miðvikudagur, 28. apríl 2010

Nýtt svefnmet

Já þau falla enn og aftur metin hjá mér í löngum svefni. Ég fór í háttinn um tíuleytið í gær og hef líklega verið sofnuð um hálf ellefu. Var reyndar endalaust að vakna í nótt, einhverra hluta vegna. Vaknaði á bakinu og snéri mér á hægri hliðina. Vaknaði aftur liggjandi á bakinu og snéri mér aftur á hliðina - og svona gekk þetta. En sem sagt, ég fór á fætur klukkan hálf átta til að vekja Ísak í skólann og græja nestið fyrir hann (já ég veit, voða góð mamma að sjá um nestið fyrir 15 ára gamlan fullfrískan strák - ég þekki samt eina sem dekrar mun meira en það við dætur sínar). Svo fékk ég mér te og ristað brauð og las bæði blöðin - en skreið svo aftur upp í rúm. Byrjaði á að lesa aðeins en steinsofnaði svo um níuleytið. Og fór ekki á fætur fyrr en að verða eitt. Svaf reyndar frekar köflótt en var samt steinsofandi megnið af tímanum. Ég ætlaði nú að fara að skamma sjálfa mig alveg ægilega fyrir þessa leti en ákvað að sleppa því. Held að það hljóti bara að vera gott fyrir líkamann að fá góðan svefn þegar maður er hálf lasinn. Hins vegar þýðir þessi gríðarlega afslöppun það, að húsið er ennþá allt á tjá og tundri. Það er að segja, ekki er búið að taka úr uppþvottavélinni og ganga frá í eldhúsinu, og ýmis önnur tiltekt sem ég hafði ætlað mér að gera varð ekki að veruleika. Nú er klukkan að verða tvö og ég er búin að mæla mér mót við tvær vinkonur mínar á kaffihúsi klukkan hálf fimm. Þannig að í teoríunni hef ég tvo og hálfan tíma til að fara eins og Ajax stormsveipur um húsið. En einhver lítil rödd segir mér að það sé ekki að fara að gerast. Ég er greinilega drulluslöpp ennþá eftir þessa pesti, þó vissulega sé alveg draumur í dós að vera laus við eyrnaverkinn og augnverkinn sem hrjáði mig í gær. Inni í stofu bíður líka lopapeysan hans Ísaks, ásamt nokkrum blöðum og bókum sem ég tók á bókasafninu í gær, þannig að mér sýnist allt stefna í áframhaldandi rólegheit af minni hálfu.

Engin ummæli: