Á mánudagseftirmiðdag fer hann suður að horfa/hlusta á tónleika með Bob Dylan og kemur heim um hádegi á þriðjudag til að vinna. Á fimmtudag og föstudag verður hann á Sauðárkróki að vinna. Það var nú markmiðið hjá honum að vera í fríi þegar við opnuðum búðina en af því opnuninni seinkaði um viku þá fór þetta svona.
Andri er að byrja í prófum í næstu viku, svo þetta verður svolítið skrýtin vika hjá okkur öllum.
Og nú vantar klukkuna korter í eitt og ég er ekki vitund syfjuð ennþá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli