mánudagur, 20. september 2004

Netið var bilað

og spurning hvort okkar var pirraðra, ég eða tölvufíkillinn sonur minn. En nú er allt komið í samt lag aftur og tími til kominn að blogga!
Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að ég var í húsmæðraorlofi í Reykjavík um helgina. Ferðin var í einu orði sagt FRÁBÆR og nú hafa vinkonur mínar í höfuðborginni, þær Rósa og Sólrún, stungið upp á því að ég geri þetta að reglulegum viðburði, helst tvisvar á ári. Dagskráin var í grófum dráttum á þá leið að á fimmtudeginum fór ég á afmælisfund Félags kvenna í atvinnurekstri sem haldinn var í Laugum Spa. Það komu 120 konur á fundinn sem var mjög skemmtilegur. Meðal annars þá kom Brynhildur Guðjónsdóttir og söng nokkur lög úr Edith Piaf sem verið er að sýna í Þjóðleikhúsinu. Svo fengum við "guided tour" um Laugar og skoðuðum m.a. það allra helgasta, baðstofuna, en þar eru margvísleg gufuböð, slökunarherbergi o.s.frv. Þeir sem vilja borga stórfé fyrir að láta sturta yfir sig köldu vatni úr fötu geta að sjálfsögðu fengið þær óskir sínar uppfylltar. Að fundinum loknum var síðan farið í Kaffi Flóru í Grasagarðinum þar sem Marentza Paulsen matreiddi ofan í okkur ljúffengan kvöldverð sem samanstóð aðallega af "grasi" eins og vélsmiðjueigandi frá Akranesi komst að orði. Já, það voru jafnvel blóm í salatinu sem bragðaðist afskaplega vel og fór vel í maga.
Á föstudeginum tók ég daginn frekar snemma og dreif mig í Laugardalslaugina. Ekki synti ég einn einasta metra en slappaði af í heitasta pottinum sem ég fann á svæðinu og í gufubaðinu. Þar inni var svo mikil gufa að ég sá ekki handa minna skil fyrst þegar ég kom þar inn. Fékk smá svona "creepy" tilfinningu og ímyndaði mér að þó það lægi lík á gólfinu þá sæi ég það ekki fyrr en ég stigi ofan á það! Mér fannst gaman að því að fara í sund svona snemma því þá er allt gamla fólkið í lauginni að sinna þörfum sínum fyrir félagsskap eins og ein gömul (og afskaplega hrukkótt) kona orðaði það svo skemmtilega. Eftir skoðunarferð um IKEA og dauðaskammt í Kringlunni fór ég í heimsókn til Gunnu og Matta tengdaforeldra minna en það er algjört "must" þegar maður er staddur á þeirra slóðum í höfuðborginni. Þau eru orðin það gömul og lasburða að þau koma aðeins á ca. 2ja ára fresti norður og þar sem við Valur förum svo sjaldan suður þá er nú lágmark að heimsækja þau þegar maður er þar á annað borð.
Þar næst lá leiðin í Ríkið til að kaupa rauðvínsflösku sem ég færði Rósu og við drukkum með kvöldmatnum en um kvöldið fórum við út á lífið og skemmtum okkur vel.
Á laugardeginum svaf ég nú ansi lengi, eða fram að hádegi en það gerist nú bara aldrei. Maður greinilega gerir ýmislegt í svona ferðum sem maður gerir ekki annars, eða þannig! Þá var kominn tími til að drífa sig í Hafnarfjörðinn að hitta hana Sólrúnu sem þar býr. Þegar hún heyrði að ég hefði verið hrifin af söng Bynhildar úr Edith Piaf dreif hún sig í símann og pantaði miða í leikhúsið um kvöldið. Svo skelltum við okkur í Smáralindina þar sem helmingur íslensku þjóðarinnar virtist vera samankominn (sá helmingur sem ekki var í Kringlunni...) og kíktum í búðir. Ég verslaði mér "leikhúspeysu" fyrir kvöldið en lét annars nægja að skoða bara. Um kvöldið fengum við okkur svo að borða í Alþjóðahúsinu (að uppástungu Rósu sem líka keyrði okkur þangað) áður en við fórum í leikhúsið. Það er ótrúlega gaman að koma á staði eins og Alþjóðahúsið þar sem þjónarnir tala saman á frönsku og matseðillinn er samsafn rétta frá ýmsum löndum. Ekki spillti fyrir að einhver hljómsveit var að æfa sig í herberginu við hliðina þannig að við höfðum þessa fínu dinnertónlist.
Leikritið var bara STÓRKOSTLEGT og langt síðan ég hef skemmt mér svona vel í leikhúsi. Samspil texta, lýsingar, búninga og söngva gerði þetta að meiriháttar upplifun og ég mæli hiklaust með Edith Piaf ef einhver skyldi vera að spá í leikhúsferð. Eftir leikhúsið kom Rósa og hitti okkur á Vínbarnum og við fórum á pöbbarölt allar þrjár. Ég fékk tækifæri til að æfa mig í norskunni þegar við hittum nokkra norðmenn frá Mo í Rana en einn þeirra talaði svo hrikalega mállýsku að ég átti í mesta basli við að skilja hann.
Heim dreif ég mig svo á sunnudagsmorgni og var gott að vera komin heim svona snemma því þá gat ég hvílt mig.....gamla konan. Var orðin lúin eftir allan hamaganginn en jafnframt rosalega ánægð með ferðina.
Er hætt þessu bulli og farin að horfa á CSI með bóndanum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Koma ekki nákvæmari lýsingar af næturlífi borgarinnar, það er mun meira spennandi að heyra af því heldur en verslunarferðum.

Guðný Pálína sagði...

Maður verður nú að halda einhverju fyrir sjálfan sig.... svo má ekki gleyma því að ég er gift kona þannig að lýsingar mínar á næturlífinu verða aldrei neitt sérlega krassandi!

Nafnlaus sagði...

Sit hér sveitt yfir allskonar sápum, ilmkjarnaolíum og nuddolíum, þ.e.a.s. orðunum, ekki "the real thing". Þá er æðislega notalegt að leyfa heilanum að slappa af með því að lesa svona ferðasögur.......... A--a

Guðný Pálína sagði...

Æ hvað það er gott að þessi munnræpa mín nýtist til einhverra hluta, þó ekki sé nema að dreifa huganum stundarkorn. Þakka þér fyrir þetta A--a mín!