fimmtudagur, 1. apríl 2010

Hvað er þetta með matarinnkaup fyrir páskana?

Fólk verslar inn eins og það sé að búa sig undir vist í neðanjarðarbyrgi, eða eitthvað álíka. Ég kom keyrandi að Bónus tíu mínútum eftir opnun og viti menn, bílastæðið var að verða fullt. Í þetta skiptið ákvað ég að láta slag standa og versla, þrátt fyrir vanlíðunartilfinningu sem fór um mig þegar ég sá hvers kyns var. Ástandið var sýnu verst í grænmetiskælinum og ég hreinlega datt út í smá stund þar inni. Ákvað svo bara að draga andann djúpt og bíða eftir að mesta ösin færi þaðan út. Var svo heppin að hitta konu sem ég þekki og gat aðeins spjallað við hana. Hún var reyndar með manninum sínum en hann var snöggur að láta sig hverfa þegar hún var farin að spjalla. Þau höfðu líka ætlað  að versla í gær en snúið frá vegna mannmergðar. Svo í dag ætluðu þau rétt að fara í Bónus og mættu strax kl. 11 og svo ætluðu þau á skíði. En þrátt fyrir þokkalegt veður í morgun var nú komin stórhríð, það er eiginlega eina orðið yfir það. Þannig að hún sagði að ekkert yrði úr skíðaferðinni í bili. Svona er þetta víst, það eru engin garantí hvað veðrið á Íslandi snertir ;)

Engin ummæli: