mánudagur, 26. apríl 2010

Í sól og sumaryl - inni í herbergi...

Það er alveg yndislegt veðrið úti en sem sagt, ég sit hér inni og get ekki annað. Ja, eða get og get. Ég gæti svo sem farið út en vandamálið er að ég er búin að krækja mér í einhverja pesti og er svo hrikalega slöpp að ef ég hreyfi mig örlítið þá er ég alveg búin á eftir.

Þetta er nú búið að vera smá stund að malla í mér. Á fimmtudaginn eftir vinnu var ég t.d. alveg að drepast úr "beinverkjum" og eins á föstudagsmorgninum. En ég harkaði af mér og fór að dunda mér við að færa til hluti búðinni og tókst að gleyma mér við það. Fór svo í konuklúbb en þurfti að hafa virkilega fyrir því að halda andlitinu þar. Svo á laugardaginn var ég að vinna en var þá orðin ansi framlág á tímabili. Te og sykursæt smákaka náðu að bjarga mér fyrir horn samt og lyfta orkunni aðeins þannig að ég hélt haus til klukkan fimm. En um kvöldið var ég alveg að drepast úr verkjum í augunum og svoleiðis full af hori. Og í gær gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema hvíla mig. Lá í rúminu megnið af deginum. Fór reyndar og sótti brauðstangir handa okkur í kvöldmatinn.

Valur var nefnilega líka drulluslappur í gær. Hann reyndar vaknaði hress um sjöleytið og fór niður að vinna í herberginu sínu en um hádegisbilið var hann orðinn frekar grár í framan og fullur af hori. Já, þetta eru skemmtilegar lýsingar... ég veit. En eins og hans er von og vísa þá dreif hann sig í vinnu í morgun, en ég fékk Önnu til að taka helminginn af minni vakt á móti mér. Þannig að ég fer ekki að vinna fyrr en rúmlega fjögur. Stefni á algjöra afslöppun þangað til. Mér fannst ég samt vera hressari í morgun þegar ég vaknaði (eftir að hafa legið í rúminu í ca. 12 tíma) en um leið og ég fékk mér að borða þyrmdi yfir mig aftur. Greinilega of mikil vinna fyrir líkamann að halda mér uppréttri og melta mat á sama tíma ;)

Æ, ég veit að þetta er óskaplegt væl en eins og venjulega eftir að hafa vælt aðeins, þá líður mér betur.

Og nú ætla ég að leggjast inn í stofu með tærnar upp í loft.

Engin ummæli: