fimmtudagur, 17. maí 2012

Garðyrkja er góð fyrir geðheilsunaHrefna Harðardóttir leirlistakona og ÁLFkona (meðlimur í ljósmyndaklúbbnum mínum) var með tengil á athyglisverða grein á facebook síðunni sinni. Titill greinarinnar er: Why gardening makes you happy and cures depression, og viti menn, forvitni mín var vakin og ég ákvað að lesa greinina.

Í stuttu máli gengur hún út á að vísindamenn hafa komist að því að ákveðin jarðvegsbaktería (Mycobacterium vaccae) eykur losun serotonins í heila okkar. Serotonin er stundum kallað hamingjuhormónið, þar sem skortur á því getur m.a. valdið þunglyndi og fleiri kvillum að því er talið er. Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar þunglyndi virðist vera að verða að alheimsfaraldri, þá er ekki úr vegi að hver og einn skoði hvað hann getur gert til að verjast þeim vágesti. Ein leið er sem sagt að drífa sig út í garð og vinna berhent(ur) í moldinni svo líkaminn komist í snertingu við þessa ágætu bakteríu. Hvort sem það er að rækta sitt eigið grænmeti, gróðursetja blóm og runna, eða reita arfa úr beðunum.

Ekki veit ég hvort það er áðurnefndri jarðvegsbakteríu að þakka, en var ég einstaklega ánægð í vinnunni, þau sumur sem ég vann í Garðræktinni.  Vinnan var afskaplega fjölbreytt. Við gróðursettum blóm, runna og tré, lögðum þökur, hellulögðum, tíndum grjót úr túnum, reittum arfa úr beðum, slógum gras, unnum í gróðurhúsinu og ábyggilega eitthvað fleira sem ég man ekki. Bónusinn var líka sá, að það var alveg frábær hópur sem vann þarna, bæði krakkar og fullorðnir. Um daginn hitti ég stelpu (konu jafngamla mér...) sem vann með mér í Garðræktinni og við skemmtum okkur vel við að rifja upp góðar stundir. Svona eins og t.d. þegar við vorum að eitra í kartöflugörðum bæjarins að nóttu til, og Jónsi ók á traktor yfir kaffibrúsann minn. Okkur kom ekki alveg saman um það hvoru okkar væri um að kenna. Sá sami Jónsi setti mig líka undir stýri á traktor og kenndi mér á kúplingu og bensíngjöf. Af stað fór ég - en verr gekk þegar ég ætlaði að stoppa. Það varð einu tré færra á Hamarkotstúni...

Til að auka magn serotonins í líkamanum, er hægt að gera ýmislegt fleira en vinna í garðinum, s.s. að stunda hvers kyns líkamsrækt. Ennig að stunda iðju sem felur í sér taktfasta endurtekningu, eins og að prjóna, mála eða leika á hljóðfæri svo dæmi séu nefnd. Jafnvel það að tyggja tyggjó getur haft áhrif ("Secrets of Serotonin" eftir Carol Hart). Að vera úti í sólinni, fara í nudd, og rifja upp ánægjulegar minningar eru einnig þættir sem auka magn serotonins

Loks er þáttur mataræðis alveg ótalinn hér, enda held ég að það væri efni í heila bók. En fyrir áhugasama þá er t.d. ein grein hér um það hvernig hægt er að hafa áhrif á þunglyndi með mataræði.


P.S. Myndina af hádegisblómunum tók ég í Lystigarðinum sumarið 2009. Hádegisblóm voru ein uppáhaldsblómin mín þegar ég vann í Garðræktinni. Þau opna sig og blómstra þegar sólin skín, en þegar er þungskýjað er engin leið að sjá hvað þau eru falleg. Svolítið eins og með okkur mannfólkið. Þegar við erum glöð á góðum degi sést það langar leiðir, en erfiðara að sjá þetta góða sem í okkur býr þegar depurð og þunglyndi hafa náð yfirhöndinni.

Engin ummæli: