laugardagur, 17. maí 2008

Önnur mynd úr fjörunni


Skeljasandur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég ligg hér í sófanum og hangi í tölvunni í staðinn fyrir að vera að hvíla mig - eða það segir Valur að minnsta kosti. Ég fór sem sagt í tvær bæjarferðir í dag, fyrst til að finna föt á sjálfa mig og svo fór ég með Ísak að kaupa buxur, skó og húfu. Seinni ferðin tók mun lengri tíma en ég ætlaðist til. Við byrjuðum á að fara í Toppmenn og sport þar sem við fengum buxur og skó en enga húfu. Næst fórum við í Sportver og þar hitti ég gamla vinkonu frá árunum í Tromsö og þurfti að sjálfsögðu að spjalla við hana. Næst rak ég augun í sundboli og fór að skoða þá og endaði með því að fá 2 stk. lánuð heim. Húfur fengust ekki. Nóg var hins vegar til af derhúfum. Það er eins og menn gleymi því að hitastigið fer ekki oft upp fyrir 10 gráðurnar á Íslandi á sumrin og fólk þarf að geta keypt húfur þó sumarið sé komið samkvæmt dagatalinu. Jæja, úr því ég var komin á Glerártorg ákvað ég að skreppa og kíkja á plássið okkar í leiðinni. Þar var búið að mála lokaumferðina, hengja upp brautir fyrir ljósin og leggja steinteppið. Þetta er að verða svakalega flott og verður bara enn flottara þegar innréttingarnar eru komnar. Að þessu loknu fór ég svo með Ísak í Strax að kaupa laugardagsnammi. En nú er best að hlýða bóndanum og reyna að hvíla sig aðeins svo ég verði ekki eins og lufsa á útskriftarafmælinu í kvöld ;-)

Engin ummæli: