mánudagur, 24. nóvember 2008

Fröken utanviðsig

Ég held áfram í mínu gigtarkasti sem líkist því helst að ég sé með alveg hrikalega beinverki uppúr og niðrúr. Þannig að í dag ákvað ég að sleppa sundinu og leggja mig frekar aftur þegar Ísak var farinn í skólann. Sem ég og gerði. Steinsofnaði og svaf til klukkan tíu. Verkirnir í skrokknum voru samt enn á síðum stað og ég ákvað að fara í sjóðandi heitt bað. Skolaði baðkarið að innan, skrúfaði frá heita vatninu og setti smá freyðibað saman við. Síðan fór ég fram í eldhús og hélt áfram að lesa blöðin og sitthvað fleira. Það tekur nefnilega svo agalega langan tíma að renna í baðkarið. Bæði er það stórt og svo er bunan alltaf hálf kraftlítil. Jæja, eftir að hafa hlustað á vatnið renna í dágóða stund fór ég loks aftur inná bað og hvað kemur þá í ljós? Jú, mín hafði gleymt að setja tappann í! Svo ég mátti byrja á öllu ferlinu uppá nýtt.

En til að detta ekki í þunglyndi yfir því hvað ég var rugluð að gleyma tappanum þá rifjaði ég upp sögu sem kona í sundi sagði mér um daginn. Einu sinni fyrir löngu var hún að greiða mömmu sinni og spurði þá gömlu hvort hún ætti ekki að setja hársprey yfir greiðsluna svo hún héldist lengur. Sú gamla vildi það nú helst ekki en dóttirin taldi sig vita betur. Seildist í nálægan spreybrúsa og spreyaði vel yfir hárið. Nema hvað, eitthvað fannst þeim vond lyktin af hárspreyinu svo hún leit á brúsann og sá þá að þetta var flugnaeitur!

Engin ummæli: