fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Eitthvað andlaus í augnablikinu

Líður eins og ég sé að verða veik en veit af reynslunni að þetta er líklega bara minn venjulegi slappleiki. Hins vegar á ég eitthvað erfitt með að "takla" þetta núna (svo ég sletti nú smá norsku) og datt í huggunarát áðan. Græddi auðvitað ekkert á því nema uppþembu og svekkelsi yfir sjálfri mér. Svo datt mér í hug að mæla mig og sjá hvort ég væri nokkuð með hita en ónei - hitamælirinn sýndi 35,7 og síðast þegar ég vissi telst það ekki vera hiti...

En svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra þá átti ég hina bestu helgi í höfuðstaðnum. Við systurnar náðum að vera töluvert saman og þá var tilganginum náð. Svo gisti ég hjá Rósu vinkonu og náði þar af leiðandi að hitta hana - og á sunnudeginum hitti ég Sólrúnu og Hjördísi. Eins kíkti ég til tengdaforeldranna á mánudaginn og var svo ljónheppin að Matti keyrði mig og mína þungu tösku út á flugvöll. Taskan var svona þung af því við eigum enga millistærð af ferðatösku og maður treður alltaf svo miklu í þessa stóru þó svo maður noti svo ekki nema örlítið brot af innihaldinu. Að vísu fór ég líka norður með 2 kg. af norskum brúnosti sem Anna færði okkur, 2 handavinnubækur sem Anna hefur þýtt og gaf mér, og 2 jólagjafir (sem gætu verið bækur). Það eina sem ég keypti mér í ferðinni var trefill/sjal sem framleitt er hjá Glófa á Akureyri en kostar minna í túristabúðunum í Reykjavík heldur en í verslunum hér í bæ! Í flugvélinni sat ég svo við hliðina á manni sem leit út fyrir að vera fársjúkur. Hann var rauður í framan og það snörlaði endalaust í honum. Myndi giska á að hann hafði verið með flensu og háan hita. Þannig að ég reyndi eins og ég gat að snúa höfðinu í hina áttina til þess að smitast ekki af honum og var komin með þvílíkan hálsríg í ferðalok (mér er nær fyrir að vera svona mikil pempía).

Jólastjörnurnar eru komnar upp á ljósastaura hér á Akureyri og eru ósköp fallegar að sjá í myrkrinu. Sumir eru líka búnir að setja seríur í alla glugga og fólk almennt að komast í jólagírinn. Mér finnst samt heldur snemmt að byrja að spila jólalög í útvarpinu en það er einmitt tilfellið á Létt-Bylgjunni, útvarpsstöðinni sem ég hlusta venjulega á í bílnum. Spurning að fara að kippa með sér geisladisk í bílinn?

Engin ummæli: