fimmtudagur, 22. apríl 2010

Gleðilegt sumar


Gleðilegt sumar, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég hefði reyndar getað farið út og tekið mynd af "sumrinu" hér á Akureyri, svona eins og það lítur út þessa stundina (snjór, blár himnin og sól), en valdi eina gamla í staðinn. Eins og þið sjáið er minnst af henni í fókus en það þykir voða fínt hjá sumum ljósmyndurum að hafa myndirnar þannig.

Sú var tíðin að á sumardaginn fyrsta fór ég í skátaskrúðgöngu, svo í skátamessu og loks heim að borða lambalæri með fjölskyldunni. Those were the days... :) Núna er fátt sem gerir þennan dag sérstakan. Enn fara þó skátarnir í skrúðgöngu og messu, og ég velti því jafnvel fyrir mér í smá stund áðan að skella mér í messuna kl. 11. En þar sem ég er að vinna kl. 13 þá fannst mér að ég myndi lenda í tímahraki, því ég þarf jú að komast heim og borða í millitíðinni og ekki veit ég hvað messan stendur lengi. Varla lengur en klukkutíma þó, svona þegar ég fer að velta því betur fyrir mér. En jæja, ég fer samt hvergi. Ætla að reyna að prjóna nokkrar umferðir, það er helsta markmið dagsins. En þar sem ég hef verið með svo bólgna eitla undir höndunum undanfarið (og verki út frá þeim, sem leiða niður meðfram síðunni), þá hef ég ekki mikið úthald í prjónaskap. Þá eru það bara "lítil skref" sem blíva. Að setjast oftar niður og gera minna í einu. Segið svo að ég læri aldrei af reynslunni :)

Engin ummæli: