laugardagur, 31. maí 2008
Frábærar móttökur
miðvikudagur, 28. maí 2008
Mullersæfingar í morgunsárið
mánudagur, 26. maí 2008
Kvöldbirta
Það var svo falleg birta úti um tíuleytið í kvöld svo ég fór út á tröppur og smellti af. Tók reyndar líka myndir fyrir aftan hús, af Súlum, en þær tókust ekki nógu vel.
Nokkrir punktar...
* Það er þvottur í þvottavélinni og ég nenni ekki að hengja hann út á snúru.
* Það á ennþá eftir að þvo leirtauið eftir kvöldmatinn í gær.
* Hingað kom vaskur karlmaður í dag og losaði stífluna í eldhúsvaskinum
* Valur er fyrir sunnan á tónleikum með Bob Dylan. Vonandi skemmtir hann sér vel.
* Ég heyrði aðeins í Ísaki í dag og honum líst vel á sig í Svíþjóð.
* Andri fékk að ráða hvað var í kvöldmatinn hjá okkur tveimur = Pítsa.
* Við Sunna vorum á fullu í allan dag í alls kyns útréttingum og stússi.
* Morgundagurinn fer líka í stúss.
* Búðin er að taka á sig mynd og verður rosalega flott!
* Mig langar að horfa á gamanmynd en nenni ekki út á vídeoleigu.
* Ég prófaði að synda í bikini-inu á sunnudaginn en var ekki alveg að gera sig.
* Andri er í prófum og það sem meira er - hann les fyrir prófin :-)
* Mig langar út að ganga en nenni því ekki.
* Mig langar líka í ný sumarföt en nenni ekki að fara í fataleiðangur.
* Vildi að ég lægi á grasbala niðri í fjöru og hlustaði á aðfallið.
* Legg ekki meira á ykkur að sinni.
* Er farin að glápa á imbann í smá stund áður en ég fer í húsverkin.
sunnudagur, 25. maí 2008
Ég held að ég láti pípulagningar eiga sig á næstunni
laugardagur, 24. maí 2008
Það er spurning að minnka ginseng skammtinn?
Til dæmis þá er lokahrinan í gangi með að innrétta verslunina á Glerártorgi og það er alltaf að koma eitthvað upp sem þarf að sinna og hugsa út í. Ennþá er ótal margt sem við Sunna eigum eftir að gera í tengslum við flutningana, s.s. að panta meira af vörum, þrífa nýju búðina, pakka dótinu í Strandgötunni og flytja á Glerártorg, raða í hillur (sem verður kannski smá höfuðverkur), já og búa til vaktaplan fyrir sumarið. Plús fullt af dóti sem ég er örugglega að gleyma í augnablikinu. Það er annars frekar skrýtið að sjá þetta allt saman verða að veruleika. Við vorum orðnar vanar að skoða innréttingarnar á teikningum en svo er allt öðruvísi að sjá þær komnar upp. Sumt er alveg eins gott og maður hafði ímyndað sér, annað er betra og sumt er síðra. En iðnaðarmennirnir segja okkur að fólk sé að koma og skoða viðarhillurnar og hrósa því hvað þær séu flottar, þannig að það lofar góðu.
Á sama tíma og ég hugsa um Potta og prik frá morgni til kvölds hef ég verið að leita á netinu að íbúð á Ítalíu og er vonandi búin að finna þá einu réttu (með loftkælingu). Bíð bara eftir að fá staðfestingu frá miðlaranum. Þetta var í fyrsta sinn sem hún fékk bréf frá Íslendingi og henni fannst það voða gaman. Þá á ég bara eftir að panta flug frá Köben til Ítalíu + bílaleigubíl og þá er sumarfríið í höfn... Ég keypti mér meira að segja bikini í gær en það er nokkuð sem ég hef ekki gert síðan við fórum til Portúgal fyrir 11? árum síðan. Hef bara átt sundboli og tankini síðan því það er best að synda í þeim. Spurning að prófa að synda í bikini í fyrramálið, athuga hvort það er hægt.
Fleira sem ég hef þurft að hugsa um þessa dagana er yfirvofandi Svíþjóðarferð Ísaks. Ég sótti sænskar krónur fyrir hann í dag og á morgun fer pabbi hans vonandi með hann að kaupa stuttbuxur. Hann er bara búinn að týna 2 stk. KA stuttbuxum í íþróttum í vetur og þær koma ekki í leitirnar. Æ, já svo þyrfti ég helst að merkja fötin hans. En Ísak fer sem sagt á sunnudaginn í ferðina og verður í burtu fram á föstudag. Það er alla vega einn kostur við það, ég þarf þá ekki að hafa samviskubit yfir því að vanrækja soninn þegar ég mun verða í vinnunni frá morgni til kvölds alla vikuna (í stórum dráttum amk).
Valur verður líka fjarverandi lungann úr vikunni. Á mánudagseftirmiðdag fer hann suður að horfa/hlusta á tónleika með Bob Dylan og kemur heim um hádegi á þriðjudag til að vinna. Á fimmtudag og föstudag verður hann á Sauðárkróki að vinna. Það var nú markmiðið hjá honum að vera í fríi þegar við opnuðum búðina en af því opnuninni seinkaði um viku þá fór þetta svona.
Andri er að byrja í prófum í næstu viku, svo þetta verður svolítið skrýtin vika hjá okkur öllum.
Og nú vantar klukkuna korter í eitt og ég er ekki vitund syfjuð ennþá.
fimmtudagur, 22. maí 2008
"Thanks for the taxi service"
Er enn að leita að húsi einhvers staðar í Evrópu, er komin með tvo í sigtið, annað í Frakklandi en hitt á Ítalíu. Held reyndar að það sé loftkæling í hvorugu... og við verðum þarna á heitasta tíma. En það er sundlaug :-)
mánudagur, 19. maí 2008
Framför
Og nú fannst mér allt í einu sem bloggið mitt væri orðið svo nákvæmt um líf mitt að næst kæmi "og svo andaði ég inn og síðan andaði ég út"... Æ, æ!
Blaður um allt og ekkert
Annars hef ég bara eitthvað voðalega lítið að segja. Fór í nudd áðan og er hálf dösuð eftir það. Ég stífna svo mikið upp í bakinu og er að reyna að vinna á þessum stífu vöðvum með því að fara í nudd. Um daginn tókst henni að losa svo vel um þetta að ég gat gengið algjörlega eðlilega (eða það fannst mér að minnsta kosti) í einn til tvo daga á eftir. Svo fór allt í sama farið aftur. Núna prófaði hún svæðanudd og ég á eftir að sjá hvernig það kemur út. Er mjög stíf í bakinu ennþá en það á vonandi eftir að lagast.
Ég er enn að vinna tvo tíma á dag og ætla að gera þessa vikuna. Við Sunna erum alltaf eitthvað að stússast svo vinnudagurinn er nú yfirleitt lengri en þessir tveir tímar. Svo verður nóg að brasa í næstu viku þegar flutningarnir skella á þannig að ég hef bara gott af því að reyna að jafna mig eins og hægt er áður en fjörið byrjar.
laugardagur, 17. maí 2008
Önnur mynd úr fjörunni
Ég ligg hér í sófanum og hangi í tölvunni í staðinn fyrir að vera að hvíla mig - eða það segir Valur að minnsta kosti. Ég fór sem sagt í tvær bæjarferðir í dag, fyrst til að finna föt á sjálfa mig og svo fór ég með Ísak að kaupa buxur, skó og húfu. Seinni ferðin tók mun lengri tíma en ég ætlaðist til. Við byrjuðum á að fara í Toppmenn og sport þar sem við fengum buxur og skó en enga húfu. Næst fórum við í Sportver og þar hitti ég gamla vinkonu frá árunum í Tromsö og þurfti að sjálfsögðu að spjalla við hana. Næst rak ég augun í sundboli og fór að skoða þá og endaði með því að fá 2 stk. lánuð heim. Húfur fengust ekki. Nóg var hins vegar til af derhúfum. Það er eins og menn gleymi því að hitastigið fer ekki oft upp fyrir 10 gráðurnar á Íslandi á sumrin og fólk þarf að geta keypt húfur þó sumarið sé komið samkvæmt dagatalinu. Jæja, úr því ég var komin á Glerártorg ákvað ég að skreppa og kíkja á plássið okkar í leiðinni. Þar var búið að mála lokaumferðina, hengja upp brautir fyrir ljósin og leggja steinteppið. Þetta er að verða svakalega flott og verður bara enn flottara þegar innréttingarnar eru komnar. Að þessu loknu fór ég svo með Ísak í Strax að kaupa laugardagsnammi. En nú er best að hlýða bóndanum og reyna að hvíla sig aðeins svo ég verði ekki eins og lufsa á útskriftarafmælinu í kvöld ;-)
20 ára stúdentsafmæli - varúð langur pistill!
Þegar ég var 16 ára hafði ég ekki hugmynd um það hvað ég vildi gera við líf mitt. Þannig að ég skráði mig í MA eins og allir hinir og hóf nám þar að hausti. Á sama tíma umgekkst ég vinkonur mínar lítið, átti kærasta og varð meira fyrir áhrifum frá hans umhverfi heldur en mínu. Í hans umhverfi tíðkaðist ekki að leggja fyrir sig langskólanám heldur var horft meira á kosti þess að komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn og vinna fyrir salti í grautinn. Og af því ég hafði engar skýrar hugmyndir um framtíð mína þá hafði ég að sama skapi afar lítinn áhuga á náminu í MA. Lærði heima í þeim fögum sem mér fundust skemmtileg, s.s. tungumálum en ekki þeim fögum sem mér fundust leiðinleg eða ég átti í erfiðsleikum með s.s. raungreinum. Hið óhjákvæmilega gerðist því, ég féll í stærðfræði og efnafræði á haustprófunum. Nemendur gátu haldið áfram á vorönn og ef samanlögð einkunn að vori og hausti náði lágmarkseinkunn gat nemandinn haldið áfram námi. Ég vissi sem var, að það væru ekki miklar líkur á slíku kraftaverki og hætti í skólanum í janúar/febrúar.
Mömmu fannst ótækt að ég hætti í skóla án þess að hafa einhverja varaáætlun og kom hún því til leiðar að ég færði mig yfir í Gagnfræðaskólann og hóf sjúkraliðanám. Þar þurfti ég reyndar að taka upp fög sem ég hafði misst af á haustönninni s.s. næringarfræði og einnig þurfti ég að taka upp stærðfræðina sem ég hafði fallið í. Þar sem ég hafði nú að einhverju að stefna að fór ég frekar létt með þetta og stóð jafnfætis skólasystrum mínum í sjúkraliðanáminu um vorið. Og án þess að þurfa að orðlengja það eitthvað frekar þá útskrifaðist ég sem sjúkraliði árið 1983.
Í nóvember það sama ár eignaðist ég hana Hrefnu mína. Eftir 3ja mánaða fæðingarorlof hélt ég áfram að vinna á FSA og gerði það í rúm tvö ár í viðbót. Þá var ég hætt með barnsföðurnum og búin að sjá að ég gat ekki hugsað mér að vera sjúkraliði alla starfsævina. Á þessum tíma var viss hluti launa ungs fólks sem átti ekki húsnæði lagður inná bók og átti að greiðast út þegar fólk keypti sitt fyrsta húsnæði. Þessa peninga gat ég sem einstæð móðir fengið greidda út og notað til framfærslu meðan ég tók stúdentinn.
Haustið 1986 skráði ég mig í VMA, á heilsugæslubraut (sem heitir í dag náttúrufræðibraut) og var með kvíðahnút í maganum nánast alla fyrstu önnina því allt í einu var ég komin með metnaðinn til að standa mig vel sem mig hafði skort áður. Ég lagði mig því töluvert fram í náminu og útskrifaðist vorið 1988 með þessar fínu einkunnir.
Bekkurinn sem ég var í var mjög fínn, þetta voru reyndar allt stelpur fyrir utan einn strák. Stelpurnar voru flestar á leið í hjúkrunarfræði og strákurinn ætlaði í sjúkraþjálfun. Hann átti reyndar eftir að skipta um skoðun og endaði sem kerfisfræðingur en þær eru flestar hjúkrunarfræðingar í dag, þó sumar starfi við annað. Útskriftarárgangurinn hefur haldið uppá 5 ára, 10 ára og 15 ára stúdentsafmælin og það hefur alltaf verið mjög gaman. Í dag er svo haldið uppá 20 ára afmælið og byrjar dagskráin klukkan tólf með "óvissuferð" sem endar í jarðböðunum í Mývatnssveit. Í kvöld verður svo farið upp í Hlíðarfjall og borðað þar. Ég legg ekki í óvissuferðina útaf bakinu á mér en ætla að vera með í kvöld.
En í og með af því ég verð ekki með í dag þá er ég varla að nenna að fara í kvöld. Líka vegna þess að ég á engin föt til að vera í. Ég hafði ætlað að dressa mig upp fyrir árshátíð Læknastofa Akureyrar en af því ég komst ekki á hana þá keypti ég mér auðvitað engin föt. Fór smá rúnt um fatabúðir bæjarins um síðustu helgi en fann ekki neitt spennandi. Við erum ekki að tala um neinn galaklæðnað, bara eitthvað nýtt sem klæðir mig vel. En ætli sé samt ekki best að hætta þessu rausi og gera aðra tilraun í tuskubúðunum...
föstudagur, 16. maí 2008
Fundið í fjöru
Enn á ferð með myndavélina... Við Valur skruppum í smá bíltúr í kvöld og enduðum úti í Krossanesi. Þar klöngraðist ég niður brekku og niður í fjöru og smellti af nokkrum myndum. Eins og svo oft áður þá misheppnaðist meirihlutinn en það gerir ekkert til. En mikið hlýt ég að vera orðin góð í fætinum úr því ég gat gengið í þúfum, niður brekku og upp brekku án þess að missa jafnvægið eða detta :-)
fimmtudagur, 15. maí 2008
Enn meiri seinkunn
þriðjudagur, 13. maí 2008
Sá á kvölina sem á völina
mánudagur, 12. maí 2008
Ísak djúpt niðursokkinn
Hann var reyndar að endurvekja brandara- og gátusíðuna sína eftir þriggja ára hlé. Það eru nokkrir góðir brandarar þar ;-)
Þolinmæði eða öllu heldur skortur á henni
Óþolinmæði hrjáir mig líka í ljósmynduninni. Ég er ekki að nenna að sökkva mér niður í að læra allt um ljósop, hraða og ólíkar linsur, heldur vil helst bara kunna þetta allt saman! Í gær fór ég t.d. út í Kjarnaskóg með nýja linsu sem Valur keypti um daginn og allar myndirnar sem ég tók misheppnuðust. Í fyrradag fór ég líka með myndavél út í Kjarnaskóg, að vísu með aðra linsu, og þó þær myndir hafi ekki beint verið misheppnaðar þá var engin góð.
Skortur á þolinmæði er hins vegar ekki að plaga manninn minn í hans ljósmyndun. Í gærmorgun fór hann út að Hundatjörn í Krossanesborgum með þrífót og aðdráttarlinsu/sjónauka og beið þar sallarólegur meðan fuglarnir vöndust nærveru hans. Í kjölfarið náði hann alveg frábærum fuglamyndum. Hann þarf bara að koma sér upp Flickr síðu svo fleiri geti fengið að njóta myndanna hans :-)
sunnudagur, 11. maí 2008
Vinkonur
Þegar ég var lítil (eða 1967 nánar tiltekið - held ég) flutti ég í Stekkjargerði 7. Um svipað leyti eignaðist ég mína fyrstu bestu vinkonu. Það var hún Rósa sem átti heima gegnt mér, í Stekkjargerði 8. Jafngamlar vorum við, áttum meira að segja báðar afmæli í nóvember, ég þann 12. og hún þann 29. Bernskuárin liðu og við lékum okkur alltaf saman. Reyndar tóku fleiri þátt í leikjunum, hverfið var gjörsamlega fullt af krökkum og mörg okkar vorum fædd á árinu 1964. Í Hamragerði voru tvíburarnir Harpa og Gígja, vinkona þeirra hún Hrefna, Þórdís og Hulda, Ottó í númer ?. Í Stekkjargerði, götunni minni, voru það Össi í númer 3, ég í númer 7, Rósa í númer 8, Sigrún í númer 13 og Heibba í nr. 14. Í Kotárgerði voru það a.m.k. Hildur í nr. 1 og Birna í nr. 7, Bjarni Bjarna í nr. 10 eða 12... og örugglega einhverjir fleiri krakkar þó ég muni ekki nöfnin þeirra í augnablikinu. Þá eru ótalin þau sem áttu afmæli árin á undan eða á eftir - já og allir krakkarnir í Akurgerði sem voru jafn gömul, Maggi Magg, Maggi Ax, Ingibjörg Harðar, Elva Kára, Jóka Gumm... "Those were the days..."
Æ, alla vega the bottom line er - að gamlar vinkonur eru gulls ígildi, jafnvel þótt fólk hafi misst sjónar af hvort öðru um tíma. Munið að meta það sem þið eigið ;-)
föstudagur, 9. maí 2008
Mikið að gera...
Sumarið er komið - farið - komið aftur - og farið aftur... Það er fremur kuldalegt um að litast úti en þetta hvíta sem fellur af himnum nær þó ekki að setjast á jörðina sem betur fer.
Ég er orðin svo góð í bakinu og fætinum að bráðum verð ég bara alveg eins og ný :-)
mánudagur, 5. maí 2008
Gaman að vera byrjuð að vinna :-)
Annars er ég búin að finna frábært hjálpartæki fyrir upptekið fólk. Það er dagbók á netinu sem hægt er að fylla út í - og til að kóróna það er hægt að samræma dagbækur fleira fólks, þannig að það er hægt að sjá hvað er um að vera hjá eiginmanninum líka. Mæli með þessu, www.google.com/calendar
laugardagur, 3. maí 2008
"Þetta er allt að koma"
Næst algengasta spurningin sem ég fæ þessa dagana er "Hvernig gengur að innrétta á Glerártorgi?" og því svara ég eitthvað á þá leið að það sé allt í réttum farvegi. Búið að reisa milliveggi, málarinn er búinn að mála loftið og er langt kominn með veggina. Við þurfum að ákveða á mánudaginn hvaða tilboði við ætlum að taka í ljósin (sem eru "by the way" ótrúlega dýr). Jónas í Valsmíði er á fullu að smíða innréttingarnar og - já þetta klárast vonandi allt á réttum tíma. Það eru tæpar þrjár vikur til stefnu... ;-)
Ég ætla að byrja að vinna aftur á mánudaginn, er ekki að meika að hanga svona heima lengur. En af því allir eru nú að segja mér að passa mig og taka því rólega þá ætla ég bara að vinna 2 tíma á dag til að byrja með. Hlakka samt til.
Læt þetta gott heita, er farin að horfa á Morse með hössbandinu.
fimmtudagur, 1. maí 2008
Máni
Valur tók þessa mynd af Mána með nýju macrolinsunni sem hann (Valur, ekki Máni) var að panta frá Adorama.