sunnudagur, 12. september 2004

Leikhus raunveruleikans

Við Valur fórum í leikhús í gærkvöldi að sjá Brim. Leikritið hefur fengið góða dóma og var allt í lagi - en þó fannst okkur vanta herslumuninn upp á að það væri jafn gott og gagnrýnendur hafa viljað láta. Hvað um það, það sem vakti reyndar mesta athygli mína í leikhúsinu var ekki leikritið sjálft, heldur undarlegur atburður sem gerðist þegar leiksýningin var nýlega hafin.

Verið var að sýna atriði þar sem sjómennirnir um borð í bátnum voru að spjalla saman og kokkurinn (sem steig ekki í vitið) fer að segja frá því þegar hann hafi verið sendur suður í skóla sem unglingur. Eitt það fyrsta sem hann átti að gera var að keppa á sundmóti fyrir hönd skólans en þegar hann mætti á mótið skildi hann ekkert í því að flest allir keppendurnir voru fatlaðir á einhvern hátt. Mamma hans og pabbi höfðu nefnilega innritað hann í Öskjuhlíðarskóla! Nema hvað, hann á að keppa við nokkra aðra stráka, á einn vantar annan handlegginn, á annan strák vantar fót o.s.frv. Hann gat lítið gert nema að stinga sér til sunds þegar flautað var og reyna að leggja sig allan fram. Þegar hér var komið sögu - í leikritinu - kallaði allt í einu maður sem sat á næsta bekk fyrir framan okkur "Og finnst þér þetta fyndið?" og beindi spurningu sinni greinilega til leikarans. Sem hélt áfram að leika og segja frá kappsundinu og því hvernig hann hefði unnið sundið. Aftur kallaði þá maðurinn "Finnst þér þetta fyndið" og leikarinn sagði "Já" en það svar var í fullkomnu samræmi við þann karakter sem hann lék. Þá stóð maðurinn upp, gekk út úr salnum og kom ekki aftur.

Fyrst hélt ég að þessi köll mannsins ættu bara að vera hluti af leiksýningunni en þegar hann kom ekki aftur í salinn og konan hans var greinilega óróleg og fór svo á eftir honum skömmu síðar, þá áttaði ég mig á því að svo væri ekki. Ég hafði tekið eftir manninum þegar hann kom í salinn því þau komu frekar seint inn og þurftu að biðja fólkið sem sat fyrir framan okkur að standa upp fyrir sér. Hann var yfirmáta kurteis og þakkaði hverjum og einum fyrir að standa upp. Virtist ekki vera undir áhrifum áfengis. Þetta er ráðgáta dagsins, hvaða bakgrunn hefur fólk sem bregst á þennan hátt við leikriti og nær ekki að greina skáldskap frá raunveruleika? Hvað hefur gerst í hans lífi sem lætur hann missa stjórn á sér fyrir framan allan þennan fjölda leikhúsgesta?

Engin ummæli: