fimmtudagur, 24. maí 2012

Umfjöllun um Potta og prik á bloggsíðuÞað er flott umfjöllun um búðina okkar Sunnu á bloggsíðunni mAs. Við erum kannski ekki þær allra duglegustu að koma okkur á framfæri, svo það er extra gaman að fá svona óvænta umfjöllun.

Það er að segja, þetta kom kannski ekki alveg á óvart, að því leytinu til að þær systur sem standa fyrir síðunni, voru búnar að hafa samband við okkur og lýsa yfir áhuga á því að gera þetta. Þær sögðu að Pottar og prik væru ein uppáhalds verslunin þeirra á Akureyri og þær kíkja alltaf við hjá okkur þegar þær koma norður.

Við tókum líka þátt í smá leik með þeim. Gáfum FireWire grillpinna, sem þær ætla að gefa heppnum lesanda bloggsins, þegar þær hafa náð 100 vinum á facebook.

Þær eru reyndar ekki einar um það að koma alltaf við hjá okkur þegar þær eru á Akureyri. Fyrr í vikunni komu hjón í búðina. Þau búa líka fyrir sunnan og koma alltaf og versla aðeins við okkur þegar þau eru á ferðinni hér norðanlands. Í fyrra tókum við spjall saman og í ljós kom að sonur þeirra hafði búið í Tromsö, alveg eins og ég. Og núna þegar þau komu, heilsuðu þau mér með miklum virktum.  Bara gaman að því :-)

Í dag gerðist líka dálítið skemmtilegt í vinnunni. Í búðina komu hjón sem sögðust reka farfuglaheimili á Austfjörðum. Þau voru að leita að ákveðnum hlut, fati sem hægt væri að nota undir álegg. Fatið þurfti að vera ferkantað og helst hvítt á litinn. Ég sýndi þeim það sem við eigum en ekkert hentaði. Svo versluðu þau annan hlut og héldu síðan á brott. Eftir að þau voru ákvað ég að fá mér að borða og byrjaði að háma í mig salat.

Á meðan ég var að borða ráfaði ég inn á lager og þar rak ég augun í postulínsfat sem ég hafði gleymt að sýna fólkinu. Sá strax að þetta væri líklega akkúrat rétta fatið og fannst miður að hafa ekki munað eftir því. Datt þá í hug að finna farsímanúmerið þeirra og hringja, svona ef ske kynni að þau væru kannski ennþá á Glerártorgi. Þau voru hins vegar farin burt af torginu og komin eitthvert út í bæ. Ég sagði þeim samt erindið og sagðist bara hafa viljað láta þau vita, svona ef þau hefðu verið enn á torginu. Svo kvöddumst við.

Nokkru síðar birtust þau samt. Ég sýndi þeim fatið, sem þau voru mjög hrifin af, og keyptu tvö stykki. Síðan hurfu þau á braut sæl og glöð og ég var mjög ánægð með dagsverkið :-)

Engin ummæli: