laugardagur, 19. maí 2012

Kemst ekki í afmælisbrunch hjá vinkonu minni

Því miður. Þetta er þriðji dagurinn sem ég er veik. Fyrsta daginn var ég bara með heljarinnar hálsbólgu, annan daginn bættist hor í hópinn og nú er hóstinn að byrja. Hálsbólga, hor og hósti. H-in þrjú eins og Umferðar-Einar (karakter úr þáttum með Tvíhöfða) myndi kalla þetta. Nema hvað hann hefði ekki munað hvað þriðja H-ið stóð fyrir.

Það er leiðinlegt að missa af afmælinu hennar Ernu, en hún er fimmtug í dag og heldur uppá það með heljarinnar brunch sem byrjar núna kl. 10.30. Við Erna höfum þekkst síðan við vorum unglingar. Mig minnir að ca. 17 ára hafi hún verið hárgreiðslunemi á hárgreiðslustofunni í Kaupangi og þá byrjaði ég að fara til hennar í klippingu. Nokkuð sem ég hef gert nánast alla tíð síðan, þó vissulega hafi ég búið í Noregi á tímabili og stundum tekið tarnir hjá öðrum hárgreiðslukonum, þá enda ég alltaf aftur hjá Ernu. Svo erum við líka klúbbsystur, í litla konuklúbbnum með stóra nafnið, Kvennaklúbbi Akureyrar.

Kosturinn er sá að ég er ekki jafn rosalega þung yfir höfðinu í dag miðað við gær, en þá gat ég hvorki prjónað, saumað eða lesið mér til afþreyingar. Þannig að kannski ég komi rennilásnum í buxurnar sem ég var að bisa við í gær. Hafði gert ótal tilraunir og þetta varð alltaf skakkt og skælt hjá mér, nú eða þá að ég saumaði buxnaklaufina alveg saman eins og gerðist í eitt skiptið ;O)


Ljósmyndin sem hér fylgir er tekin í skóginum fyrir ofan Kristnes, síðustu vikuna mína þar.

1 ummæli:

ella sagði...

Verulega flott mynd.