laugardagur, 25. september 2004

Veit vel

að ég tala oft um mat á þessari síðu minni en matur er líka leiðin að hjarta konunnar.......... Hvað um það, við Valur fengum sem sagt góða vini okkar í mat í kvöld, þau Sunnu og Kidda og börnin þeirra þrjú, Jón Stefán (sem er besti vinur Ísaks), Patrek Örn og Þórgunni Ásu. Valur grillaði urriða sem hann hafði sjálfur veitt í sumar og með honum höfðum við einfaldlega soðnar kartöflur og salat + hvítlaukssmjör, hvítvín handa okkur fullorðna fólkinu en börnin sættu sig við gos. Í eftirrétt voru íspinnar/vanilluís handa smáfólkinu en ostakaka með kirsuberjasósu og rjóma handa okkur hinum. Það er alltaf jafn gaman að bjóða góðu fólki í mat og í hvert skipti hugsar maður með sér að þetta verðum við að gera oftar - en svo líður alltof langt þar til næst.
Að öðru leyti hefur dagurinn verið tíðindalítill, smá tiltekt í geymslunni sem orsakaðist af því að kona í vinnunni spurði hvort einhver ætti rúm sem hann þyrfti að losna við. Einn sagðist þá eiga gamlar dýnur og þá mundi ég allt í einu eftir því að við værum með rúmgrind úti í geymslu og ekki væri nú verra að geta losnað við hana. Þetta er gamla fururúmið sem Valur átti þegar ég kynntist honum, 120 cm. breitt og þótti nú nógu breitt þá, enda ástin svo heit, - spurning hvort okkar dytti fyrst á gólfið ef við reyndum að sofa í því núna (orðin vön 180 cm. breiðu rúmi).
Þó prófuðum við að sofa í ennþá mjórra rúmi í sumar er við fórum í helgarferð á Öndólfsstaði í Reykjadal með sama vinafólki og var hjá okkur í kvöld. Öndólfsstaðir eru í eigu fjölskyldu Kidda og hafði afi hans smíðað hjónasængina. Þá var ekki verið að bruðla með timbrið og líklega hefur einnig þurft að taka mið af því hve mikið pláss var fyrir rúmið. Það var gaman að prófa þetta, þurftum að snúa okkur samtímis og það hefði líka verið nóg að vera bara með eina sæng því þessar tvær tóku alltof mikið pláss og þvældust bara fyrir. En helgin í sveitinni var ósköp ljúf og leið hratt enda ýmislegt brallað. Meðal annars var farið í Jarðböðin við Mývatn og Valur og Kiddi "pósuðu" sérstaklega fyrir útlendingana sem voru þar að taka myndir. Biðu svo í ofvæni eftir símtali frá útlöndum - sem aldrei kom - en þeir töldu afskaplega líklegt að myndirnar yrðu frægar út fyrir landsteinana. Hápunkturinn var svo gríðarlegur vatnsblöðru-slagur sem háður var að loknu nautakjöti og rauðvíni á laugardagskvöldinu. Það mátti ekki á milli sjá hverjir skemmtu sér betur, strákarnir litlu eða stóru!

Engin ummæli: