föstudagur, 8. október 2004

Rakst

á alveg ómetanlega bók fyrr í dag, nefnilega gömlu ljósálfabókina mína. Fyrir þá sem ekki vita hvað ljósálfar eru þá er þetta eins konar forstig kvenskáta. Ég var ljósálfur þegar ég var 10 - 11 ára. Ljósálfaloforðið hljóðar svo: "Ég lofa að reyna eftir bestu getu að halda ljósálfalögin og gera á hverjum degi eitthvað öðrum til gleði og hjálpar". Ljósálfasöngurinn er þó sýnu betri: Lag: Stóð ég útí tunglsljósi.

Ég vil vera hjálpsöm greiðvikin og góð.
Gera mína skyldu við guð og land og þjóð.
Reyna á hverjum degi að leggja öðrum lið.
:/: Það er litlu ljósálfanna æðsta mark og mið. :/:

Langar mig að gleðja þig
elsku mamma mín.
Muna ætíð pabbi að vera
góða stúlkan þín.
Ég er lítill ljósálfur
og á því alla stund
:/:að vera góð og hlýðin
og kát og létt í lund.:/:

Eftir þessu hef ég lifað alla tíð síðan - eða þannig!

Til að geta tekið ljósálfaprófið (og unnið sér inn ljósálfastjörnur) þurfti að leysa ýmis verkefni. Meðal annars: kunna ljósálfaloforðið, lögin og kveðjurnar. Kunna að teikna og lita íslenska fánann á rúðustrikað blað (þetta er æðislegt) og vita að fáninn má aldrei snerta jörðu, vita nafn sveitarforingjans, heimilisfang og símanúmer, vita hvers vegna á að þvo sér um hendurnar (!!!), klippa neglurnar og halda þeim hreinum, vita hvers vegna á að bursta tennurnar og anda gegnum nefið (alveg magnað), geta hreinsað skrámur og sett á plástur, geta kastað bolta þannig að ljósálfur sem stendur í 8 m. fjarlægð geti gripið hann í 4 skipti af 6, kunna að búa um pakka til sendingar, kunna að nota síma og símaskrá........... listinn er ennþá lengri en til að hlífa lesendum læt ég staðar numið hér.

Eitt af verkefnunum var að halda dagbók og ég bara stenst það ekki að birta hérna 6 daga úr lífi Guðnýjar 10 ára.

Föstudagur 25/4 1975
Ég fór í skólann í morgun. Þegar ég kom heim var ég með Mæju. Eftir mat þvoði ég upp og fór í búð. Klukkan tvö fór ég að passa stelpu og var að því til kl. sex. Eftir kvöldmat horfði ég á sjónvarpið.

Sunnudagur 27/4
Ég vaknaði kl. hálf níu, fór á fætur og skáldaði pínu. Ég borðaði, þvoði upp. Svo lék ég mér og las. Kl. sex horfði ég á sjónvarpið og líka eftir mat og lagaði til í herberginu sem ég hef.

Mánudagur 28/4
Ég vaknaði kl. 20 mín. yfir 7, fór á fætur og fór í skólann. Þegar ég kom heim borðaði ég og þvoði upp. Ég lærði, svo fór ég í handavinnu. Þegar ég kom heim kláraði ég að læra. Eftir kvöldmat horfði ég á Onindin skipafélagið. Ann dó og fæddi stelpu í þessum þætti.

Þriðjudagur 29/4
Þegar ég kom heim úr skólanum borðaði ég og þvoði upp. Svo fór ég að læra og teikna þar á eftir. Kl. 2 fór ég að passa og var að því til 5. Eftir kvöldmat horfði ég á Helen, núna er ég að skrifa þetta.

Miðvikudagur 30/4
Þegar ég kom heim úr skólanum borðaði ég og þvoði upp. Svo fór ég að teikna rósir og önnur blóm. Klukkan var 15 mín. yfir 2 þegar ég fór í leikfimi. Þegar ég kom heim drakk ég og fór svo út, ég sá lóu og heyrði í hrossagauk. Kl. 6 horfði ég á sjónvarpið og líka eftir mat.

Fimmtudagur 1/5
Ég get ekki hrósað mér af neinum góðverkum í dag. Ég vaknaði kl. 10, fór í búðina og keypti mér stílabók. Þegar ég kom heim lánaði ég Braga hjólið mitt, svo fór ég að læra fyrir föstudag og mánudag það sem ég átti eftir. Svo borðaði ég, eftir mat lærði ég ljóð og las svo bókina "Ég var þerna Hitlers". Ég ætlaði að fara að hjóla og leit út en hjólið var ekki þar sem það átti að vera, Bragi var ennþá með það. Ég fór heim til hans en hann var ekki heima. Svo var ég inni til sex, þá athugaði ég hvort hjólið væri komið. Nei. Ég fór út og leitaði og leitaði en fann ekki. Ég fór inn að skrifa þetta. Nú lýk ég þessari dagbók.

Svo mörg voru þau orð. Einhvern veginn er ég ekki alveg að kaupa það að ég hafi vaskað svona oft upp eftir matinn (kannski bara diskinn minn...)

Engin ummæli: