Svo í morgun gerðist tvennt. Hið fyrra var að hún vildi fara út og ég hleypti henni út en lokaði hurðinni af því golan var svo köld. Mér tókst að gleyma henni alveg þar til ég fór svo í sund (tja svona 20 mínútur að hámarki) og þegar hún kom inn byrjaði hún að hósta enn eina ferðina. Hið síðara var að okkur vantaði kattasand og ég ákvað að fara uppeftir til Elvu dýralæknis til að kaupa sand, og forvitnast í leiðinni um þetta kvef. Sem ég og gerði. Nema hvað, þá fæ ég að vita að þetta sé mjög líklega barkarbólga og við henni þurfi að gefa sýklalyf.
Þannig að það var ekkert annað í stöðunni en bruna heim aftur og sækja köttinn. Eins og venjulega varð hún alveg sármóðguð yfir því að vera sett í búr, en þó er bílinn hennar versti fjandi. Hún hóf því fljótlega upp ráma raust sína og kvartaði hástöfum alla leið til dýralæknisins. Úff, ekki það skemmtilegasta sem ég veit að keyra með kvartandi kött. Nógu er hún hávær svona dags daglega, en þarna finnst henni liggja svo mikið við að koma skilaboðunum á framfæri, að hún hækkar sig upp um marga tóna. Í dag var hún jú í þokkabót frekar hás, svo þetta var ekki fagur söngur né þægilegur áheyrnar.
Jæja, en við komumst á áfangastað og hún fékk sýklalyf í sprautuformi + verkjalyf og ég fékk sýklalyf í fljótandi formi til að taka með heim og halda áfram meðferðinni þar. Að sjálfsögðu mjálmaði frúin ekkert minna á heimleiðinni, þó heldur væri farið að draga úr hljóðstyrknum. Hún varð glöð að komast heim en samt áfram svo stressuð að hún gekk hér um gólf mjálmandi af og til í góða stund. Svo vildi hún fara út og fékk það. Kom inn aftur og ældi (eins og venjulega) smá skammti af grænu grasi. Þegar hér var komið sögu var orkan búin í bili og hún örmagnaðist á rúminu hér við hliðina á tölvunni minni. Ætli hún verði þar ekki í dag.
Hér sést svo drottningin sjálf í fanginu á Ísaki. Ekki kannski virðulegasta stellingin fyrir aldraða kisu, en hún er orðin svo athyglissjúk að hún lætur sig hafa hvað sem er, svo lengi sem einhver sýnir henni athygli.
2 ummæli:
Batakveðjur til bláeygðu kisu:)
Takk takk :) Hún vonandi hristir þetta af sér.
Skrifa ummæli