mánudagur, 25. febrúar 2013

Lífið er hverfult


Haustið 2004 var ég á námskeiði í Skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Ég minntist stundum á þetta námskeið í blogginu og fannst það alveg frábært, þó ekki hafi ég farið að skrifa sögur í löngum bunum að því loknu. Hins vegar fékk ég hugmynd að barnabók, sem situr enn í kollinum á mér, og á ef til vill eftir að rata á blað einhvern tímann.

Fyrir stuttu síðan var ég að skrifa um það hér á blogginu að mig langaði að gefa skrifunum nýtt tækifæri og þá rifjaði ég m.a. upp veru mína á námskeiðinu hjá Þorvaldi. Í framhaldinu benti Þórdís í Kópavogi mér á að á döfinni væri námskeið í ritlist sem væri m.a. haldið í Hofi hér á Akureyri. Ég skráði mig á þetta námskeið (eins og dyggir lesendur vita) og settist í framhaldinu niður og las yfir hluta af glósunum mínum af námskeiðinu hjá Þorvaldi. Þannig má segja að hann hafi verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið. Það var því algjört áfall að sjá á netinu í gær að hann væri látinn.

Á sínum tíma hafði það mikil áhrif á mig að kynnast honum og hans lífsviðhorfum - og hann gaf mér von um að einn góðan veðurdag gæti ég farið að rækta hæfileika mína - þegar ég gæfi því pláss í lífi mínu. Það er þó alveg ljóst að ekki getur maður beðið að eilífu eftir rétta tímanum, því enginn veit hvað hann á langt eftir. Samanber það að Þorvaldur var bara 4 árum eldri en ég. Svo það er eins gott að láta drauma sína rætast meðan tækifæri er til.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vel skrifað um áhugaverðan mann, er væntanlega átti margt eftir ógert, myndin sýnir hverfulleikann.
HH

Guðný Pálína sagði...

Takk Halur minn kær.