fimmtudagur, 1. apríl 2010

Vatns-strætó-stoppistöðVenetian bus stop, originally uploaded by Guðný Pálína.
Ég skrapp áðan út í Intersport og keypti mér nýjar "heimabuxur". Það eru buxur sem þurfa ekki að vera sérlega fallegar, en umfram allt þægilegar. Önnur skilyrði eru þau að liturinn þarf helst að vera ljós svo kattarhárin, sem óhjákvæmilega munu setjast á efnið, sjáist ekki jafn vel. Í gær fór ég með Val í Byko að velja kalkmálningu fyrir herbergið hans niðri og þá kíkti ég aðeins í Intersport og sá þessar fínu gráu joggingbuxur en hafði ekki tíma til að máta þær. Ákvað sem sagt að drífa mig áðan og máta þær og sem betur fer smellpössuðu þær. Þannig að nú sit ég hér í þessum ljómandi þægilegu ljósgráu buxum og er voða ánægð :)

Valur ætlar að prófa nýja uppskrift að lambalæri á eftir. Þetta er ítölsk uppskrift sem var í Mogganum í dag (og já við kaupum ennþá Moggann þrátt fyrir alla vitleysuna með ritstjórnina á blaðinu) og verður spennandi að smakka eitthvað nýtt.

Að öðru leyti er allt meinhægt. Dagurinn hefur farið í innkaup og prjónaskap hjá mér og sparslvinnu hjá Val. Ísak er alltaf í sinni tölvu"vinnu" og Andri horfir á íþróttaleiki milli þess sem hann skreppur í sína tölvu. Kærastan hans er að fara að keppa í módelfitness á laugardaginn og er upptekin við undirbúning. Hrefna er úti í Köben, og sökum þess hve páskafríið hennar er stutt og ekki flogið beint til Akureyrar yfir veturinn, fannst henni ekki taka því að koma heim um páskana. Það hefði verið notalegt að fá hana en það verður víst ekki á allt kosið.

Með þessum pistli mínum fylgir mynd frá Feneyjum sem ég tók þegar við fórum þangað sumarið 2008.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já það væri nú ekkert dónalegt að vera heima og fá góðan mat á hverjum degi... og að sjálfsögðu félagsskapinn! :)

Kys og kram, Hrefna Sæunn

Guðný sagði...

Hahah, matur fyrst og svo félagsskapur... Gott að sjá hver forgangsröðunin er ;) Knús og kossar til þín líka :*