Er á leið í bæinn að skoða ferðatöskur. Við erum búin að eiga sömu ferðatöskurnar í tugi ára og hafa þær þjónað okkur vel og dyggilega. Hins vegar eru þær úr harðplasti og taskan mín brotnaði fyrir einhverju síðan þannig að hjólin kýldust upp í botninn og ég fæ yfirleitt mjög pirruð augnaráð frá fólki þegar ég dreg hana ískrandi á eftir mér á flugvöllum. Við erum ekki að tala um neitt smá ískur!
Parísarferð á næsta leyti. Við keyrum suður þegar Valur er búinn að vinna á morgun og fljúgum út á föstudagsmorguninn. Veðurspáin er svona la la, hitinn í kringum 10 stig en síðan fer það eftir því hvaða spá maður les hvort það er spáð rigningu, skýjuðu, sól eða öllu þessu. Hótelið sem við gistum á Henri IV er á vinstri bakkanum, í Latínuhverfinu nálægt Sorbonne háskólanum. Mér skilst að þetta sé mjög góð staðsetning, svo verður bara að koma í ljós hvernig hótelið er. Ég fann það á netinu og samkvæmt ummælum á Tripadvisor.com þá virðist þetta vera ágætis hótel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli