fimmtudagur, 2. september 2004

Langt um liðið

frá síðasta bloggi, eða fjórir dagar. Tíminn er náttúrulega afstæður eins og allir vita en ég er búin að sjá það að maður verður eiginlega háður því að blogga. Skyldi það nú vera gott eða slæmt? Kannski er það að blogga bara tækifæri til að setjast niður með sjálfum sér í smástund og góð afsökun fyrir því að láta hugann reika um stund. Svona svipað og innhverf íhugun.... Hvað um það, ég er búin að vera að fara yfir próf síðustu daga. Maður tekur að sér að kenna einn áfanga og svo er maður endalaust að fara yfir próf. Fyrst "aðalprófið" í maí sem eitthvað um 90 manns tóku, svo júníprófið (upptöku og sjúkrapróf) sem ca.12 til 15 manns tóku (man þetta ekki lengur, minni mitt dugar nú ekki einu sinni milli herbergja, hvað þá mánaða) og svo núna ágústprófið sem 9 manns tóku. Vinsælasta spurningin hjá fólki sem ég hitti þessa dagana er "verður þú eitthvað að kenna í vetur?". Og hvert er svo svarið? Ég hef ekki hugmynd um það. Rekstrar- og viðskiptadeildin er nú ekki beinlínis þekkt fyrir skipulagshæfileika. Heyrði af einni um daginn sem hélt að hún væri að fara að kenna tvo áfanga, einn á haustönn og annan á vorönn. Einn daginn átti hún hvorugan áfangann að kenna, næsta dag ekki neitt, svo átti hún að kenna eitthvað allt annað og síðan.....nú þessa sömu tvo áfanga. Í millitíðinni hafði henni verið sagt að nemandi hefði skráð sig í ágústpróf hjá henni svo hún settist niður og bjó til próf - en nemandinn skráði sig svo úr prófi og .... ekkert próf! Þetta er STUÐ!

Verð samt að viðurkenna það að mér þótti lúmskt gaman að kenna. Pabbi var náttúrulega kennari svo kannski þetta sé í blóðinu??? Honum fannst a.m.k. gaman að kenna en ánægðastur var hann (held ég) þegar hann fékk að kenna stelpnabekk í einhverjum skóla (í forföllum aðalkennarans) á meðan hann var ennþá í kennaranámi. Hann var sjálfur lítið eldri en stelpurnar og þurfti að hafa svolítið fyrir því að halda uppi aga í bekknum og sýna þeim að hann væri nú ekki alvitlaus.

Ég var ferlega stolt af sjálfri mér í síðustu viku og um helgina fyrir það hvað ég var dugleg að ganga. Var farin að sjá mig í anda klífa fjöll og allt hvað eina :o) Er ekki alveg jafn spræk þessa vikuna en fór þó út í morgun í rigningunni og gekk í ca. 35 mín. áður en ég fór í vinnuna. Ótrúlega frískandi að finna regnið á andlitinu en minna spennandi þegar það var farið að leka úr hárinu og niður hálsinn.

Það er frekar fyndin saga sem gengur um allt ljósum logum núna. Kona í Reykjavík bloggar um það þegar hún var að leika blinda manneskju með hvítu leikfanga-plast-geislasverði sonar síns. Þeir sem hafa gaman af góðum sögum geta kíkt á síðuna hennar hér: http://toothsmith.blogspot.com/ undir fyrirsögninni "Er ég blind?" Eini gallinn við það að lesa svona skemmtilegar sögur er að manni finnst manns eigið blogg frekar litlaust í samanburði :o(

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst nú bloggið þitt alls ekki litlaust Guðný mín og hef mjög gaman af að lesa það, enda pennafær með afbrigðum - áfram Guðný!
Þín vinkona, R

Halur Húfubólguson sagði...

Það væri nú mikill missir af þessu bloggi hjá þér elskan mín, þannig að það hafi nú bara komið fram hver skoðun mín er. Sömuleiðis er það afstætt mjög hvað er fyndið eða ánægjulegt að lesa, sjálfur veit ég að fáir hafa gaman að lesa það sem ég hef lesið (og ætti að vera búinn að lesa). Freyr! Allt krefst breytinga.