laugardagur, 30. október 2004

Gufubaðið

svíkur aldrei, ekki frekar en heiti potturinn. Þegar maður er með svona verkjaskrokk eins og ég (svo ekki sé minnst á hvað mér er alltaf kalt) þá veit ég fátt betra en skella mér í gufu eða heitan pott, nema hvort tveggja sé. Hins vegar veit ég fátt verra en fara í gufu og hún er ekki almennilega heit. Í morgun ætlaði ég í leikfimi með bóndanum en komst að því eftir 10 mín. rólega göngu á hlaupabrettinu að ég á langt í land með að endurheimta fyrri krafta mína. Þannig að ég ákvað að teygja bara og fara svo í langt og gott gufubað. Ætla ekki að reyna að lýsa vonbrigðum mínum þegar ég kom svo inn í gufuna og hún var rétt rúmlega hálf volg :-(

Talandi um gufuböð, þegar ég var í Reykjavík síðast þá fór ég í Laugardalslaugina að morgni til og eftir að hafa dólað um stund í heita pottinum þá fór ég á stúfana og leitaði að gufubaðinu. Fann það, opnaði hurðina og...... sá ekki handa minna skil. Gufan var svo mikil og þétt að ég sá gjörsamlega ekki neitt. Ljóstýra sem þarna var inni náði ekki að lýsa neitt upp. Lokaði samt hurðinni og þreifaði mig áfram að sæti rétt við dyrnar. Var fyrst í stað óskaplega ánægð, þetta var nú gufubað í lagi, vel heitt og fínt. Eftir smá stund var þó friðurinn úti. Mér datt nefnilega í hug að það gæti legið lík á gólfinu rétt við hliðina á mér, án þess að ég hefði hugmynd um það. Kannski hefði einhver fengið hjartaslag þarna inni, eldri borgari ef til vill, sundlaugin var full af þeim. Eða kannski hefði einhver verið myrtur (spurning með hvaða aðferð, það hefði þá líklega helst verið kyrking því frekar erfitt er að fela á sér vopn innanklæða í laugunum). Og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta, þess fullvissari varð ég. Það lá örugglega lík á gólfinu í gufunni. Rétt í þann mund sem ég ætlaði að standa á fætur og rjúka á dyr opnuðust þær og inn komu gömul hjón. Karlinn hélt hurðinni opinni dágóða stund af því konan var svo sein á sér og við það kom loftstraumur inn um dyrnar, nógu mikill til þess að gufunni létti andartak og ég sá - það sem ég hafði að sjálfsögðu vitað allan tímann - að það var enginn þarna inni nema ég.

Engin ummæli: