þriðjudagur, 28. september 2004

Einhverra hluta vegna

koma ekki íslenskir stafir í fyrirsögnina þannig að ég þarf að passa mig á því að velja fyrirsögn án séríslenskra stafa. Það getur verið svolítið skondið stundum en verst er auðvitað hvað það heftir sköpunarfrelsið. Eða þannig, þetta er nú ekkert stórmál. Svo var ég að fá fréttir af því að ekki tækist alltaf að birta comment á síðunni, þau "gufa bara upp" þegar búið er að skrifa þau. Þetta er náttúrulega ótækt og sérlega fúlt að missa af þessum fáu commentum sem þó koma. Ætli þetta blessað blogger.com kerfi hafi bara nokkuð undan, það eru örugglega fleiri hundruð þúsund manns í heiminum að nota það. Ég hef reyndar verið að velta fyrir mér að skipta yfir í annað kerfi og það væri gaman að fá álit minna kæru lesenda á því.

Í fréttum er það helst að ég byrjaði á námskeiði í gærkvöldi. Ákvað að splæsa því bara á mig - eða láta kallinn (afsakið, minn ástkæra eiginmann) splæsa því á mig. Líklega má segja að þetta sé námskeið í skapandi skrifum en heiti námskeiðisins er "Hvernig verður þinn Blíðfinnur til?" og er það Þorvaldur Þorsteinsson listamaður og rithöfundur með meiru sem heldur það. Markmiðið er að maður verði kominn með hugmynd að barnabók í lok námskeiðisins og vonandi einhver verkfæri til að skrifa hana. Ég hef reyndar áður farið á námskeið í skapandi skrifum, fyrir mörgum árum síðan, og fannst það virkilega skemmtilegt. Þá skrifaði ég mína fyrstu sögu þ.e.a.s. sem fullorðin en þegar ég var yngri skrifaði ég t.d. sögu sem ég sendi í Stundina okkar og var ekki lítið glöð þegar hún var lesin upp! Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu - og það hef ég. Skortir samt alltaf eitthvað sjálfstraust í skrifunum, hélt lengi vel að ég þyrfti að vera bókmenntafræðingur og hafa lesið allar heimsbókmenntirnar, svo ekki sé minnst á öll verk Laxness, til að "hafa leyfi til að skrifa" en er loks búin að átta mig á því að það er bara fyrirsláttur hjá mér. Á meðan ég held það, þá þarf ég náttúrulega ekki að skrifa staf og er því löglega afsökuð frá því að svo mikið sem reyna það. Ókey, ætli sé ekki komið nóg af trúnaðarskeiðinu í bili.

Er allt í einu komin með eftirfarandi setningu á heilann og er að velta því fyrir mér hvaðan í ósköpunum ég hafi dregið þetta upp. En satt er það engu að síður.

"Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt"


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka
Einar Ben - Einræður Starkaðar

Er annars að fara að sofa, en var að senda þér póst. A--a

Guðný Pálína sagði...

Vá, þetta var aldeilis flott, bara öll vísan (ljóðið) þakka þér fyrir! Og takk fyrir bréfið líka, skrifa þér bráðum eða hringi.

Nafnlaus sagði...

Ég var búin að setja upp einar þrjár dagbækur áður en ég tók þá ákvörðun að halda mig við Upsaid kerfið. Reyndar prófaði ég hvorki blogger né blogspot...

En þar vil ég vera og borga glöð um 1000 kr. á ári til að hafa öll réttindi. Í raun sakna ég einskis í dagbókinni minni, annars en broskalla, ég vildi gjarna hafa þá nokkra í kommentakerfinu... en kannski bæta forráðamenn kerfisins þeim inn ... þótt síðar verði.

Ég hef sett upp 3 síður fyrir vildarvini, þú getur kíkt á þá, ef þú vilt... og kannski fengið hugmyndir að betrumbótum.

www.upsaid.com/afi
www.upsaid.com/skeleggur
www.upsaid.com/sperran

Gangi þér vel í skrifunum, hvar sem þú verður til frambúðar :-)

góðar kveðjur,
Hugskot