Þegar ég var 16 ára hafði ég ekki hugmynd um það hvað ég vildi gera við líf mitt. Þannig að ég skráði mig í MA eins og allir hinir og hóf nám þar að hausti. Á sama tíma umgekkst ég vinkonur mínar lítið, átti kærasta og varð meira fyrir áhrifum frá hans umhverfi heldur en mínu. Í hans umhverfi tíðkaðist ekki að leggja fyrir sig langskólanám heldur var horft meira á kosti þess að komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn og vinna fyrir salti í grautinn. Og af því ég hafði engar skýrar hugmyndir um framtíð mína þá hafði ég að sama skapi afar lítinn áhuga á náminu í MA. Lærði heima í þeim fögum sem mér fundust skemmtileg, s.s. tungumálum en ekki þeim fögum sem mér fundust leiðinleg eða ég átti í erfiðsleikum með s.s. raungreinum. Hið óhjákvæmilega gerðist því, ég féll í stærðfræði og efnafræði á haustprófunum. Nemendur gátu haldið áfram á vorönn og ef samanlögð einkunn að vori og hausti náði lágmarkseinkunn gat nemandinn haldið áfram námi. Ég vissi sem var, að það væru ekki miklar líkur á slíku kraftaverki og hætti í skólanum í janúar/febrúar.
Mömmu fannst ótækt að ég hætti í skóla án þess að hafa einhverja varaáætlun og kom hún því til leiðar að ég færði mig yfir í Gagnfræðaskólann og hóf sjúkraliðanám. Þar þurfti ég reyndar að taka upp fög sem ég hafði misst af á haustönninni s.s. næringarfræði og einnig þurfti ég að taka upp stærðfræðina sem ég hafði fallið í. Þar sem ég hafði nú að einhverju að stefna að fór ég frekar létt með þetta og stóð jafnfætis skólasystrum mínum í sjúkraliðanáminu um vorið. Og án þess að þurfa að orðlengja það eitthvað frekar þá útskrifaðist ég sem sjúkraliði árið 1983.
Í nóvember það sama ár eignaðist ég hana Hrefnu mína. Eftir 3ja mánaða fæðingarorlof hélt ég áfram að vinna á FSA og gerði það í rúm tvö ár í viðbót. Þá var ég hætt með barnsföðurnum og búin að sjá að ég gat ekki hugsað mér að vera sjúkraliði alla starfsævina. Á þessum tíma var viss hluti launa ungs fólks sem átti ekki húsnæði lagður inná bók og átti að greiðast út þegar fólk keypti sitt fyrsta húsnæði. Þessa peninga gat ég sem einstæð móðir fengið greidda út og notað til framfærslu meðan ég tók stúdentinn.
Haustið 1986 skráði ég mig í VMA, á heilsugæslubraut (sem heitir í dag náttúrufræðibraut) og var með kvíðahnút í maganum nánast alla fyrstu önnina því allt í einu var ég komin með metnaðinn til að standa mig vel sem mig hafði skort áður. Ég lagði mig því töluvert fram í náminu og útskrifaðist vorið 1988 með þessar fínu einkunnir.
Bekkurinn sem ég var í var mjög fínn, þetta voru reyndar allt stelpur fyrir utan einn strák. Stelpurnar voru flestar á leið í hjúkrunarfræði og strákurinn ætlaði í sjúkraþjálfun. Hann átti reyndar eftir að skipta um skoðun og endaði sem kerfisfræðingur en þær eru flestar hjúkrunarfræðingar í dag, þó sumar starfi við annað. Útskriftarárgangurinn hefur haldið uppá 5 ára, 10 ára og 15 ára stúdentsafmælin og það hefur alltaf verið mjög gaman. Í dag er svo haldið uppá 20 ára afmælið og byrjar dagskráin klukkan tólf með "óvissuferð" sem endar í jarðböðunum í Mývatnssveit. Í kvöld verður svo farið upp í Hlíðarfjall og borðað þar. Ég legg ekki í óvissuferðina útaf bakinu á mér en ætla að vera með í kvöld.
En í og með af því ég verð ekki með í dag þá er ég varla að nenna að fara í kvöld. Líka vegna þess að ég á engin föt til að vera í. Ég hafði ætlað að dressa mig upp fyrir árshátíð Læknastofa Akureyrar en af því ég komst ekki á hana þá keypti ég mér auðvitað engin föt. Fór smá rúnt um fatabúðir bæjarins um síðustu helgi en fann ekki neitt spennandi. Við erum ekki að tala um neinn galaklæðnað, bara eitthvað nýtt sem klæðir mig vel. En ætli sé samt ekki best að hætta þessu rausi og gera aðra tilraun í tuskubúðunum...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli