fimmtudagur, 8. apríl 2010

Úff ég er alveg að sofna

Og klukkan ekki orðin átta. Þannig að það er víst einum of snemmt að fara að hátta...

Það tekur greinilega á að byrja aftur að vakna klukkan hálf átta á morgnana, eftir letidaga um páskana. Og geisp!! Þetta er hrikalegt. Ég sem ætlaði að fara að gera við peysur af mér, einar þrjár, hvorki meira né minna. Þar af eru tvær frá því í fyrravetur, sem ég hef ekkert getað notað í vetur af því það eru göt undir höndunum á þeim. Meira framtaksleysið. En það hefur orðið útundan hjá mér að þvo af sjálfri mér undanfarið og sífellt erfiðara að finna föt til að fara í í vinnuna. Svo ég neyðist víst til að þvo og staga í göt ;)

Annars stendur til að við Valur og Ísak skreppum suður á morgun. Það verður víst bara stutt skrepp eins og venjulega, en kom óvænt uppá þar sem Valur átti að vera á helgarvakt en fékk skyndilega frí. Þá datt honum í hug að fara og ég ákvað að skella mér með honum sem sérlegur ráðgjafi í sófamálum. Hann ætlar nefnilega í Ikea að skoða sófa fyrir hljóðstofuna sína sem bráðum verður tilbúin. Þetta verður nú bara laugardagurinn í Reykjavík og ekki margt hægt að gera á einum degi, það er nokkuð ljóst.

Svo datt Val líka í hug að bjóða pabba sínum og mömmu út að borða annað kvöld, því á morgun verður pabbi hans 85 ára. Það varð úr að þeir bræður munu allir fara ásamt mökum, foreldrum og einhverjum börnum, þannig að allt stefnir í hina ágætustu afmælisveislu á morgun.

En já, ætli sé ekki best að koma sér í þessar peysuviðgerðir.

Engin ummæli: