laugardagur, 5. maí 2012

Lazy Daisy á laugardegi

Stóðst ekki mátið að leika mér aðeins með fyrirsögnina hér, en jú ég er löt og það er laugardagur. Morguninn hefur verið tekinn afar rólega hér á bæ. Við sváfum til rúmlega hálf níu og drukkum svo morgunkaffið og lásum blöðin í rólegheitum. Hús og híbýli datt hér inn um lúguna og ég sá að þar var meðal annars innlit til konu hér á Akureyri. Hún á heima í hverfinu hér fyrir neðan mig og er þar að auki með bloggsíðu sem gaman er að skoða. Þegar ég byrjaði að blogga fyrir (mér liggur við að segja hundrað árum) tæpum 8 árum voru ekki svo mörg íslensk blogg, en mér finnst fjöldi þeirra hafa margfaldast bara á síðustu 2-3 árum. Sérstaklega þau sem flokka mætti sem tískublogg, eða hönnunar- og húsbúnaðarblogg. Þessi nýja tegund blogga kemur í viðbót við blogg eins og mitt, sem er svona "allt og ekkert" blogg og snýst aðallega um daglegt líf og einhverjar vangaveltur viðkomandi höfundar. Hvað um það, mér finnst sérstaklega gaman að skoða blogg sem sýna "fyrir og eftir" myndir af breytingum sem gerðar eru á hlutum eða innviðum heimila. Stefni að því að taka saman tengla á nokkur slík.

P.S. Þessi færsla var skrifuð svona ca. um hádegisbilið, en svo fór ég í vinnuna og gleymdi þessu alveg... Þannig að hún kemur seint og um síðir - og í millitíðinni er ég sem sagt búin að vinna, koma heim, fara út að ganga með GPS tækið, borða dýrindis pítsu með smá rauðvínstári, ganga frá í eldhúsinu, setja í þvottavél og hengja upp, setja í aðra þvottavél og hanga í tölvunni. Bara nokkuð gott dagsverk ;-)

2 ummæli:

stina sæm sagði...

Takk fyrir fallegt comment á síðunni.. alltaf svo gaman að því ;)
og þá gat ég líka uppgötvað bloggið þitt ;) líka svo gaman að því.
Ég gladdist líka við að sjá innlitið hjá henn bloggvinkonu minni, eins og um alvöru vinkonu væri að ræða... já er ekki blogglandið dásamlegt <3

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Jú blogglandið er bara ansi skemmtilegt :) Ég hef t.d. fengið tvo frábæra starfskrafta í vinnu, bara af því mamma þeirra var/er lesandi að blogginu mínu :) Þetta minnir svolítið á pennavinina sem ég átti þegar ég var krakki. Manni fannst maður þekkja þá svo vel en hafði aldrei hitt þá í eigin persónu. Og já takk fyrir að kommenta hjá mér :)