þriðjudagur, 8. maí 2012

Jón Spæjó

Það var einu sinni lag með Ladda með þessu nafni. Einhverra hluta datt mér það í hug núna, en umfjöllunarefnið er mín eigin njósnastarfsemi. Tja, kannski svolítið yfirdrifið að tala um njósnir, en já nú ætla ég að gera það sem ég hef lengi hugleitt að gera, en aldrei látið verða af. Nefnilega að skrá niður allar athafnir mínar og líðan og sjá hvort ég læri ekki eitthvað af því. Hvort ég finn samhengi milli fleiri þátta heldur en ég þekki nú þegar. Eitt sem ég áttaði mig t.d. á þegar ég var á Kristnesi, var að orkan mín er svo sveiflukennd, að þó ég sé örmagna fyrri part dags, þá kemur kannski smá orkuskot seinni partinn, og þá get ég t.d. notað þann tíma til að fara út að ganga í stað þess að þvinga mig út að ganga þegar ég er þreytt.

Þessi skráning mín er liður í því að læra að lifa með Fröken Vefjagigt, og verður spennandi að sjá hvort einhver athyglisverð munstur koma í ljós. Aðal vandamálið verður að muna eftir því að skrá allt - alltaf - og fyrir manneskju sem getur ekki einu sinni munað að taka vítamín daglega er það vissulega áskorun. En ég er byrjuð og til þess að auðvelda mér skráninguna bjó ég til nýtt dagatal inni í Google calendar (sem er frábært forrit). Ég get skráð jafnóðum þar inn þegar ég er tölvutengd, en svo keypti ég mér líka litla stílabók til að hafa með mér í töskunni og nota þegar ég ekki nálægt tölvu. Þannig að ég ætti að vera tilbúin í slaginn.

En þetta með orkuna er mér sífellt undrunarefni. Í vinnunni í dag leið mér t.d. nógu vel til þess að ég ákvað að þrífa útstillingarborðin með vatni og sápu í stað þess að þurrka bara rykið með rykkústi (sem er mun fljótlegra og þægilegra). Ég byrjaði reyndar á þessu verki í gær og ætlaði aldeilis að vera skynsöm og deila þessu í fleiri smærri áfanga, til þess að klára mig ekki á þessu. Svo hélt ég sem sagt áfram við þetta í morgun og tók svo ágætis pásu, fékk mér að borða og græjaði nokkrar pantanir til birgja. Fór svo í lokahnykkinn og fyrst var allt í lagi en svo bara allt í einu var eins og ég gengi á vegg (já eða gengi fram af björgum...). Umskiptin voru svo snögg að það er eiginlega alveg stórmerkilegt. Frá því að vera bara í nokkuð góðum gír en smá lúin, yfir í það að vera gjörsamlega veik af þreytu. Ég fékk mér gingseng te og hresstist pínu lítið við það, en það sem eftir lifði dags hef ég verið hálf ónýt. Skrifa þetta t.d. liggjandi á sófanum.

Ég fór nú samt út að ganga fyrir kvöldmatinn, kannski meira á hörkunni, og ef ég hefði verið skynsöm þá hefði ég líklega átt að sleppa því. Það er bara svo erfitt að vera skynsöm. En ég var með GPS úrið og mældi m.a. púlsinn og hann var alveg 20 slögum hærri að meðaltali en á sunnudagskvöldið þegar við Valur fórum í gönguferð og þá var ég ekki svona þreytt eins og í dag. En já já, batnandi mönnum er best að lifa og svo lengi lærir sem lifir o.s.frv. You get my point!


Engin ummæli: