föstudagur, 1. október 2004

Leikvöllurinn

fyrir aftan húsið okkar hefur verið óbreyttur í u.þ.b. 35 ár eða svo. Það er að segja, í upphafi var hann auðvitað flottur og fínn, glæný leiktæki, rólur, sandkassar, vegasalt, rennibraut og eitthvað snúningsapparat sem ég veit ekki hvað heitir. Við krakkarnir í hverfinu nýttum leikvöllinn til hins ýtrasta, m.a. annars var rólað og sungið hástöfum "Er ég kem heim í Búðardal" og fleiri lög sem voru vinsæl "í den" og á kvöldin var farið í slábolta, allt þar til nágranninn var orðinn þreyttur á að krakkaskarinn væri alltaf að sækja boltann inn á lóðina (við ruddumst örugglega í gegnum runnana) og fékk bæinn til að setja girðingu í gegnum leikvöllinn miðjan. Girðingin eyðilagði náttúrulega leikinn fyrir okkur og sennilega hefur ekki verið hugsað mjög fallega til nágrannans með verðlaunagarðinn.

Nema hvað, þegar við Valur fluttum hingað í Stekkjargerðið var leikvöllurinn gamli í algjörri niðurníslu. Búið var að brjóta og bramla sandkassann og fíflar og annað illgresi fékk að vaða yfir allt. Fyrstu 3 árin hringdi ég reglulega í formann leikvallanna og bað um að eitthvað yrði nú gert til bóta. Og í hvert skipti lofaði hann öllu fögru en síðan gerðist ekki neitt (minnir mig reyndar á son minn tölvufíkilinn en það er nú önnur saga) en lokst gafst ég upp á að hringja, enda vita gagnslaust.

Fyrir hálfum mánuði eða svo heyri ég allt í einu hljóð í vinnuvélum ofan af leikvelli og viti menn, verið var að grafa upp allan völlinn og búið að taka gömlu leiktækin. Ég varð ægilega ánægð og fylgdist með breytingunum dag frá degi. Það kom reyndar svolítið skrítinn svipur á mig þegar ég sá að þeir voru að undirbúa völlinn fyrir malbikun - ég ætlaði vart að trúa því að leikvöllurinn ætti að vera malbikaður og skildi ekkert hvað var að gerast - en jú, jú, malbikaður er hann en gúmmímottur umhverfis nýju, fínu leiktækin. Í gær var lokið við síðustu handtökin og börnin í hverfinu hafa alla vikuna leikið sér þarna meira og minna frá morgni til kvölds. Reyndar aðeins meiri hávaði sem berst inn til okkar fyrir vikið en meðan börnin eru glöð þá eru allir glaðir.

Í dag var ég heima (tók mér sumarfrí í einn dag....) og á einhverjum tímapunkti varð mér litið út um gluggann inni í Andra herbergi. Sé hvar einhver strákur, ca. 12 ára, sem ég hef aldrei séð áður er að spreyja einhverju á einn rólustaurinn (sem er úr tré) og hugsa með mér "Er drengurinn virkilega að úða lakki eða álíka á staurinn???" og næ varla upp í nefið á mér fyrir hneykslun. Nei, það næsta sem ég sé er að það logar glatt í staurnum á svæðinu sem hann hafði spreyjað á. Það fauk svo rosalega í mig að ég öskraði og æpti út um gluggann hvern andsk.. hann væri eiginlega að gera, þetta væru glæný leiktæki og svona gerði maður bara ekki.... og sitthvað fleira sem ég man ekki. Var alveg brjáluð! Eldurinn dó fljótt út en strákurinn hljóp strax í burtu og ég sá mest eftir því að hafa verið að æpa á hann út um gluggann, hefði auðvitað átt að fara út og taka af honum brúsann og kveikjarann. Vonandi kemur hann ekki og kveikir í hjá mér í hefndarskyni.....

Engin ummæli: