miðvikudagur, 28. maí 2008
Mullersæfingar í morgunsárið
Já, ég ákvað að byrja daginn á því að fara í sund til að ná úr mér þreytu og fá smá sólarorku. Þegar ég var búin að synda sá ég að ég hafði tíma til að leggjast aðeins í "legvatnið" eins og sumir kalla það, þ.e. grunna pottinn. En þá voru Mullersmenn og kona (það er bara ein kona með þeim) að hefja æfingarnar og þótti nú heldur betur lag að fá mig með sér. Þau hafa reyndar oft verið að skjóta á mig með þetta áður en í þetta sinn ákvað ég að taka þátt. Komst fljótlega að því að mig skortir allan styrk í bakið en engu að síður voru þarna líka góðar teygjur sem ég gat gert. Þegar ég fór fékk ég að heyra að svo væri bara málið að mæta aftur á morgun! Ég sagði að það væri ekki víst að ég myndi hafa tíma til þess og þá fékk ég svona vorkunnaraugnaráð (eða eitthvað augnaráð) sem gaf í skyn að ég væri nú bara að segja þetta til að þurfa ekki að gera æfingarnar aftur. En ég var að hugsa um að á morgun yrði svo mikið að gera við að raða vörum í hillur í nýju búðinni og ekki víst að ég kæmist í sund. En nú er ég farin í vinnuna að pakka og flytja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli