mánudagur, 11. október 2004

Rigningarsuddi

úti og laufblöðin sem fokið hafa af trjánum undanfarna daga liggja eins og hráviði um alla lóð. Trén að verða hálf lufsuleg, þau laufblöð sem eftir eru hanga tilviljanakennt á greinunum og bara tímaspurmál hvenær allt verður farið. Þetta er ekki ósvipað því að líta í spegil þessa dagana! Ekki þar fyrir, hárið er nú allt á mér ennþá, þessi víruspesti mín hefur bara tekið sinn toll og ég er að verða eins og fuglahræða. Föl, með bauga undir augunum og augnaráðið fremur sljótt.

Annars las ég alveg yndislegt viðtal við Önnu Pálínu Árnadóttur söngkonu í afmælisblaði Krafts (stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein). Anna Pálína hefur barist við krabbamein í 5 ár en hefur tekist á ótrúlegan hátt að halda höfði í gegnum allar þessar hremmingar, m.a. með því að persónugera krabbameinið og líkja því við gamla hrörlega kerlingu, Kröbbu frænku, sem verður að búa hjá henni um stundarsakir. Síðast í viðtalinu er hún spurð hvað taki við núna og þessu svarar hún á eftirfarandi hátt: "Lífið er núna og ég ætla ekkert að eyðileggja daginn í dag af því dagurinn á morgun gæti orðið leiðinlegur. Ég er hérna núna, ég get notið lífsins og verið með börnunum og manninum mínum. Ég get gefið þeim þær stundir sem við eigum núna. Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun!"

Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun.

Engin ummæli: