Ég hafði fögur fyrirheit, ætlaði að detta í dugnaðarkast í kvöld en varð eitthvað minna úr verki. Fór samt í ágætan göngutúr með vinkonu minni og eldaði þessa fínu stafasúpu þegar ég kom heim. Þetta er svo mikið vatnsgutl að maður þarf ekki einu sinni að drekka vatn með súpunni. En Ísaki finnst stafasúpa góð og Andri borðar hana án þess að mögla - þá er nú takmarkinu náð í minni eldamennsku! Ætli það verði ekki klassísk föstudagspítsa á morgun.....Dominos er í mestu uppáhaldi þessa dagana.
Fór í árangurslausan leiðangur í dag að leita að gardínuefni fyrir gluggann hjá Ísak. Herbergið var málað í vor og ég á alltaf eftir að setja upp nýjar gardínur, sem er ekki alslæmt því þá fær Valur tækifæri til að stríða mér! En mér til afsökunar skal tekið fram að það eru rimlagardínur fyrir glugganum, vantar bara eitthvað hlýlegt með þeim. Vandamálið hefur líka verið það að ég hef ekki fundið neitt efni sem hentar, ekki má það vera of barnalegt þar sem drengurinn er á tíunda aldursári, og ekki vil ég hafa það of fullorðinslegt heldur ;0)
Viðurkenni að andinn er ekki alveg yfir mér í skriftunum núna, best að hætta áður en maður drepur alla úr leiðindum. Er reyndar hálf þreytt og verð eiginlega að segja frá ástæðunni því það er hálf fyndið. Nema hvað, eftir mikla þreytu alla síðustu viku fór Valur í geymsluna og sótti minn kæra skammdegisþreytu-lampa. Ég byrjaði samviskusamlega að sitja fyrir framan hann 30 mín. á dag og fann fljótt gríðarlegan mun. Langaði ekki lengur að leggja mig þegar ég kom heim úr vinnunni á daginn og rauk um húsið og fann mér hin ýmsu verkefni. Varð reyndar svo ör að ég hef átt í erfiðleikum með að sofna á kvöldin alla þessa viku.....Eins og Bryndís samstarfskona mín segir þá má ég náttúrulega ekki misnota lampann svona!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli