Úff, var að borða pylsur í kvöldmatinn (má auðvitað deila um það hvort pylsur teljist til matar) og geri ekki annað en ropa. Maginn á mér er ekki ýkja hrifinn af unnum kjötvörum og kvartar og kveinar þegar honum er nauðgað með slíkum ósóma. Og ég sem er að fara í saumaklúbb í kvöld og borða þar enn meiri óhollustu, þetta endar örugglega ekki vel. En minn ástkæri eiginmaður er ekki heima og eins og dyggir lesendur vita, þá er það hann sem stendur fyrir matreiðslunni á heimilinu. Ég er orðin eins og versti karlmaður og rétt næ að búa til einfaldan mat s.s. að grilla pylsur. Ég þyrfti eiginlega að koma mér upp lista yfir mat sem ég get eldað + sem strákarnir borða (en það fer nú ekki alltaf saman) þá myndi ég kannski ekki alltaf lenda í þessum ógöngum þegar Valur er ekki heima.
Það var ansi skondið í dag í vinnunni. Við hjá Innan handar erum með skrifstofu við hliðina á Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) og í dag komu tveir þingmenn í heimsókn til Magnúsar hjá AFE, þeir Steingrímur Sigfússon og einhver annar sem ég kann ekki að nefna. Magnús var í símanum þegar þeir komu og þá sáu þeir sér þann leik vænstan í stöðunni að heimsækja okkur Bryndísi í staðinn. Þeir komu inn til okkar og við gátum ekki annað en staðið upp, tekið í lúkurnar á þeim og heilsað. Við höfðum ekki fyrr lokið því er Magnús var búinn í símanum og við sáum bara í hælana á blessuðum þingmönnunum. Milli okkar urðu því engin orðaskipti, þeir bara heilsuðu og fóru. Mér fannst þetta algjör brandari. Það er ekki tekið út með sældinni að sitja á þingi og þurfa sífellt að reyna að heilla hugsanlega kjósendur. En hvort eitt handaband dugar, það er nú önnur saga!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli