þriðjudagur, 19. febrúar 2013

Sitt lítið af hverju

Það má segja að daglegt líf mitt á nýja árinu hafi fram að þessu einkennst af þreytu og þeirri tilraun minni að reyna að hvíla úr mér þreytuna. Það hef ég gert með því að sofa vel og lengi á hverri nóttu, sleppa sundi á morgnana til að geta sofið lengur, gera nánast ekkert annað en vinna þá daga sem ég er að vinna, og hvíla mig allar helgar (nema helgina sem við Valur fórum suður).

Enn sem komið er hefur þessi tilraun mín borið lítinn árangur. Ég er ennþá þreytt og geng alltof oft á það sem ég kalla „þreytuvegginn“ en þá klárast orkan algjörlega, þó tímabundið sé. Í morgun t.d. þá var ég á hárgreiðslustofu í klippingu og litun, sem tekur tímann sinn, og eftir ca. 2ja tíma setu þá var orkan alveg búin. Þar sem ég sat fyrir framan spegil þá sá ég vel hvernig ég var orðin grá í framan og þetta síðasta korter var virkilega erfitt að halda haus. Þetta var um hálf eitt leytið og þegar ég kom í vinnuna klukkan tvö var ég ennþá dauðþreytt, þó ég reyndi að láta ekki mikið á því bera.

En já þetta fer nú vonandi allt að koma hjá mér, með hækkandi sól og svona.

Annars er ég byrjuð á námskeiðinu í skrifum og búin að horfa á einn fyrirlestur á netinu. Næsti fyrirlestur er á laugardaginn kl. 10:30-12:30 og þá kemur Anna Heiða hingað norður og verður með fyrirlesturinn í Hofi. Það verður ábyggilega skemmtilegra + að þá fæ ég að sjá hina þátttakendurna á námskeiðinu. Eini gallinn er sá að ég er að vinna þann laugardag frá 13-17, svo þetta verður býsna langur dagur fyrir gömlu, en það reddast nú allt.

Um síðustu helgi afrekaði ég reyndar að bjóða vinkonu minni í mat, þegar Valur var fyrir sunnan á Sónar tónlistarhátíðinni. Þær áttu nú eiginlega að koma tvær, en hin forfallaðist. Ég ákvað að standa samt við mitt og hafði það af að elda mat, ótrúlegt en satt. Gerði sama kjúklingaréttinn og Valur gerði um daginn og hann heppnaðist bara ljómandi vel. Við sátum heillengi og spjölluðum og þetta var virkilega notalegt kvöld.

Daginn eftir, um fjögurleytið, hringdi Andri óvænt. Þá var hann staddur úti á flugvelli í smá stoppi, og ég brunaði út á flugvöll og knúsaði hann aðeins. Tók svo þessa mynd á símann minn þegar hann var aftur farinn í loftið.

Engin ummæli: