Ég lenti í smá veseni áðan, ætlaði að skrifa Önnu systur minni bréf og fannst þá að ég hefði ekkert að segja við hana. Af hverju skyldi það nú hafa verið? Jú, allt þessu blessuðu bloggi mínu að kenna. Hún fylgist auðvitað með öllu mínu lífi gegnum netið og ekkert eftir til að segja henni prívat og persónulega. Engin ástæða til að hafa of miklar áhyggjur, mér með mína munnnræpu tókst að finna upp á einhverju. Til dæmis þakkaði ég henni fyrir bókina sem hún sendi mér í vikunni. Hún er nefnilega að þýða bækur úr norsku (yfir á íslensku) sem verið er að gefa út í einhverjum föndur-bókaklúbbi sem ég man því miður ekki í augnablikinu hvað heitir. Það er þetta með minnið hjá mér, það versnar stöðugt og gott á meðan ég man enn hvað ég heiti og hvar ég á heima.... Ég leita þá bara að bílskúr með beyglaðri hurð þegar ég verð orðin svo kölkuð að ég rata ekki heim!
Fór í kvennaklúbb í dag (takið eftir að ég segi ekki saumaklúbb) en þetta er klúbbur kvenna (vá, skyldi maður þurfa að skora mjög hátt á gáfnaprófi til að skilja það?) sem hittist alltaf á föstudögum yfir vetrartímann og hefur verið starfandi þó nokkuð lengi, eða sennilega 7 ár (ég MAN það EKKI fyrir víst). Það er alveg ágætt að enda vikuna á því að setjast niður með hópi kvenna og spjalla um allt og ekkert, og ekki spilla krásirnar fyrir. Í upphafi var tekin sú ákvörðun að hafa ekkert fyrir þessu, við vorum bara nokkrar heimavinnandi húsmæður sem ætluðum að hittast og hafa í mesta lagi kaffi og smá snarl (popp og nammi...) til að narta í. Þessi fögru fyrirheit fóru fljótlega fyrir lítið og nú keppumst við við að hafa hnallþórur og heita rétti, ostabakka o.s.frv. Með reglulegu millibili tölum við um það að þetta gangi nú ekki svona, sé alltof mikið stress, og heitum því að taka upp betri siði. Ég er t.d. mikil talsmanneskja þess að draga aðeins úr veitingunum og þá sérstaklega þegar komin er röðin að mér að vera með klúbb. Það er segin saga að allt fer í handaskolum hjá mér þegar ég ætla að töfra fram hlaðborð af hnallþórum. Síðast lenti ég t.d. í því að rjómasúkkulaðikaka með döðlum og möndlum bakaðist bara ekki neitt og var ekki tibúin fyrr en kl. hálf sjö, rétt áður en konurnar fóru! Þannig að ég sting upp á því að nú sé kominn tími til að slaka á klónni með veitingarnar og hafa í mesta lagi eina köku og einn heitan rétt (já og kannski eitthvað eitt í viðbót). Nema hvað, allar taka undir þetta og gætu ekki verið meira sammála. Svo mætir maður í næsta klúbb og viti menn, borðið svignar undan öllum kræsingunum :o)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli