miðvikudagur, 2. maí 2012

Það eru margir sem eiga við veikindi að stríða

Eins undarlega og það kannski hljómar, þá fór ég áðan í gönguferð í rigningunni, og afrakstur þeirrar gönguferðar urðu vangaveltur um alla þá eiga í veikindum af einhverju tagi, og þau miklu áhrif sem það hefur á líf þeirra.

Þetta var ekki langur göngutúr, ég fór bara smá hring í mínu næst-nánasta umhverfi. (Nánasta umhverfi er hringurinn hér í hverfinu mínu, en þarna fór ég niður í næsta hverfi fyrir neðan, mýrarnar). Ég hafði ekki gengið lengi þegar ég gekk framhjá húsi einu, og allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að konan sem þar býr var að hluta til á Kristnesi á sama tíma og ég. Hún hafði veikst hastarlega fyrir einhverju síðan og hefur ekki náð sér aftur nema að litlu leyti. Skömmu síðar gekk ég fram hjá öðru húsi, og einnig þar á húsfreyjan við veikindi að stríða. Veikindi sem gengið hefur illa að finna út af hverju stafa, og þar af leiðandi er erfitt að meðhöndla þau. 

Í kjölfarið fór ég að hugsa um allar þær ungu konur sem eru að greinast með vefjagigt og þurfa að finna leiðir til að láta hverdaginn ganga upp, margar hverjar með ung börn, heimili og vinnu/skóla. Ég er þó svo "lánsöm" að vera ekki lengur með lítil börn, og ég á mann sem tekur sinn hlut af heimilisstörfunum. Þrátt fyrir þetta gengur mér ekkert of vel að vinna með vefjagigtinni, þ.e. að vinna með henni í stað þess að vera í endalausu stríði við hana. 

Kosturinn við prógrammið á Kristnesi var sá að hver einstakur dagskrárliður tók aldrei nema 30-40 mín. í mesta lagi og því náði maður að pústa á milli. Ég las einhvers staðar um konu sem fór að taka sér reglulegar 5-10 mín. pásur á hverjum klukkutíma og tókst að bæta virknina/líðanina yfir daginn töluvert. Það eru líka til kenningar um þetta með að fara ekki út fyrir orku-rammann sinn. Ein heitir The envelope theory og önnur kallast Pacing - ég held að í grófum dráttum fjalli þær um það sama. Ég þarf að kynna mér þetta efni betur og reyna að finna eitthvað kerfi sem hentar mér. Það er alveg bráðnauðsynlegt, því ég upplifi það eins og ég sé strax aftur að falla í gamla munstrið. Eftir að hafa verið í vinnunni í 4-5 tíma kem ég örmagna heim og þá er ekki um annað að ræða en henda sér upp í sófa, eða hanga fyrir framan tölvuna - eða víxla þar á milli. En vissulega eru líka viðbrigði að byrja aftur að vinna eftir hlé, svo kannski er þetta bara "byrja-að-vinna-aftur-þreyta". 

Ég er alla vega búin að afreka það að fara í sund í morgun, og þó svo ég hafi legið fyrir að mestu frá því ég kom heim úr vinnunni, tókst mér að herða mig upp og fara út að ganga núna áðan. Svo ástandið er nú ekki alslæmt ;-)

Engin ummæli: