laugardagur, 12. maí 2012

"Allir" að flytja burt úr götunni minni



Jæja OK það er nú kannski ekki alveg svo slæmt að allir séu að flytja, en upplifunin er svipuð. Núna um helgina er verið að flytja úr tveimur húsum, nr. 6 og nr. 8.

Í fyrsta lagi þá er hún Dóra að flytja úr húsinu á móti okkur, eftir að hafa búið þar í ein 45 ár. Og þar sem ég átti jú heima hér í sama húsi sem barn og fullorðin, þá hefur Dóra verið nágranni minn nánast allt mitt líf. En eftir að Jón maðurinn hennar dó þá var ljóst að það var of mikið fyrir hana að vera ein í einbýlishúsi, og nú er hún að flytja í blokkir fyrir aldraða í Víðilundi, hér stutt frá. Það er gott fyrir hana að þurfa ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi húss né garðs lengur, og svo tekur hún mikinn þátt í handavinnu fólksins í Víðilundi , og þá verður nú aldeilis stutt að fara í handavinnuna. En mikið sem það verður skrítið að sjá einhverja aðra í húsinu þeirra Jóns og Dóru! Að minnsta kosti svona fyrst í stað.

Eins og ég sagði í byrjun er fólkið í Stekkjargerði 6 líka að flytja í dag. Ég þekki þau ekki mikið en þó nóg til að heilsa og spjalla aðeins þegar ég hitti þau. Þetta er viðkunnanlegt fólk sem verður eftirsjá að.

En þetta er víst gangur lífsins. Fólk kemur og fer. Það verður samt alltaf einhver angurværð í hjartanu við svona breytingar.

Ég minnist þess að þegar við bjuggum í Bergen í Noregi kynntist ég konu sem var með mér í heimspekiáfanga í háskólanum. Kersti hét hún, var þýsk og dálítið sérstök, en við náðum þokkalega saman. Þegar kom að því að ég var að flytja frá Bergen til Tromsö, álpaðist ég til að segja við hana að hún myndi ábyggilega kynnast einhverri annarri konu í staðinn fyrir mig. Það er ekki hægt að lýsa svipbrigðum hennar, né rödd, þegar hún svaraði með hálfgerðum þjósti: "Heldur þú að ein manneskja geti komið í stað annarrar? Þannig er það bara ekki!". Og auðvitað var það alveg rétt hjá henni Kersti.

1 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Já það er svolítill drungi yfir götunni á þessari mynd :-(.......
eða þannig