fimmtudagur, 28. október 2004

Visa reikningar

eru misskemmtilegir. Reyndar notum við Visa afskaplega lítið nema til að greiða fasta liði eins og venjulega s.s. sjónvarpið, Moggann o.s.frv. Nema að sjálfsögðu þegar ferðast er til útlanda, þá stendur nú kortið aldeilis fyrir sínu. Og reikningurinn fyrir Parísarferðina datt inn um lúguna nýlega en ég var fyrst að skoða hann í dag.

Það var að vísu mjög lítil eyðsla í ferðinni (sérstaklega ef haft er í huga hverju ég hefði getað eytt í föt og skó ef verslanirnar hefðu ekki verið lokaðar á sunnudeginum) en ég neyddist til að horfast í augu við skemmtilega reikningsvillu sem ég gerði (viljandi að vísu) meðan við vorum úti. Þar sem ein evra er ca. 85 krónur þá margfaldaði ég allltaf með 80 til að finna út verðið í íslenskum. Vissi auðvitað alveg að ég var að rúnna þetta ansi vel af - en so what? Svo kemur visareikningurinn kæri og viti menn: jakkinn sem ég hafði "reiknað út" að kostaði ca. 6 þús. kostaði í raun 7 þús. og svörtu leðurstígvélin voru allt í einu komin í 14.135 (úr 12 þús. kalli).

Þetta eru þó smámunir hjá konunum sem voru að versla í London og sáu svo ægilega sæt peysusett á útsölu á (skv. þeirra útreikningum) 5 þús. íslenskar. Og af því peysurnar voru virkilega fallegar og virtust þar að auki vera vandaðar - þá keyptu þær eitt sett til viðbótar til að gefa þriðju vinkonunni þegar heim væri komið. Allt var í lukkunnar velstandi, alveg þar til Visareikningurinn kom og með honum sú kalda staðreynd að þær höfðu feilað sig um eitt núll þegar þær voru að snara enskum pundum yfir í íslenskar krónur. Þannig að peysusettið góða kostaði 50 þús. krónur stykkið á útsölunni! Enda um einhverja snobbverslun með hátískufatnað að ræða.

P.S.
Valur vill taka það fram að honum var alltaf ljóst að evran er 85 kr. - og hann fellur að sjálfsögðu ekki í þá gryfju að margfalda með 80 til þess að fá örlítið hagstæðari útkomu. Nei þetta er víst dæmigert kvennaúrræði....

Engin ummæli: