sunnudagur, 31. október 2004

Ég keypti maskara

í gær....(leiðrétting)...ég keypti fjólubláan maskara í gær (ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki spennandi lesning fyrir karlkyns lesendur bloggsins - en þeir eru nú ekki svo margir - þið kíkið bara aftur seinna strákar mínir!).

Ég lenti nefnilega í þeirri ógæfu að gleyma snyrtibuddunni minni í leikfiminni í gærmorgun og uppgötvaði það ekki fyrr en búið var að loka líkamsræktarstöðinni. Þá horfðist ég í augu við þann hræðilega sannleika að ég er alveg háð snyrtivörum, sérstaklega meiki/púðri, maskara og varalit. Fer náttúrulega aldrei út úr húsi án þess að "setja á mig andlitið" en hvað það segir um mig að öðru leyti vil ég ekki hugsa um. Samt er nú ekki eins og ég sé einhver málningardúkka, onei, það er bara rétt verið að sparsla í það nauðsynlegasta. Jæja, ég var búin að ákveða að fara í sund seinni partinn og áttaði mig á því að ég gat auðvitað ekki farið í sund án snyrtibuddunnar. Gerði vörutalningu í snatri og komst að því að hér heima átti ég allar nauðsynjar, nema maskara. Ákvað að skreppa í Hagkaup og fjárfesta í einum slíkum fyrir sundlaugarferðina. Ekki málið. Hitti á afskaplega indæla afgreiðslukonu og hún sýndi mér hinar ýmsu tegundir af maskara. Frá ólíkum framleiðendum, með ólíka eiginleika (þykkir, lengir, stækkar....þið kannist við þetta). Sem hún var að sýna mér alla dýrðina tók ég eftir því að hún var með fjólubláan maskara sjálf, smá fjólubláan augnblýant og bleikan augnskugga. Þetta var virkilega smart á henni og ég fékk leiftursnöggt flashback til fortíðar. Nánar tiltekið til ársins 1985 - sem var merkilegt fyrir ýmsar sakir en þær helstar að þá kynntumst við Valur. Og mín skartaði fjólubláum maskara þann veturinn! Þrátt fyrir það hann hefði greinilega gefið vel af sér í veiðinni fyrir 19 árum síðan ákvað ég að vera praktísk. Svartur skyldi hann vera, svart fer jú með öllu. Borgaði og var á leið út úr búðinni þegar skyndilega kom yfir mig löngun til að vera ópraktísk. Skítt með það þó ég myndi bara nota fjólubláan maskara í þessi örfáu skipti sem ég fer eitthvað, skítt með það þó mig vanti augnblýant og augnskugga í stíl. Snéri við í dyrunum, fór tilbaka og sagðist ætla að skipta um lit. Var bara ansi létt í spori og ánægð með mig þegar ég gekk út úr búðinni. Fjólublátt var það heillin.

laugardagur, 30. október 2004

Gufubaðið

svíkur aldrei, ekki frekar en heiti potturinn. Þegar maður er með svona verkjaskrokk eins og ég (svo ekki sé minnst á hvað mér er alltaf kalt) þá veit ég fátt betra en skella mér í gufu eða heitan pott, nema hvort tveggja sé. Hins vegar veit ég fátt verra en fara í gufu og hún er ekki almennilega heit. Í morgun ætlaði ég í leikfimi með bóndanum en komst að því eftir 10 mín. rólega göngu á hlaupabrettinu að ég á langt í land með að endurheimta fyrri krafta mína. Þannig að ég ákvað að teygja bara og fara svo í langt og gott gufubað. Ætla ekki að reyna að lýsa vonbrigðum mínum þegar ég kom svo inn í gufuna og hún var rétt rúmlega hálf volg :-(

Talandi um gufuböð, þegar ég var í Reykjavík síðast þá fór ég í Laugardalslaugina að morgni til og eftir að hafa dólað um stund í heita pottinum þá fór ég á stúfana og leitaði að gufubaðinu. Fann það, opnaði hurðina og...... sá ekki handa minna skil. Gufan var svo mikil og þétt að ég sá gjörsamlega ekki neitt. Ljóstýra sem þarna var inni náði ekki að lýsa neitt upp. Lokaði samt hurðinni og þreifaði mig áfram að sæti rétt við dyrnar. Var fyrst í stað óskaplega ánægð, þetta var nú gufubað í lagi, vel heitt og fínt. Eftir smá stund var þó friðurinn úti. Mér datt nefnilega í hug að það gæti legið lík á gólfinu rétt við hliðina á mér, án þess að ég hefði hugmynd um það. Kannski hefði einhver fengið hjartaslag þarna inni, eldri borgari ef til vill, sundlaugin var full af þeim. Eða kannski hefði einhver verið myrtur (spurning með hvaða aðferð, það hefði þá líklega helst verið kyrking því frekar erfitt er að fela á sér vopn innanklæða í laugunum). Og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta, þess fullvissari varð ég. Það lá örugglega lík á gólfinu í gufunni. Rétt í þann mund sem ég ætlaði að standa á fætur og rjúka á dyr opnuðust þær og inn komu gömul hjón. Karlinn hélt hurðinni opinni dágóða stund af því konan var svo sein á sér og við það kom loftstraumur inn um dyrnar, nógu mikill til þess að gufunni létti andartak og ég sá - það sem ég hafði að sjálfsögðu vitað allan tímann - að það var enginn þarna inni nema ég.

fimmtudagur, 28. október 2004

Visa reikningar

eru misskemmtilegir. Reyndar notum við Visa afskaplega lítið nema til að greiða fasta liði eins og venjulega s.s. sjónvarpið, Moggann o.s.frv. Nema að sjálfsögðu þegar ferðast er til útlanda, þá stendur nú kortið aldeilis fyrir sínu. Og reikningurinn fyrir Parísarferðina datt inn um lúguna nýlega en ég var fyrst að skoða hann í dag.

Það var að vísu mjög lítil eyðsla í ferðinni (sérstaklega ef haft er í huga hverju ég hefði getað eytt í föt og skó ef verslanirnar hefðu ekki verið lokaðar á sunnudeginum) en ég neyddist til að horfast í augu við skemmtilega reikningsvillu sem ég gerði (viljandi að vísu) meðan við vorum úti. Þar sem ein evra er ca. 85 krónur þá margfaldaði ég allltaf með 80 til að finna út verðið í íslenskum. Vissi auðvitað alveg að ég var að rúnna þetta ansi vel af - en so what? Svo kemur visareikningurinn kæri og viti menn: jakkinn sem ég hafði "reiknað út" að kostaði ca. 6 þús. kostaði í raun 7 þús. og svörtu leðurstígvélin voru allt í einu komin í 14.135 (úr 12 þús. kalli).

Þetta eru þó smámunir hjá konunum sem voru að versla í London og sáu svo ægilega sæt peysusett á útsölu á (skv. þeirra útreikningum) 5 þús. íslenskar. Og af því peysurnar voru virkilega fallegar og virtust þar að auki vera vandaðar - þá keyptu þær eitt sett til viðbótar til að gefa þriðju vinkonunni þegar heim væri komið. Allt var í lukkunnar velstandi, alveg þar til Visareikningurinn kom og með honum sú kalda staðreynd að þær höfðu feilað sig um eitt núll þegar þær voru að snara enskum pundum yfir í íslenskar krónur. Þannig að peysusettið góða kostaði 50 þús. krónur stykkið á útsölunni! Enda um einhverja snobbverslun með hátískufatnað að ræða.

P.S.
Valur vill taka það fram að honum var alltaf ljóst að evran er 85 kr. - og hann fellur að sjálfsögðu ekki í þá gryfju að margfalda með 80 til þess að fá örlítið hagstæðari útkomu. Nei þetta er víst dæmigert kvennaúrræði....

þriðjudagur, 26. október 2004

Var að druslast

út úr rúminu eftir 10 tíma með uppköstum og niðurgangi. Eins og það sé ekki nóg þá fylgdu þessu hrikalegir beinverkir og höfuðverkur. Mér tókst nú ekki beint að horfa á björtu hliðarnar á þessu - en minn heittelskaði benti á að það hefði nú verið gott að við náðum að fara í Parísarferðina. Ég var sem sagt veik bæði fyrir og eftir ferðina en ekki á meðan henni stóð. Ég vissi ekki að þessi elska væri svona mikil Pollýanna í sér en hann lumar greinilega á ýmsu.

mánudagur, 25. október 2004

Þetta er allt að koma

(er ekki annars eitthvað leikrit með þessu nafni?). En það sem er að koma er vinnuaðstaðan hjá Innan handar sf. Við Bryndís vöktum mikla athygli í dag með þessari ósk okkar að vilja fá að vera saman með skrifstofu. Var sagt að yfirleitt kvartaði fólk yfir of litlu rými - en ekki öfugt. En þrátt fyrir ýmsar glósur (að veggirnir myndu hrynja undan þrýstingnum, að við myndum gefast upp á þessu fljótlega o.s.frv) þá fengum við aðstoð Matta húsvarðar við að færa til húsgögn milli herbergja og fá tvö lítil skrifborð inn í herbergið í stað eins stórs sem var þar fyrir. Þannig að á morgun getum við sótt kassana með dótinu okkar og farið að koma okkur fyrir. Svo eru bara "smámunir" eins og síma- og tölvusamband eftir. En það kemur nú fyrir rest.

Síðasta nótt var frekar skrýtin hjá mér. Ég var í saumaklúbbi í gærkvöldi og eins og mín er von og vísa gekk mér afskaplega illa að sofna þegar ég kom heim. Þetta er ættgengur kvilli, að geta ekki sofnað ef eitthvað örlítið meira en venjulega er í gangi. Sofnaði nú samt seint og um síðir, líklega ca. um tvöleytið en hrökk upp þegar klukkuna vantaði korter í fimm við það að unglingurinn á heimilinu var að hefja undirbúning að því að fara í háttinn. Lá vakandi og hlustaði á hann fara á klósettið, bursta í sér tennurnar (og líklega kreista þónokkra fílapensla miðað við tímalengdina á klósettferðinni) og á endanum, fara inn í rúm. Ég var svo fúl yfir því að hann væri að fara svona seint að sofa að ég fór að æsa mig (í huganum) yfir kennaraverkfallinu og auðvitað yfir syninum fyrir að snúa sólarhringnum svona við. Þannig að ég sofnaði ekki aftur fyrr en rúmlega sex og svaf til átta. Dreif mig í leikfimi þegar ég vaknaði og var ánægð með það - sérstaklega þegar ég var búin!

sunnudagur, 24. október 2004

Það er alltaf gaman

að fylgjast með mannlífinu og eitt af því skemmtilegra við að koma á nýja staði. Til dæmis í París um daginn þá hefði ég getað setið heilan dag og bara horft á fólkið í kringum mig. Svo ótrúlega margar og ólíkar týpur. Ég meira að segja öfundaði safnverðina í Pompidou safninu sem sitja á stólum víðsvegar um safnið og gæta þess að allt fari nú "siðsamlega" fram. Þvílíkur fjöldi af fólki sem þeir sjá á hverjum degi og frá ótal löndum.

Einn staður svíkur þó aldrei hvað fjölbreytt mannlíf snertir og það er sundlaugin. Að vísu er fátt um t.d. Kínverja eða Afríkubúa í lauginni, hvað þá yfir vetrartímann, en engu að síður þá er hægt að hafa afar gaman af því að virða fyrir sér sundlaugargestina. Að sitja í heita pottinum snemma á morgnana og hlusta á samræður gamla fólksins er alveg sér kapítuli. Um daginn varð ég t.d. vitni að eftirfarandi samræðum: Ein gömul kona við aðra: "Það er nú meira hvað það er heitt úti, bara alveg dásamlegt". Hin: "Já og veistu hvað, það var svona hlýtt í alla nótt". Ein: "Hvað segirðu manneskja, svafstu ekkert í nótt? Þú hefur kannski bara vakað alla nóttina til að fylgjast með hitamælinum?" Hin: "Nei, ertu alveg frá þér, en mér fannst þetta svo merkilegt að ég leit á mælinn í hvert skipti sem ég vaknaði til að fara á klósettið, til að sjá hvort það hefði ekki kólnað".

Ókey, ég er kannski ein um að finnast þetta fyndið en þess ber að geta að tónninn í röddinni og svipbrigði þeirra gömlu skila sér ekki svo vel á prenti.

laugardagur, 23. október 2004

Jæja, skrifa alveg villt og galið

Þetta er náttúrulega alveg nýtt líf með þessu nýja lúkki (ég hef tekið eftir því að mér hættir til að ofnota orðið "náttúrulega" en vonandi verður mér fyrirgefið). Vandamálið er bara að orðaforði minn er að verða svo takmarkaður eitthvað. Kannski les ég ekki nóg? Hef áhyggjur af því að lítill orðaforði komi til með að há mér í skriftum. Eftir alltof stutt en frábærlega skemmtilegt námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni (höfundi Blíðfinnsbókanna m.a. - Ferilskráin hans er svo löng að það tekur eilífðartíma að skrolla niður síðuna) þá var nú eiginlega meiningin að fara að skrifa eitthvað annað en blogg.

En svo stendur til að hann komi norður einu sinni í mánuði og hitti okkur á eins konar framhaldsnámskeiði - sem er hið besta mál, reyndar alveg frábært því hann er ótrúlegur karakter og fær mann til að hugsa marga hluti alveg upp á nýtt - nema hvað, mín er náttúrulega (sko, notaði aftur sama orðið) ekki búin að skrifa neitt síðan á námskeiðinu og ef vel er að gáð, skrifaði eiginlega ekki neitt á námskeiðinu heldur. Þannig að nú er bara að bretta upp á ermarnar og setja sig í stellingar og BYRJA AÐ SKRIFA ÞÓ ANDINN SÉ EKKI YFIR MÉR!


Haloscan commenting and trackback have been added to this blog.

Bara aðeins að monta mig...

eða þannig. Það er nú ekki eins og ég hafi unnið einhver stór afrek, en mér tókst að skipta um útlit og breyta nýja útlitinu aðeins líka. Lit á stöfunum ofl. Þetta er nú eiginlega svolítið gaman - spurning að fara að læra meira HTML úr því maður er orðinn svona klár (djók).

Við Bryndís fórum út í háskóla í gær að kíkja á nýju skrifstofuna okkar. Það var reyndar búið að gera ráð fyrir því að við fengjum tvær skrifstofur en við erum orðnar svo vanar því að vera saman að við ætlum að troða tveimur skrifborðum inn í eina. Vonandi gengur það eftir á mánudaginn svo við getum farið að vinna aftur!

Í hádeginu sátum við svo hjá nýju bestu vinkonum okkar, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Katrínu Júlíusdóttur samfylkingarkonum. Þær voru staddar á Akureyri í tilefni af stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar og komu ásamt fleirum upp í háskóla til að auglýsa flokkinn. Eftir örstutt ræðuhöld ákvað fólkið að fá sér að borða og komu þá ekki vinurnar og settust hjá okkur - og ekki gátum við verið ókurteisar, svo við sátum sem fastast. Það var bara ágætt að spjalla við þær, verst að Séð og heyrt var ekki á staðnum......ha?

fimmtudagur, 21. október 2004

Er að gera tilraunir

með nýtt lúkk á síðuna. Fann eitt sem var miklu betra en það gamla en vandinn er sá að íslensku stafirnir fóru fjandans til. Var líka búin að skrifa pistil fyrr í dag en hann fór líka sömu leið. Sem sagt: allt í klessu í bloggheimi Guðnýjar í dag.

Megininntak pistilsins sem týndist í cyberspace var að hvetja vini og vandamenn til að byrja að blogga. Er orðin hundleið á því að lesa um líf fólks sem skiptir mig engu máli - þetta er sáraeinfalt, fara á síður eins og blogger.com, blog.central.is eða upsaid.com, skrá sig, velja sér útlit á síðuna og byrja að skrifa. Kostar ekkert!

Að öðru leyti hefur þessi dagur verið stórundarlegur. Engin vinna og ég lufsast bara um húsið og geri ekkert af viti. Geri ekki einu sinni neitt af verkefnalistanum mínum (þvo gluggana, þvo eldhúsinnréttinguna, sauma gardínur fyrir tvo glugga í kjallaranum, setja reikninga inn í möppu........ listinn er lengri.....). Það er nú einu sinni þannig með mig að því minna sem ég hef að gera því minna geri ég (meikar alveg sens er það ekki) og svo þegar ég hef mikið að gera þá geri ég ekki heldur það sem ég geri ekki þegar ég hef lítið að gera. Rugl, eða hvað?

miðvikudagur, 20. október 2004

Tvennt

vakti athygli mína í Fréttablaðinu í dag.

Annað var frétt á forsíðu þar sem greint var frá því að Baldur Sveinbjörnsson, vinur okkar og prófessor við háskólann í Tromsö, hefði ásamt starfsfélögum sínum fundið lyfjameðferð sem vinnur á krabbameini í börnum. FÁBÆRT! Til hamingju með þennan árangur Baldur!

Hitt sem vakti athygli mína var kennslustefna Hrafnagilsskóla í Eyjafirði en inntaki hennar er lýst með orðunum:
"ALLIR HAFA HIÐ GÓÐA Í SÉR OG MÖGULEIKANN TIL AÐ VERÐA BETRI MANNESKJUR".
Við þetta þarf engu að bæta.

þriðjudagur, 19. október 2004

langaði bara

að bæta því við að ferðin til Parísar hefði sjálfsagt ekki verið farin nema vegna þess að Hrefna Sæunn tók að sér að sjá um börn og bú á meðan við vorum í burtu. Og gerði það að sjálfsögðu með sóma eins og allt annað sem hún tekur sér fyrir hendur. Ekki má heldur gleyma vinafólki okkar, þeim Sunnu og Kidda sem sáu til þess að Ísak ætti öruggt athvarf á meðan Hrefna var í vinnu á daginn. Já, Andri var líka á bak-bakvakt en hans vakt byrjaði nú ekki fyrr en eftir kl. fjögur á daginn - þegar hann var vaknaður!!! Sumir eru búnir að snúa sólarhringnum við í verkfallinu og þegar mamma vekjaraklukka er ekki á svæðinu þá er ekki von á góðu.

Það er hálf undarlegt ástand í vinnunni þessa dagana. Þar sem við hjá Innan handar erum með aðstöðu hjá Frumkvöðlasetri Norðurlands ráðum við litlu um staðsetningu okkar og nú er Frumkvöðlasetrið að flytja upp í háskóla = við þurfum að flytja líka. Þurftum að pakka öllu og fara úr Glerárgötunni fyrir rúmri viku síðan og erum að bíða eftir því að verða úthlutað nýrri skrifstofu á Sólborg. Það er ótrúlega skrítið að vera í svona limbói með aðsetrið og fyrirtækið bókstaflega í kössum. Verður lítið úr verki - en á hinn bóginn var líka ágætt að taka sér frí í smá tíma. Þetta er nú samt að verða ágætt og vonandi fáum við að vita á morgun hvar okkur verður holað niður...

Komin heim

frá París. Frábær ferð, hefði bara mátt vera deginum lengri (a.m.k.). Allt gekk eins og í sögu, hótelið var mjög fínt og afskaplega vel staðsett. Örstutt að ganga niður að Signu og Notre Dame kirkjunni og svo var þetta hverfi (6. hverfi) rosalega lifandi og skemmtilegt. Við vorum ekki með neina sérstaka dagskrá, gerðum bara það sem okkur datt í hug hverju sinni. Fórum m.a. á Pompidou listasafnið, Musée d'Orsay og kíktum á Eiffel turninn. Nánari ferðasaga verður að bíða betri tíma. Ókum svo norður í gær í þvílíka veðrinu. Fyrst var óveður á Kjalarnesi og fór vindhraðinn upp í 45 m/s í verstu hviðunum. Þá þýddi ekkert annað en hægja verulega á sér og stoppa jafnvel. Síðan var áfram rok alla leiðina og sums staðar bættist við rosalegur éljagangur, skafrenningur, hálka og snjókoma svo ekki sá út úr augum. Maður var feginn ef það grillti í næstu vegstiku, svo lélegt var skyggnið. Sem dæmi má nefna þá tók það okkur nærri tvo tíma að keyra frá Varmahlíð til Akureyrar. En allt hafðist þetta að lokum og nú er það bara "back to reality" eftir þessa pásu frá daglega lífinu.

miðvikudagur, 13. október 2004

Er loksins

að hrista þessa pesti af mér. Fór meira að segja í leikfimi í morgun - reyndar meira af vilja en getu - en það er þó alltént byrjunin. Í leikfiminni hitti ég konu sem er "fyrrverandi" sjúkraliði eins og ég. Við tókum tal saman eins og gengur og m.a. spurði hún hvað ég væri að gera núna. Ég svaraði því samviskusamlega og gat þá ekki annað en spurt tilbaka hvað hún væri að gera. Jú, hún er búin að læra nudd og er líka á fullu að selja Herbalife. Allt í góðu með það. Svo þegar ég opnaði póstinn minn áðan var þar bréf frá skólasystur minni úr Háskólanum sem býr núna í Bretlandi. Og hvað haldið þið að hún sé farin að gera - selja Herbalife! - og hagnast mun meira á því heldur en ég í minni vinnu. Ætli þetta séu einhver skilaboð til mín frá æðri máttarvöldum? Kannski Herbalife sé bara málið?

Er á leið í bæinn að skoða ferðatöskur. Við erum búin að eiga sömu ferðatöskurnar í tugi ára og hafa þær þjónað okkur vel og dyggilega. Hins vegar eru þær úr harðplasti og taskan mín brotnaði fyrir einhverju síðan þannig að hjólin kýldust upp í botninn og ég fæ yfirleitt mjög pirruð augnaráð frá fólki þegar ég dreg hana ískrandi á eftir mér á flugvöllum. Við erum ekki að tala um neitt smá ískur!

Parísarferð á næsta leyti. Við keyrum suður þegar Valur er búinn að vinna á morgun og fljúgum út á föstudagsmorguninn. Veðurspáin er svona la la, hitinn í kringum 10 stig en síðan fer það eftir því hvaða spá maður les hvort það er spáð rigningu, skýjuðu, sól eða öllu þessu. Hótelið sem við gistum á Henri IV er á vinstri bakkanum, í Latínuhverfinu nálægt Sorbonne háskólanum. Mér skilst að þetta sé mjög góð staðsetning, svo verður bara að koma í ljós hvernig hótelið er. Ég fann það á netinu og samkvæmt ummælum á Tripadvisor.com þá virðist þetta vera ágætis hótel.

mánudagur, 11. október 2004

Rigningarsuddi

úti og laufblöðin sem fokið hafa af trjánum undanfarna daga liggja eins og hráviði um alla lóð. Trén að verða hálf lufsuleg, þau laufblöð sem eftir eru hanga tilviljanakennt á greinunum og bara tímaspurmál hvenær allt verður farið. Þetta er ekki ósvipað því að líta í spegil þessa dagana! Ekki þar fyrir, hárið er nú allt á mér ennþá, þessi víruspesti mín hefur bara tekið sinn toll og ég er að verða eins og fuglahræða. Föl, með bauga undir augunum og augnaráðið fremur sljótt.

Annars las ég alveg yndislegt viðtal við Önnu Pálínu Árnadóttur söngkonu í afmælisblaði Krafts (stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein). Anna Pálína hefur barist við krabbamein í 5 ár en hefur tekist á ótrúlegan hátt að halda höfði í gegnum allar þessar hremmingar, m.a. með því að persónugera krabbameinið og líkja því við gamla hrörlega kerlingu, Kröbbu frænku, sem verður að búa hjá henni um stundarsakir. Síðast í viðtalinu er hún spurð hvað taki við núna og þessu svarar hún á eftirfarandi hátt: "Lífið er núna og ég ætla ekkert að eyðileggja daginn í dag af því dagurinn á morgun gæti orðið leiðinlegur. Ég er hérna núna, ég get notið lífsins og verið með börnunum og manninum mínum. Ég get gefið þeim þær stundir sem við eigum núna. Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun!"

Maður eyðileggur ekki sólskinsdag af því það gæti hugsanlega rignt á morgun.

sunnudagur, 10. október 2004

Er hætt að

lítast á blikuna. Fimm dagar í Parísarferð og ég er ennþá eins og aumingi, full af hori uppí haus og drulluslöpp. Fannst líka hundfúlt að vera svona lasin á námskeiðinu sem ég var á í skapandi skrifum. Engu að síður var þetta mjög skemmtilegt námskeið en þó tók steininn úr í gær þegar við vorum þar frá eitt til fimm og megnið af tímanum var ég að drepast úr hausverk og ógleði. Það er spurning hvort ég fæ Val til að skrifa út sýklalyf fyrir mig - sem er kannski frekar heimskulegt því ég held að þetta sé bara víruspesti og þá hafa sýklalyf ekkert að segja. Nóg um það!

föstudagur, 8. október 2004

Rakst

á alveg ómetanlega bók fyrr í dag, nefnilega gömlu ljósálfabókina mína. Fyrir þá sem ekki vita hvað ljósálfar eru þá er þetta eins konar forstig kvenskáta. Ég var ljósálfur þegar ég var 10 - 11 ára. Ljósálfaloforðið hljóðar svo: "Ég lofa að reyna eftir bestu getu að halda ljósálfalögin og gera á hverjum degi eitthvað öðrum til gleði og hjálpar". Ljósálfasöngurinn er þó sýnu betri: Lag: Stóð ég útí tunglsljósi.

Ég vil vera hjálpsöm greiðvikin og góð.
Gera mína skyldu við guð og land og þjóð.
Reyna á hverjum degi að leggja öðrum lið.
:/: Það er litlu ljósálfanna æðsta mark og mið. :/:

Langar mig að gleðja þig
elsku mamma mín.
Muna ætíð pabbi að vera
góða stúlkan þín.
Ég er lítill ljósálfur
og á því alla stund
:/:að vera góð og hlýðin
og kát og létt í lund.:/:

Eftir þessu hef ég lifað alla tíð síðan - eða þannig!

Til að geta tekið ljósálfaprófið (og unnið sér inn ljósálfastjörnur) þurfti að leysa ýmis verkefni. Meðal annars: kunna ljósálfaloforðið, lögin og kveðjurnar. Kunna að teikna og lita íslenska fánann á rúðustrikað blað (þetta er æðislegt) og vita að fáninn má aldrei snerta jörðu, vita nafn sveitarforingjans, heimilisfang og símanúmer, vita hvers vegna á að þvo sér um hendurnar (!!!), klippa neglurnar og halda þeim hreinum, vita hvers vegna á að bursta tennurnar og anda gegnum nefið (alveg magnað), geta hreinsað skrámur og sett á plástur, geta kastað bolta þannig að ljósálfur sem stendur í 8 m. fjarlægð geti gripið hann í 4 skipti af 6, kunna að búa um pakka til sendingar, kunna að nota síma og símaskrá........... listinn er ennþá lengri en til að hlífa lesendum læt ég staðar numið hér.

Eitt af verkefnunum var að halda dagbók og ég bara stenst það ekki að birta hérna 6 daga úr lífi Guðnýjar 10 ára.

Föstudagur 25/4 1975
Ég fór í skólann í morgun. Þegar ég kom heim var ég með Mæju. Eftir mat þvoði ég upp og fór í búð. Klukkan tvö fór ég að passa stelpu og var að því til kl. sex. Eftir kvöldmat horfði ég á sjónvarpið.

Sunnudagur 27/4
Ég vaknaði kl. hálf níu, fór á fætur og skáldaði pínu. Ég borðaði, þvoði upp. Svo lék ég mér og las. Kl. sex horfði ég á sjónvarpið og líka eftir mat og lagaði til í herberginu sem ég hef.

Mánudagur 28/4
Ég vaknaði kl. 20 mín. yfir 7, fór á fætur og fór í skólann. Þegar ég kom heim borðaði ég og þvoði upp. Ég lærði, svo fór ég í handavinnu. Þegar ég kom heim kláraði ég að læra. Eftir kvöldmat horfði ég á Onindin skipafélagið. Ann dó og fæddi stelpu í þessum þætti.

Þriðjudagur 29/4
Þegar ég kom heim úr skólanum borðaði ég og þvoði upp. Svo fór ég að læra og teikna þar á eftir. Kl. 2 fór ég að passa og var að því til 5. Eftir kvöldmat horfði ég á Helen, núna er ég að skrifa þetta.

Miðvikudagur 30/4
Þegar ég kom heim úr skólanum borðaði ég og þvoði upp. Svo fór ég að teikna rósir og önnur blóm. Klukkan var 15 mín. yfir 2 þegar ég fór í leikfimi. Þegar ég kom heim drakk ég og fór svo út, ég sá lóu og heyrði í hrossagauk. Kl. 6 horfði ég á sjónvarpið og líka eftir mat.

Fimmtudagur 1/5
Ég get ekki hrósað mér af neinum góðverkum í dag. Ég vaknaði kl. 10, fór í búðina og keypti mér stílabók. Þegar ég kom heim lánaði ég Braga hjólið mitt, svo fór ég að læra fyrir föstudag og mánudag það sem ég átti eftir. Svo borðaði ég, eftir mat lærði ég ljóð og las svo bókina "Ég var þerna Hitlers". Ég ætlaði að fara að hjóla og leit út en hjólið var ekki þar sem það átti að vera, Bragi var ennþá með það. Ég fór heim til hans en hann var ekki heima. Svo var ég inni til sex, þá athugaði ég hvort hjólið væri komið. Nei. Ég fór út og leitaði og leitaði en fann ekki. Ég fór inn að skrifa þetta. Nú lýk ég þessari dagbók.

Svo mörg voru þau orð. Einhvern veginn er ég ekki alveg að kaupa það að ég hafi vaskað svona oft upp eftir matinn (kannski bara diskinn minn...)

miðvikudagur, 6. október 2004

Tilviljanir eru undarlegar

og oft veltir maður því fyrir sér hvort tilviljun sé í raun tilviljun - eða eitthvað allt annað. Ég var á námskeiðinu hjá Þorvaldi Þorsteins í kvöld og enn sem komið er höfum við lítið skrifað en tölum þeim mun meira. Það er að segja, Þorvaldur talar og við hlustum (megnið af tímanum) en einnig ræðum við saman hópurinn. Í kvöld var meðal annars verið að tala um leikrit og Þorvaldur las fyrir okkur smá bút úr leikriti sínu "And Björk of course", þar sem ein sögupersónan segir frá því hvernig hún og vinkona hennar stríddu mállausri stelpu þegar þær voru krakkar. Þá fer einn á námskeiðinu að tala um sérstaka upplifun sem hann hafði orðið fyrir í leikhúsinu um daginn - og hann þurfti ekki að segja meira, ég vissi strax hvað hann var að tala um - og Þorvaldur líka. Í ljós kom að við höfðum öll verið á sömu leiksýningu þegar einn leikhúsgesturinn byrjaði að kalla fram í leikritið (þegar var verið að gera grín að fötluðum) og rauk svo út í fússi. Þetta fannst mér skrítin tilviljun, að helmingur okkar sem vorum á námskeiðinu í kvöld höfðum verið á þessari sömu sýningu.

Annars var hálfgert púsluspil hjá mér að komast á námskeiðið. Valur ennþá í Neskaupstað og Andri á handboltaæfingu frá kl. korter yfir átta til tíu. Ísak var á námskeiði í silfursmíði frá kl. sex til átta og til að hann þyrfti ekki að vera einn heima í kvöld þá datt mér í hug að vinur hans gæti gist hjá honum. Allt í góðu með það, þurfti reyndar að hringja nokkrum sinnum heim og "fjarstýra" en þegar ég kom loks heim kl. hálf ellefu átti Ísak ennþá eftir að fá kvöldmat. Þannig að ég snaraði pylsum í pottinn sem þeir gleyptu í sig í einum grænum. Síðan voru þeir reknir beint í tannburstun og liggja núna og eiga að vera að fara að sofa. Það tekst þó ekki alveg, enda vita allir sem einhvern tíman hafa gist hjá vinum sínum að fyrst þarf að spjalla, segja brandara o.s.frv.

Er búin að vera með einhverja árans drullupesti í bráðum heila viku núna og gengur illa að losna við hana þrátt fyrir að gleypa vítamín og ólífulauf í tonnatali. Mér skilst reyndar að hálfur bærinn sé með þessa pesti þannig að ekki get ég kvartað. Hrefna dóttir mín er líka veik og búin að mæta í vinnu alveg aðframkomin af því það eru svo margir í vinnunni veikir. Í gær sagði ónefndur vinur minn -"Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur en þú ert eins og skítur". Ekki löngu seinna fór ég í 10-11 og þar sat Hrefna á kassanum og afgreiddi mann og annan, náföl í framan með annað augað rautt og bólgið og dúndrandi hausverk þar að auki. Í þeirri samkeppni sem ríkti milli okkar mæðgnanna um það hvor okkar liti verr út þá vann hún yfirburðasigur!

mánudagur, 4. október 2004

Pitsa 3 daga

í röð - þetta þurfa vesalings synir mínir að þola þegar pabbi þeirra er ekki heima til að elda ofan í þá. Það var þó ekki með vilja að ég hafði matinn svona einhæfan. Ástæðan er sú að á föstudaginn pantaði ég pítsu og þar sem ég vissi að ég yrði ekki heima til að elda kvöldið eftir ákvað ég að panta tvær stórar svo þeir gætu borðað afganginn á laugardagskvöldinu. Nema hvað, þegar ég kem að sækja pítsurnar þurfti ég að bíða og bíða og skildi ekkert í þessu. Þegar nafnið mitt var loksins kallað upp kemur afgreiðslumaðurinn með fangið fullt af pítsukössum (eða það fannst mér að minnsta kosti). Höfðu þeir gleymt að setja auka ost ofan á eina pítsuna og þess vegna gert aðra en létu okkur síðan fá allar þrjár á verði tveggja. Ég sá mitt óvænna og hringdi í Hrefnu og Ella sem komu og borðuð hjá okkur - en það sá ekki högg á vatni. Þannig að síðan hafa þeir bræður verið að ganga smátt og smátt á birgðirnar og loks kom að því í gær að síðasta pítsusneiðin hvarf ofan í Andra. Það hindraði nú ekki bróður hans í að spyrja í dag hvort hann gæti ekki fengið pítsu í kvöldmatinn!!

Á laugardagskvöldið fór ég ásamt Hjördísi vinkonu minni á Fiðlarann en þar var samankominn hópur fólks sem æfir í líkamsræktarstöðinni Átaki. Þeir allra sprækustu höfðu reyndar farið í jarðböðin í Mývatnssveit fyrr um daginn en þá lá ég heima með leynilögreglusögu (og kvef) og kláraði alla bókina, 311 bls. viðurkenni að ég var orðin frekar steikt í höfðinu fyrir rest. Það voru líklega í kringum 50 manns á Fiðlaranum og Gugga Gísla eigandi Átaks talaði um að gera þetta að árvissum viðburði (ásamt, jólagleðinni, árshátíðinni, páskafjörinu o.s.frv.) Það eina sem skyggði á gleðina voru gæði matarins - eða skortur á gæðum öllu heldur. Það var frekar bragðlaus sjávarréttasúpa í forrétt og vantaði bara smá "extra touch" til að gera hana góða, í aðalrétt voru ofsteiktar lambalundir (alveg well well well done) en eftirrétturinn, súkkulaðimús, bjargaði því sem bjargað varð og var bara mjög góður. Ég veit að þetta hljómar eins og óþarfa neikvæðni og maður borgaði nú bara 2.500 krónur fyrir herlegheitin en vandamálið er það að Fiðlarinn yrði örugglega ekki fyrir valinu næst þegar mér dytti í hug að fara út að borða með bóndanum. En koníaksstofan er hugguleg og fínt að sitja þar og spjalla þrátt fyrir helst til mikinn sígarettureyk á köflum.

Við Bryndís fórum í dag og kynntum niðurstöður könnunar sem við vorum að vinna fyrir Akureyrarbæ. Það er alltaf gott að reka endahnútinn á verkefni og ákveðinn léttir sem því fylgir að vera búin með kynninguna líka. Þá er bara að fara að finna sér ný verkefni......

föstudagur, 1. október 2004

Leikvöllurinn

fyrir aftan húsið okkar hefur verið óbreyttur í u.þ.b. 35 ár eða svo. Það er að segja, í upphafi var hann auðvitað flottur og fínn, glæný leiktæki, rólur, sandkassar, vegasalt, rennibraut og eitthvað snúningsapparat sem ég veit ekki hvað heitir. Við krakkarnir í hverfinu nýttum leikvöllinn til hins ýtrasta, m.a. annars var rólað og sungið hástöfum "Er ég kem heim í Búðardal" og fleiri lög sem voru vinsæl "í den" og á kvöldin var farið í slábolta, allt þar til nágranninn var orðinn þreyttur á að krakkaskarinn væri alltaf að sækja boltann inn á lóðina (við ruddumst örugglega í gegnum runnana) og fékk bæinn til að setja girðingu í gegnum leikvöllinn miðjan. Girðingin eyðilagði náttúrulega leikinn fyrir okkur og sennilega hefur ekki verið hugsað mjög fallega til nágrannans með verðlaunagarðinn.

Nema hvað, þegar við Valur fluttum hingað í Stekkjargerðið var leikvöllurinn gamli í algjörri niðurníslu. Búið var að brjóta og bramla sandkassann og fíflar og annað illgresi fékk að vaða yfir allt. Fyrstu 3 árin hringdi ég reglulega í formann leikvallanna og bað um að eitthvað yrði nú gert til bóta. Og í hvert skipti lofaði hann öllu fögru en síðan gerðist ekki neitt (minnir mig reyndar á son minn tölvufíkilinn en það er nú önnur saga) en lokst gafst ég upp á að hringja, enda vita gagnslaust.

Fyrir hálfum mánuði eða svo heyri ég allt í einu hljóð í vinnuvélum ofan af leikvelli og viti menn, verið var að grafa upp allan völlinn og búið að taka gömlu leiktækin. Ég varð ægilega ánægð og fylgdist með breytingunum dag frá degi. Það kom reyndar svolítið skrítinn svipur á mig þegar ég sá að þeir voru að undirbúa völlinn fyrir malbikun - ég ætlaði vart að trúa því að leikvöllurinn ætti að vera malbikaður og skildi ekkert hvað var að gerast - en jú, jú, malbikaður er hann en gúmmímottur umhverfis nýju, fínu leiktækin. Í gær var lokið við síðustu handtökin og börnin í hverfinu hafa alla vikuna leikið sér þarna meira og minna frá morgni til kvölds. Reyndar aðeins meiri hávaði sem berst inn til okkar fyrir vikið en meðan börnin eru glöð þá eru allir glaðir.

Í dag var ég heima (tók mér sumarfrí í einn dag....) og á einhverjum tímapunkti varð mér litið út um gluggann inni í Andra herbergi. Sé hvar einhver strákur, ca. 12 ára, sem ég hef aldrei séð áður er að spreyja einhverju á einn rólustaurinn (sem er úr tré) og hugsa með mér "Er drengurinn virkilega að úða lakki eða álíka á staurinn???" og næ varla upp í nefið á mér fyrir hneykslun. Nei, það næsta sem ég sé er að það logar glatt í staurnum á svæðinu sem hann hafði spreyjað á. Það fauk svo rosalega í mig að ég öskraði og æpti út um gluggann hvern andsk.. hann væri eiginlega að gera, þetta væru glæný leiktæki og svona gerði maður bara ekki.... og sitthvað fleira sem ég man ekki. Var alveg brjáluð! Eldurinn dó fljótt út en strákurinn hljóp strax í burtu og ég sá mest eftir því að hafa verið að æpa á hann út um gluggann, hefði auðvitað átt að fara út og taka af honum brúsann og kveikjarann. Vonandi kemur hann ekki og kveikir í hjá mér í hefndarskyni.....