Á laugardagskvöldið fór ég ásamt Hjördísi vinkonu minni á Fiðlarann en þar var samankominn hópur fólks sem æfir í líkamsræktarstöðinni Átaki. Þeir allra sprækustu höfðu reyndar farið í jarðböðin í Mývatnssveit fyrr um daginn en þá lá ég heima með leynilögreglusögu (og kvef) og kláraði alla bókina, 311 bls. viðurkenni að ég var orðin frekar steikt í höfðinu fyrir rest. Það voru líklega í kringum 50 manns á Fiðlaranum og Gugga Gísla eigandi Átaks talaði um að gera þetta að árvissum viðburði (ásamt, jólagleðinni, árshátíðinni, páskafjörinu o.s.frv.) Það eina sem skyggði á gleðina voru gæði matarins - eða skortur á gæðum öllu heldur. Það var frekar bragðlaus sjávarréttasúpa í forrétt og vantaði bara smá "extra touch" til að gera hana góða, í aðalrétt voru ofsteiktar lambalundir (alveg well well well done) en eftirrétturinn, súkkulaðimús, bjargaði því sem bjargað varð og var bara mjög góður. Ég veit að þetta hljómar eins og óþarfa neikvæðni og maður borgaði nú bara 2.500 krónur fyrir herlegheitin en vandamálið er það að Fiðlarinn yrði örugglega ekki fyrir valinu næst þegar mér dytti í hug að fara út að borða með bóndanum. En koníaksstofan er hugguleg og fínt að sitja þar og spjalla þrátt fyrir helst til mikinn sígarettureyk á köflum.
Við Bryndís fórum í dag og kynntum niðurstöður könnunar sem við vorum að vinna fyrir Akureyrarbæ. Það er alltaf gott að reka endahnútinn á verkefni og ákveðinn léttir sem því fylgir að vera búin með kynninguna líka. Þá er bara að fara að finna sér ný verkefni......
Engin ummæli:
Skrifa ummæli