í rokinu. Við fórum meðal annars niður á Eimskipafélagsbryggju og Hoefner bryggju og tókum nokkrar myndir. Hann var með þrífót en ég tók fríhendis. Myndirnar tókust nú misvel eins og gengur en þetta var samt fín ferð hjá okkur.
sunnudagur, 30. desember 2007
"Ekkert ferðaveður er á Suður- Vestur- og á Norðurlandi"
laugardagur, 29. desember 2007
Ákvarðanir
Við Valur lentum í hálfgerðri krísu í gær og í dag þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að fara suður í brúðkaup bróðurdóttur hans sem er haldið núna í kvöld, laugardagskvöld. Við höfðum svo sannarlega ætlað okkur að fara og vorum bæði búin að skipuleggja frí frá vinnu vegna ferðarinnar. Fyrst var reyndar ætlunin að fara á föstudegi og heim á sunnudegi en meðal annars vegna Andra og Ísaks sem vildu stoppa sem styst í Reykjavík ákváðum við að fara frekar í dag og heim á morgun. Þá bar svo við að veðurspáin fyrir sunnudaginn var afar leiðinleg, spáð var roki/stormi og rigningu og ekki spennandi tilhugsun að keyra heim í slíku veðri. Sérstaklega þar sem snjór er núna yfir öllu og ljóst að yrði mjög hált þegar færi að hlána. Valur þurfti að vera kominn norður þann 30. því hann er á vakt á sjúkrahúsinu þann 31. og þá var aðeins eftir sá kostur að keyra heim um nóttina, eftir að hafa verið í veislunni. Ég gat varla hugsað mér að keyra norður um miðja nótt um hávetur. Fyrir utan að komast hvergi á klósett (og ég er ekki beint með samkvæmisblöðru) og að þetta færi ekki vel með bakið á mér (sem er slæmt fyrir) þá væru líka fáir á ferli ef eitthvað kæmi uppá hjá okkur.
Skynsemin sagði okkur að best væri að fara hvergi en hins vegar langaði okkur bæði afskaplega mikið að mæta í veisluna, þannig að við vorum í úlfakreppu. Valur lá á netinu og skoðaði veðurspár og færð á vegum og við vonuðum að spáin myndi breytast til hins betra. En í morgun var alveg sama spáin og ákvörðun endanlega tekin um að vera heima. Þrátt fyrir að við vitum bæði að þetta hafi verið skynsamlegasti leikurinn í stöðunni þá erum við bæði hálf ósátt við þetta og hálf vængbrotin eitthvað. Jamm og jæja, svona fór um sjóferð þá.
miðvikudagur, 26. desember 2007
Smá jólavæmni í gangi...
Og fallegi maðurinn minn
Með jólagjöfina sem hann fékk frá Kidda (hinum megin er mynd af Landrover jeppanum sem nefnist Tuddinn í daglegu tali).
Jólin komin og farin... eða næstum því
Að öðru leyti ganga jólin fyrir sig eins og við er að búast. Hamborgarahryggur, hangikjöt og humar eru á matseðlinum og heilar tvær smákökusortir. Engar tertur, engin fjölskylduboð, bara konfekt og afslöppun. Valur fékk skemmtilega bók, viðtalsbók við rithöfunda, sem ég hef haft gaman af að glugga í. Búin að lesa viðtöl við Kristínu Mörju Baldursdóttur og Guðrúnu Helgadóttur og hlakka til að lesa meira. Fleiri bækur rötuðu í hér í hús og búið að lesa sumar og fletta öðrum en aðrar eru óopnaðar.
Hrefna og Erlingur eru varla komin fyrr en þau eru að fara aftur til Danmerkur. Það er próf hjá henni 2. janúar og dugar víst ekki að slæpast lengur... Þau ætla að keyra suður yfir heiðar fyrri partinn á morgun og út seinnipartinn. Aðstandendur eru pínu stressaðir yfir veðri og færð en vonandi gengur allt vel hjá þeim.
Mikið er ég annars fegin að daginn skuli vera farið lengja aftur!
miðvikudagur, 19. desember 2007
Ég hef örugglega áður bloggað um tilviljanir
Annars er ég að reyna að standa mig í stykkinu þessa dagana sem móðir skólabarns en það gengur misvel. Gærkvöldið fór í að prenta út jólakort handa rúmlega 50 bekkjarfélögum Ísaks og ég var barasta nokkuð ánægð með að hann skyldi geta mætt með kortin á réttum tíma í skólann. Á morgun eru svo stofujól hjá honum og þá er ætlast til þess að öll börnin mæti með smákökur en kakó fá þau í skólanum. Hér er búið að baka tvær smákökusortir og allar kökurnar eru því miður búnar... Mér tókst að redda málinu með því að stinga uppá að hann færi með laufabrauð með sér í skólann - og keypti líka einn poka af piparkökum sem hann fer með líka. Ég held nú hreinlega að þetta sé í fyrsta skipti sem svona illa er statt í smákökumálum heimilisins svo stuttu fyrir jól. Þannig að nú er víst mál til komið að bretta uppá ermarnar og baka!
laugardagur, 15. desember 2007
Eftir að hafa verið strandaglópar í hálfan sólarhring
föstudagur, 14. desember 2007
Brjálað veður fyrir sunnan
Get ekki sofnað...
Ísak hefur verið veikur, er búinn að vera heima í þrjá daga og verður heima á morgun líka. Hann er nú voða duglegur að hafa ofan af fyrir sér og hefur meðal annars horft á ógrynni af James Bond myndum sem til eru hér í húsinu. Sem er eins gott því ekki er mamma hans mikið heima. Ég reyndi að gera eins og þessir foreldrar sem tala um að það séu gæðin en ekki magn samverustundanna sem skipta máli, og bakaði smákökur með honum í fyrrakvöld. Er samt með smá samviskubit yfir því að vera svona lítið heima þessa dagana - en pabbi hans ætlar að taka sér frí eftir hádegi á morgun - og ég á frí á laugardaginn, þannig að þetta stendur allt til bóta.
sunnudagur, 9. desember 2007
Vinna, vinna, vinna...
Fína hugsunin mín um að vera búin að gera sem mest í nóvember var nákvæmlega það, fín hugsun. Enn á eftir að kaupa eitthvað af jólagjöfum og við erum bara búin að baka eina sort af smákökum. Sem er eiginlega kostur því mér finnast smákökur svo hrikalega góðar, sérstaklega mömmukossar, og þegar freistingin er komin nálægt mér þá er erfitt að standast hana. Við erum t.d. með sælgæti núna í búðinni fyrir viðskiptavinina og ég stelst alltaf í það annað slagið, þrátt fyrir ásetning um annað. Reyndar borða ekki jafn mikið og ég myndi gera ef ég væri ekki í nammi"bindindi". Svo er ég búin að finna nokkrar hollar smákökuuppskriftir og á örugglega eftir að prófa einhverjar þeirra.
fimmtudagur, 6. desember 2007
Vá, hvað er stutt til jóla
Nanna, dóttir Fríðu bloggara og maraþonhlaupara, bjargaði mér með því að vinna fyrir mig svo ég komst í afmælið. Mér hefði þótt leiðinlegt að komast ekki því mér var boðið í 1 árs afmælið í fyrra en þá var ég að vinna og gat ekki mætt.
En nú er best að fara að elda grjónagrautinn sem á að vera í kvöldmatinn!
miðvikudagur, 5. desember 2007
Enn komin hláka
Annars finnst mér alveg hrikalega erfitt að vakna á morgnana núna, verð sjálfsagt að vera duglegri að sitja í dagsljósslampanum mínum - eða fara fyrr að sofa á kvöldin...
sunnudagur, 2. desember 2007
Annað blogg fyrir Hrefnu ...
- Við Valur og Ísak skárum út + bökuðum laufabrauð ásamt Sunnu, Kidda og börnum á föstudagseftirmiðdag, og gekk það bæði hratt og vel fyrir sig. Á sama tíma var Andri að skemmta sér á árshátíð MA.
- Svo hjálpuðumst við Valur að við að þvo glugga í eldhúsi og stofu á laugardaginn og hengdum upp jólagardínur og jólaljós í gluggana í stofunni. Mér leið strax betur að því loknu og fannst ég ekki jafn léleg húsmóðir og áður.
- Það hefur verið nóg að gera í vinnunni að undanförnu og greinilegt að fleiri leggja leið sína í Potta og prik heldur en fyrir ári síðan, sem er afar jákvætt og skemmtilegt.
- Leiðinda kvefpesti hefur verið að angra heimilisfólk hér undanfarið, fyrst var ég veik, svo Valur og loks Andri. Svo hafa magaverkir verið að herja á karlpeninginn en ég hef sloppið við þá, sem betur fer.
- Kettirnir hafa sloppið við veikindi og sofa stóran hluta sólarhringsins, eins og þeirra er vani á þessum árstíma.
- Ég er að reyna að bæta þolið með því að synda spretti í morgunsundinu, með þeim árangri að tveir karlmenn hafa talað um það að þeir vildu ekki etja kappi við mig í lauginni (hehe) því ég fari svo hratt... Ég segi þeim að ég sé bara svona hraðskreið með blöðkurnar en finnst hólið ekki slæmt ;-)
þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Jólablað Fréttablaðsins
sunnudagur, 25. nóvember 2007
Gott að kúra
Hér sést hvar köttunum finnst allra best að kúra, í kjöltunni á mér og ef það er ekki pláss þar, þá ofan á maganum á mér (eða hvar sem hægt er að troða sér). Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að mér verður a.m.k. ekki kalt á meðan ég er með svona hlýja ábreiðu :-)
fimmtudagur, 22. nóvember 2007
Þrátt fyrir fögur fyrirheit
þriðjudagur, 20. nóvember 2007
Valur var svo elskulegur
fimmtudagur, 15. nóvember 2007
Nennti ekki að vera lengur veik
Og akkúrat núna er ég að hugsa um það hversu heppin ég er að vinna hjá sjálfri mér, fyrir utan að hafa ekki einhvern brjálaðan yfirmann að tuða í mér þá get ég leyft mér að blogga um vinnuna ;-) Þrátt fyrir að ég telji mig frekar auðvelda í samstarfi þá þykir mér ekki verra að þurfa ekki að taka við fyrirskipunum frá öðrum, það fór alveg skelfilega í taugarnar á mér þann stutta tíma sem ég starfaði sem sjúkraliði hvernig sumar hjúkkurnar fengu kikk út úr því að skipa sjúkraliðunum fyrir verkum á sem allra leiðinlegasta máta. En það er nú eins og alltaf misjafn sauður í mörgu fé. En alla vega þá hentar það mér mjög vel að vinna bara í samstarfi við aðra, þar sem báðir eru jafnir.
miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Skárri af beinverkjunum en ennþá slöpp
Ég var nógu veik í gær til að sofa en núna hengslast ég bara um húsið, of hress til að sofa en of slöpp til að gera nokkurn skapaðan hlut af viti. Hef undanfarinn klukkutíma eða svo verið að lesa blogg nokkurra krabbameinsveikra kvenna (ekki spyrja mig af hverju) og það sem situr eftir í huganum, fyrir utan ótrúlegan dugnað þeirra og hugrekki, er fjárhagsstaða krabbameinssjúklinga. Fólk sem er að berjast fyrir lífi sínu ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af peningamálum, hið sama gildir um aðra langveika og aðstandendur þeirra. Hér þurfum við Íslendingar standa okkur betur!
þriðjudagur, 13. nóvember 2007
Pestargemlingur
Hún á afmæli í dag...
hún á afmæli hún Hrefna
hún er 24ra ára í dag
Til hamingju með daginn elsku Hrefna mín frá okkur öllum hér heima á Fróni :-)
mánudagur, 12. nóvember 2007
Ertu 40?
sunnudagur, 11. nóvember 2007
Hrefna hér kemur blogg ;-)
Helstu fréttir dagsins eru þær að ég er fallin! Það er að segja, ég er búin að borða bæði sykur og hvítt hveiti þrjá daga í röð...
Byrjaði á föstudaginn í erfidrykkju Petreu frænku minnar, þar sem ég stóðst þó Hnallþórurnar en fékk mér tvær sneiðar af smurbrauðstertum (úr hvítu brauði) í staðinn. Seinna um daginn fór ég í konuklúbb þar sem boðið var uppá margar gerðir af "bruchettum" úr hvítu snittubrauði og súkkulaðiköku. Skemmst er frá því að segja að ég fékk mér hvoru tveggja. Og til að kóróna daginn þann var pítsa frá Greifanum í kvöldmat og ég fékk mér að sjálfsögðu líka pítsu. Jamm, það held ég nú. Í gær stóð ég mig nú bara nokkuð vel framan af en a.m.k. ein sneið af Djöflatertu rataði á diskinn minn í kaffinu og þrjú After eight súkkulaði enduðu ævina í mínum maga um kvöldið. Þá var nákvæmlega engin mótstaða af minni hálfu, ég vorkenndi sjálfri mér fyrir gríðarlegt ofnæmiskast sem ég hafði fengið fyrr um daginn (var að klóra hundi og fékk þvílíkan allsherjar kláða í kjölfarið) og einnig var skrokkurinn á mér sérlega slæmur (vegna vefjagigtarverkja), þannig að um hreint og tært huggunarát var að ræða. Og til að kóróna þetta allt saman hef ég innbyrt tvær sneiðar af Djöflatertu í dag og keypti (og borðaði) þar að auki eitt súkkulaðistykki þegar ég fór í Bónus áðan...
Þrátt fyrir þessa hrösun hef ég ákveðið að vera góð við sjálfa mig (þ.e. ekki hugsa neitt um það að mig skorti sjálfsstjórn o.s.frv.) heldur hugsa bara að á morgun sé nýr dagur og þá geti ég haldið áfram að borða hollan mat. Það finnst mér ansi flott hjá mér :-)
þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Eftir að hafa verið á þeytingi í tvo daga
mánudagur, 5. nóvember 2007
Beðið eftir flugi
miðvikudagur, 31. október 2007
Það ætlar að ganga erfiðlega að ná hinum fullkomna espresso
þriðjudagur, 30. október 2007
Það biðu örugglega 50 bílar
Var bara alein í sundlauginni um tíma í morgun
mánudagur, 29. október 2007
Haust í Berlín - Vetur á Akureyri
þriðjudagur, 23. október 2007
Fjör, fjör og aftur fjör
mánudagur, 22. október 2007
Litadýrð á himni
Það má eiginlega segja að himininn hafi staðið í ljósum logum seinni part laugardagsins. Samspil vindsins, skýjanna og sólarinnar sem var að setjast bjó til hinar ótrúlegustu myndir sem breyttust í sífellu. Hér er aðeins eitt sýnishorn. Líklega hefði ég þurft að vera með þrífót til að geta gert þessu almennileg skil.
laugardagur, 20. október 2007
Þegar unglingurinn var spurður
fimmtudagur, 18. október 2007
Er hálf "lost" eitthvað í dag
Það styttist líka í Berlínarferðina, ein vika til stefnu. Það verður gaman að bregða sér út fyrir landsteinana enda erum við að fara með skemmtilegu fólki. Bara stór galli að búa úti á landi og þurfa alltaf að bæta ferðum til og frá Reykjavík við ferðalagið.
þriðjudagur, 16. október 2007
Þá er sýningin afstaðin og allt gekk vel
Annars er hálf leiðinlegt veður, kalt og snjóföl á jörðu í morgun með tilheyrandi hálku. Tvær konur í sundi voru að tala um það að Akureyringar kynnu þó allavega að keyra í hálku (þ.e. aka hægt) og höfðu greinilega samanburðu úr höfuðborginni. Ég sem sagt syndi enn á morgnana en minna hefur farið fyrir þeim áætlunum mínum að fara líka í ræktina. Veit ekki alveg hvað ég á að gera í því máli.
Gengur hins vegar bara furðu vel að sleppa sykri og hvítu hveiti úr mataræðinu og er duglegri að borða ávexti og grænmeti. Það kemur reyndar ennþá yfir mig alveg skelfileg löngun í sykur þegar ég er þreytt eða stressuð en í gær uppgötvaði ég þurrkaðar apríkósur sem eru mjög sætar á bragðið en hafa bara blóðsykurstuðul uppá 43 (minnir mig) og hækkar því ekki blóðsykurinn hratt eins og hvítur sykur gerir.
föstudagur, 12. október 2007
Sykurfíknin lætur á sér kræla
Matur-inn 2007 um helgina
laugardagur, 6. október 2007
Vel heppnuð afmælisveisla
miðvikudagur, 3. október 2007
Reynitrén eru svo falleg á þessum tíma árs,
eru reyndar orðin enn fallegri síðan þessi mynd var tekin, en hér voru jú berin í aðalhlutverki. Það er búið að vera yndislegt haustveður hér í dag og í gær, alveg eins og maður vill hafa það.
Annars er ekki mikið að frétta... ég keypti mér nýjan sundbol um daginn sem reyndist of stuttur á mig þegar til kom - spælandi .... og svo er afmælisveisla hjá Pottum og prikum á laugardaginn. Vonandi kíkja sem flestir í kaffi til okkar, verðum með opið frá 11-16 :-)
mánudagur, 1. október 2007
Pottar og prik 1. árs í dag
sunnudagur, 30. september 2007
Hvað á maður (kona) að gera þegar letin er að drepa hana?
Eða einfaldlega að láta eftir sér að vera löt?
laugardagur, 29. september 2007
Litadýrð í bakgarðinum
Náttúran breytir ört um svip þessa dagana og það eru eiginlega forréttindi að fá að fylgjast með þessum umbreytingum. Ég tók þessa mynd áður en ég fór í vinnuna í morgun og ætlaði svo að fara eftir vinnu og taka fleiri haustlitamyndir. Þessa þrjá tíma á meðan ég var í vinnunni var glampandi sól og hið fallegasta veður en það stóð á endum að þegar ég var komin í bílinn og ætlaði í myndatökuferð þá dró ský fyrir sólu...
fimmtudagur, 27. september 2007
Súlur með hvíta hettu
Já svona litu Súlur út á þriðjudagsmorguninn. Hvíti liturinn er nánast horfinn aftur en það er gaman að fylgjast með litabreytingum á haustin. Ef vel er að gáð má líka sjá að lyngið í brekkunum fyrir neðan Fálkafell er komið í haustlitina.
Er ekki frá því að orkan sé mun stöðugri yfir daginn
sunnudagur, 23. september 2007
Nýi uppáhaldsstaðurinn hennar Birtu
er þvottakarfa sem áður hýsti dökkan þvott. Lokið brotnaði af henni fyrir langa löngu og ég saknaði þess svo sem ekkert. Hins vegar skildi ég ekkert í því þegar við komum heim frá Spáni og ég var að setja í þvottavél, hvað það var rosalega mikið af kattarhárum í óhreina þvottinum. Það tók mig langan tíma að hreinsa það mesta úr með límrúllu áður en ég gat sett í vélina. En ég komst fljótlega að því hvernig í pottinn var búið. Kannski hefur Birta fundið til notalegrar öryggistilfinningar að liggja ofan á fötum með lyktinni af okkur? Hver svo sem ástæðan er þá er hún svo að segja "flutt" ofan í körfuna, þrátt fyrir að það hljóti að vera vissum erfiðleikum háð að komast ofan í hana því hún er frekar há og mjó og ég er búin að taka öll föt uppúr henni nema vinnubuxurnar hans Andra frá því í sumar. Hrefna sagðist hafa séð í dýraþætti í danska sjónvarpinu að kettir hefðu meiri þörf fyrir að upplifa öryggi þegar þeir yrðu gamlir, og Birta er nú að verða átta ára. Þannig að nú vantar mig nýja þvottakörfu...
fimmtudagur, 20. september 2007
Kvennaklúbbur á döfinni
Í gær fékk ég nefnilega þá verstu tannpínu sem ég hef fengið um árabil. Það er einhver tönn að stríða mér, tönnin sjálf er samt ekki skemmd heldur telur tannlæknirinn að rótin sé hugsanlega dauð - ef ég hef skilið hann rétt - en ég skil ekki hvernig dauð rót getur framkallað svona mikla verki. Ég var stödd í heimsókn hjá vinkonu minni þegar fjörið byrjaði en reyndi að láta á engu bera, alveg þar til það var ekki hægt lengur því mér leið eins og hægri hluti kjálkans stæði í ljósum logum. Fór heim og tók tvær verkjatöflur, þar af eina parkódín, og hélt að það hlyti að slá á verkinn. Ekkert gerðist og mér leið bara verr ef hægt var. Tók aðra parkódín og svo enn aðra og var áfram að steindrepast í munninum. Datt í hug að hringja í tannlækninn og biðja hann hreinlega að deyfa mig en hann var þá á leið á fund og gaf mér í staðinn tíma í í dag. Þá settist ég inn í stofu og hlustaði á slökunartónlist og reyndi að slaka á og smám saman minnkaði verkurinn og áhrif allra parkódíntaflanna komu fram. En þetta verkjakast hafði þá staðið í þrjá og hálfan tíma og ég var gjörsamlega búin á því á eftir. Ekki get ég hugsað mér aðra eins verki aftur í bráð, svo ég neyðist víst til að taka boði tannlæknisins um að rótardrepa tönnina. Brr, fæ hroll við tilhugsunina.
sunnudagur, 16. september 2007
Haust-tiltekt
þriðjudagur, 11. september 2007
Komin heim frá Spáníá
og eins og sjá má á þessari mynd þá áttum við virkilega góðar stundir í Barcelona. Veðrið var yndislegt, sól og 22-30 stiga hiti og við bara slöppuðum mest af og höfðum það gott. Kíktum aðeins á Mírósafnið og kirkjuna hans Gaudís, löbbuðum einu sinni niður "Römbluna", heimsóttum heimavöll Barca fótboltaliðsins og rúntuðum pínu í túristastrætó en létum annars hefðbundnar túristaslóðir eiga sig. Vorum mikið á ströndinni sem var ca. 200 metra frá íbúðinni sem við leigðum og þar voru nánast bara Spánverjar fyrir utan okkur. Sem sagt, hið besta frí og við hefðum gjarna viljað vera lengur... :-)
þriðjudagur, 28. ágúst 2007
Það styttist í Barcelonaferðina
mánudagur, 27. ágúst 2007
Nokkuð skemmtilegt gerðist í vinnunni í dag
sunnudagur, 26. ágúst 2007
Gaman þegar vel gengur
En hvernig sem úrslitin verða þá eru strákarnir þegar sigurvegarar í mínum huga því þeir unnu Völsung í gær (sem þeir höfðu áður tapað fyrir) og í dag kepptu þeir við Fylki (sem þeir töpuðu fyrir 1-5 á föstudaginn) og börðust eins og ljón allan tímann og voru ráðandi aðilinn í leiknum sem endaði með jafntefli. Það var mikil gleði ríkjandi á KA vellinum þegar ljóst var að strákarnir voru komnir í úrslit, kátir strákar og stoltir foreldrar sem samglöddust afkvæmunum. Þjálfararnir sjá nú fram á að þurfa að snoða sig - höfðu víst heitið því ef svona færi ;-)
En það er svo merkilegt með það að þegar við pöntuðum ferðina út héldum við að hún myndi ekki rekast á neitt nema skólann hjá Ísak en eins og staðan er núna þá missir Andri af æfingabúðum á Selfossi í handboltanum og Ísak missir hugsanlega af því að leika með liðinu sínu. Nú er bara að vona að æfingabúðunum verði frestað og fótboltaleikurinn verði snemma á laugardeginum (flugið til Barcelona fer kl. 16.40) ...
laugardagur, 25. ágúst 2007
Byrjaði daginn á því að liggja í leti
Annars hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína seinnipartinn, við ætluðum að kíkja á dagskrá Akureyrarvöku, sem við og gerðum. Þá var að vísu hætt að rigna en ég dúðaði mig í flíspeysu og regnjakka þrátt fyrir það. Við röltum um miðbæinn, frekar stefulaust og kíktum inn þar sem okkur datt í hug. Það var svo sem ekkert sérstakt sem vakti athygli mína öðru fremur og vinkonan varð fljótt þreytt því hún er með brjósklos í bakinu. Þannig að við fórum heim til hennar og spjölluðum yfir kaffi/tebolla í góða stund.
Ég átti samt eftir að fá meiri félagsskap því um kvöldmatarleytið hringdi síminn og kona spurði mig hvort ég vissi hver hún væri. Mér heyrðist þetta vera Didda, mamma stráks í bekknum hans Ísaks, en ekki var það nú rétt hjá mér. Kannski ekki skrýtið að ég skyldi ekki þekkja röddina því þetta var hún Helga (sem bjó í Tromsö um leið og við en býr nú á Sauðárkróki) og ég hef ekki hitt hana nema ca. þrisvar síðustu 12 árin. En hún var sem sagt stödd á Akureyri og kíkti í heimsókn. Það var virkilega gaman að fá hana og við röbbuðum lengi saman. Þegar við bjuggum í Tromsö þá komu hinir Íslendingarnir í stað stórfjölskyldunnar og samskiptin voru mikil en rofnuðu því miður eftir að heim kom. En þrátt fyrir að langur tími líði á milli þá er alltaf jafn gaman að hittast og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Ef einhvern skyldi undra að ég hef hvergi minnst á eiginmanninn í tengslum við þessa upptalningu á viðburðum dagsins þá er það vegna þess að hann er farinn í síðustu veiðiferð sumarsins og verður fram á mánudag.
Hér með læt ég þessu maraþonbloggi lokið og sleppi því að birta nokkrar ljósmyndir í þetta sinn :-)
fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Ég fór í einn eina göngu/ljósmyndaferðina í gær
og prófaði aðra linsu en ég hef verið með. Átti í smá erfiðleikum með að nota hana til að byrja með en svo gekk það smám saman betur. Í þetta sinn fór ég uppá Glerárdal og gekk aðeins uppí brekkurnar, svona eins og ég væri að fara að ganga á Súlur. Þar var hellingur af aðalbláberjum og ég stóðst ekki mátið og tíndi í munninn en hafði því miður ekkert ílát undir þau. Spurning að drífa sig aftur fljótlega áður en þau klárast öll. Þegar ég var að fara var kona komin í berjamó.
miðvikudagur, 22. ágúst 2007
Sit hér og færi bókhald
Handan götunnar hamast iðnaðarmenn við að reisa nýtt menningarhús okkar Akureyringa, með tilheyrand hávaða og látum. Hávaðinn er mismikill en ég tók eftir því áðan þegar allt hljóðnaði (þeir hafa farið í hádegismat) hvað hann er samt alltaf í bakgrunninum. Svolítið lýjandi stundum.
Annars er Hrefna að fljúga út til Danmerkur í dag og er smá taugatitringur í gangi vegna þess. Það er pínu erfitt að yfirgefa fjölskylduna og föðurlandið en það gengur nú örugglega fljótt yfir þegar hún er komin út og byrjuð í skólanum aftur.
mánudagur, 20. ágúst 2007
Vinstra megin - ekki hægra megin
sunnudagur, 19. ágúst 2007
Sumarið senn á enda...
Valur hefur verið á fullu við að prófa nýjar uppskriftir í sumar og í kvöld fáum við mexíkóskar kjötbollur. Það er alltaf gaman að prófa nýja rétti og hann hefur auglýst eftir uppástungum frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Kjötbollurnar voru sem sagt eiginlega mín hugmynd, Hrefna er búin að koma með uppskrift að afrískum kjúklingarétti, Valur sjálfur hefur komið með marga nýja rétti en Andri og Ísak eiga ennþá eftir að leggja sitt af mörkum. Í tilefni af þessum endurnýjaða matreiðsluáhuga setti ég inn nokkra tengla á matarvefi hér til hægri. Kannski maður finni eitthvað sniðugt þar?
föstudagur, 17. ágúst 2007
Hef verið dugleg að fara út að ganga undanfarið
Annars er ég í vinnunni, rólegt akkúrat í augnablikinu, en búin að hafa nóg að gera í dag og í gær við að selja Magnaða moppuskaftið. Við auglýstum það í síðustu Extra sjónvarpsdagskrá og fengum þvílíku viðbrögðin. Aldeilis ánægjulegt. En nú er best að hætta þessu rausi og fara að vinna.
þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Hrafnaflug
Ég fór út að ganga í dag á meðan Valur var að elda matinn (ég er sem sagt alveg eins og kallarnir í gamla daga sem mættu bara á svæðið þegar maturinn var tilbúinn). Langaði að komast út í náttúruna og ákvað að ganga upp í Fálkafell. Fór ekki beinustu leið heldur vappaði á milli þúfna og tók myndir af ýmsu sem fyrir augu bar. Reyndar tókst mér að gleyma húfu og vettlingum heima en var svo heppin að hitta konu sem ég vann með í Heimahjúkrun fyrir tuttugu árum síðan og hún lánaði mér eyrnaband og bjargaði mér alveg. Það var nefnilega ansi napurt í norðanáttinni því hitinn var ekki nema 8 gráður. En sem sagt, þarna átti ég bara góða stund með sjálfri mér og myndavélinni (sem var nú að stríða mér, fæstar myndirnar voru í fókus, það sá ég þegar heim var komið).
sunnudagur, 12. ágúst 2007
Afrekaði að sofa til klukkan ellefu
laugardagur, 11. ágúst 2007
Vinna, Króksmót og lengri leiðin heim
Ísak var glaður að sjá mömmu sína og ég horfði á tvo leiki og þeir þá unnu báða. Eru efstir í sínum riðli eftir daginn. Svo gerði ég tilraun til að heimsækja konu sem ég þekki á Króknum en hún var ekki heima og þá lagði ég í hann aftur til Akureyrar. Datt í hug að það gæti verið gaman að keyra aðra leið heim og fór sem sagt Fljótin og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Það var rigning og súld á leiðinni en samt svakalega fallegt um að litast og ég saknaði þess að hafa ekki myndavélina meðferðis. Á Ólafsfirði gerði ég aðra misheppnaða tilraun til að heimsækja vinafólk en þegar það tókst ekki hélt ég áfram og í gegnum göngin. Þar var brjáluð traffík og ég komst að því að einbreið göng virka ekkert rosalega vel í mikilli umferð, var á taugum alla leið í gegn. Á Dalvík var allt troðið af fólki og bílum enda Fiskidagurinnn mikil nýafstaðinn og ég sniglaðist þar í gegn. Svo gekk nú umferðin betur til Akureyrar og heim er ég kommin í tómt hús, tja ekki alveg tómt reyndar, kettirnir fögnuðum mér eins og þeim einum er lagið :-)
þriðjudagur, 7. ágúst 2007
Svaf frameftir í morgun
Þessi mynd var tekin við upphaf gönguferðarinnar í gær, að bænum Hrauni í Öxnadal. Spurning hvort það mætti ekki snyrta grasið aðeins?
mánudagur, 6. ágúst 2007
Lét mig hafa það í dag
Annað sem kom okkur á óvart var magn mýflugu á leiðinni og meira að segja Valur sem er öllu vanur í þeim efnum kommenteraði flugurnar oftar en einu sinni. En hann stóð sig eins og hetja að bíða eftir "gömlu" konunni sinni og sem sagt, við komumst alla leið. Fórum reyndar ekki alveg niður að vatninu, þar var hópur fólks og vð vorum svo mikilir félagsskítar að við nenntum ekki að hitta það.
Það varð úr að við gengum niður að Hálsi (mun styttri leið, tæpur kílómetri) og fengum okkur kvöldverð á veitingastaðnum Halastjörnunni. Í og með vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að ganga eitt skref til viðbótar en einnig vegna þess að Valur hefur í allt sumar hugsað sér gott til glóðarinnar að borða þarna. Það var vel tekið á móti okkur, jafnvel þó við útskýrðum að við værum peningalaus, bíllinn með peningaveskinu væri á næsta bæ, og við fengum afskaplega ljúffengan mat. Eftir matinn skutlaði veitingamaðurinn Val yfir að Hrauni á meðan ég beið og drakk te. Svo gerðum við upp skuldir okkar og ókum heim í kvöldsólinni.
Á Hjalteyri
Við Valur fórum í ljósmyndaferð út á Hjalteyri í gærdag. Hann var með þrífót og gerði alls kyns tilraunir inni í yfirgefnu verksmiðjuhúsi en ég var á ferðinni úti við þar sem ég tók m.a. þessa mynd. Það var algjör tilviljun að rauðklædd kona birtist hjá vitanum einmitt þegar ég var að taka myndir af honum, en rauði jakkinn hennar tónar flott við rauða litinn á vitanum :-)
föstudagur, 3. ágúst 2007
Gaman í vinnunni
Tíminn flýgur víst ekki alveg svona hratt...
Annars var afmæliskaffi í gærkvöldi og við steingleymdum að taka myndir. Þetta er náttúrulega engin frammistaða! En þar voru bóndanum færðar ýmsar gjafir og má segja að hæst hafi borið ullarsokkar og gúmmískór sem Kiddi og Sunna færðu honum :-)
Og svo ég fari nú úr einu í annað þá er ég að reyna að herða mig upp í að taka morgunskammtinn af lýsi. Ég er tiltölulega nýbyrjuð á því, tók reyndar fyrst fiskiolíu frá sama fyrirtæki en ætlaði svo að færa mig yfir í lýsið. Hryllir bara svo mikið við því að mér verður eiginlega hálf óglatt bara að hugsa um að taka það. Spurning að færa sig aftur yfir í fiskiolíuna, hún er ekki alveg jafn slæm á bragðið.
fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann Valur,
hann á afmæli í dag.
Til hamingju með afmælið minn kæri :-)
Hér sést eiginmaðurinn á þeim stað sem hann kann best við sig, þ.e. úti í náttúrunni. Að vísu ekki við veiðiá, heldur er myndin tekin rétt hjá Hraunhafnartangavita á Melrakkasléttu, í dagsferð þangað í ágúst 2005.
Já, og svo eigum við hjónin víst 18 ára brúðkaupsafmæli í dag, það sem tíminn flýgur!
þriðjudagur, 31. júlí 2007
Fórum sem sagt suður
Annars gerðist það markvert í dag að Sunnu tókst að fá bæjarstarfsmenn ofan af þeirri hugmynd að planta ruslatunnu beint fyrir framan búðargluggann hjá okkur. Þeir voru búnir að rífa upp hellur og byrjaðir að grafa fyrir tunnunni en mokuðu ofan í aftur og settu hellurnar á sinn stað eftir að Sunna hringdi í yfirmann þeirra hjá bænum. Hann kom og leit á aðstæður og tunnunni var fundinn nýr staður. Flott hjá Sunnu!
föstudagur, 27. júlí 2007
Bara fjör
fimmtudagur, 26. júlí 2007
Ég veit ekki alveg
Ja, nema þá helst kettirnir, Birta lenti í slagsmálum, var bitin í vangann og fékk sýkingu í sárið. Og Máni fékk ofnæmiskast eftir árlega sprautu og ældi "non stop" í sólarhring. Það var þó skárra en í fyrra, þá missti hann þvag og hægðir og fór alveg í mínus. Þá var það ferðin til dýralæknisins sem gerði hann svona hræddan að hann fékk bara hálfgert taugaáfall. Núna fékk ég bóluefni með heim og Valur sprautaði hann, nokkuð sem gekk svo vel að Máni malaði bara á meðan hann var sprautaður. En svo við víkjum aftur að Birtu þá uppgötvaðist hjá dýralækninum að í hana vantaði neðri vígtönnina og til að kóróna það, þá hefur hún einhvern tímann fótbrotnað án þess að við höfum tekið eftir því. Ég man reyndar eftir því að hún var svolítið hölt á tímabili, en það var nú ekki nógu mikið til þess að við kveiktum á perunni með fótbrot. Elfa sagði að við skyldum ekki hafa móral yfir því (ég fór alveg í steik yfir þessu) því það hefði ekkert verið hægt að gera og hún hefði jafnvel ráðlagt okkur að láta lóga henni ef við hefðum komið með Birtu til hennar fótbrotna. En henni gengur ágætlega með sinn brotna fót, það er aðallega minnkuð hreyfigeta sem háir henni örlítið.
Við fjölskyldan (fyrir utan háskólanemann) eigum pantaða ferð til Barcelona 1. september, í eina viku, og ég var að panta gistingu í dag. Verð að viðurkenna að ég hlakka heilmikið til :-)
sunnudagur, 15. júlí 2007
Skítadjobb
P.S. Valur hringdi í mig í dag úr veiðinni. NOkkuð sem út af fyrir sig eru þónokkur tíðindi því hann hefur það ekki fyrir sið að hringja heim úr veiðiferðum heldur notar þær alfarið til að afslöppunar og að kúpla af frá þessu daglega streði. Sem er hið besta mál af minni hálfu, ég bara samgleðst honum að geta komist burt í nokkra daga án þess að þurfa að hafa áhyggjur af heimilisfólkinu á meðan. Allavega, hann hringdi sem sagt til að segja mér að hann hefði veitt 8 punda urriða, þann stærsta sem veiðst hefur í ánni í sumar. Gaman að því!
Njóli við sjóinn
Ég fór út í gærkvöldi í þeim tilgangi að taka myndir. Ók um bæinn en gekk samt hálf illa að finna myndefni. Vildi nefnilega reyna að hafa kvöldsólina sem lýsingu og hana var bara ekki alls staðar að finna. En hér varpar hún ljóma á þá gróðurtegund sem njóli nefnist, enda skín sólin jafnt á háa sem lága ;-)
föstudagur, 13. júlí 2007
Annað hvort í ökkla eða eyra
Jamm og jæja, vinna á morgun, annars er ekkert planað. Úti er lágskýjað og rigningarsuddi á köflum, ekki sérlega spennandi veður. Spurning að fara bara að sofa...
Meiri ferðalög...
Við fórum af stað klukkan tvö á mánudaginn (mér að kenna að við fórum svona seint af stað, ég bara get ekki verið fljót að taka mig til í ferðalag). Vegurinn var góður framan af en þegar nálgaðist Hveradali var hann orðinn frekar slæmur og var mjög slæmur megnið af leiðinni eftir það. Þvottabretti og grófur. Samt rosalega gaman að aka þessa leið! Við vorum komnar niður að Gullfossi um níuleytið um kvöldið og fengum okkur að borða á Hótel Gullfossi. Gistum um nóttina að Efsta Dal.
Daginn eftir fórum við að skoða Geysi (hm, eða Strokk öllu heldur) og fórum svo í sund í Reykholti þar rétt hjá. Borðuðum nesti fyrir utan sundlaugina en skelltum okkur svo til Stokkseyrar þar sem við fórum niður í fjöru, Ísak fór að vaða en ég steinsofnaði í smá stund úti í guðsgrænni náttúrunni. Þá voru allir orðnir svangir og við ókum á Eyrarbakka og fengum okkur að borða á veitingastaðnum Rauða húsini. Þar fengu strákarnir sér pítsu en við Anna borðuðum fiskisúpu. Eftir matinn ókum við svo meðfram sjónum alla leið til Keflavíkur og gistum hjá mömmu og Ásgrími um nóttina.
Við Ísak keyrðum svo norður á miðvikudaginn, lögðum af stað frá Keflavík kl. 11.30 og vorum komin til Akureyrar kl.17.10. Stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur að borða en ókum annars nokkurn veginn í einni lotu norður því Ísak þurfti að mæta í afmæli klukkan fimm.
Annars er það bara "business as usual". Valur dreif sig í eina af veiðiferðum sumarsins í dag (ég sleppti því nú víst að skrifa um það en hann fór til Rússlands að veiða um daginn, var í viku) og verður fram á mánudag.
Það gerðist svolítið skemmtilegt í vinnunni í dag. Beta baun (bloggari) birtist allt í einu og verslaði við mig :-) Það er svolítið skrítið að sjá fólk svona "life" eftir að hafa lesið bloggið en aðallega mjög gaman.
fimmtudagur, 5. júlí 2007
Brjálað að gera og enginn tími til að blogga
- Er byrjuð að vinna aftur eftir 2ja vikna sumarfríið - en verð reyndar í fríi á morgun, mánudag og þriðjudag.
- Anna systir og Sigurður systursonur eru í heimsókn hjá okkur núna. Því miður getum við afskaplega lítið sinnt gestunum því:
- Enn eitt mótið (sem hét áður Essomót en heitir núna N1 mótið) er í gangi og Ísak og foreldrarnir frekar upptekin öll sömul í sambandi við það.
- Valur fór klukkan sex í morgun og aðstoðaði við að bera fram morgunmat handa tæplega 900 manns í KA húsinu, ég tók við af honum klukkan átta og var til tíu.
- Ísak er búinn að spila þrjá leiki í dag og einn í gær. Þeir hafa unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli svo það gengur aldeilis vel hjá þeim. Hann skoraði þrjú mörk í fyrsta leiknum og hér sjá mynd af fótboltadrengnum eftir það afrek :-)
sunnudagur, 24. júní 2007
Ferðasagan já...
Við lögðum af stað á fimmtudagsmorgni og ókum sem leið lá vestur í Hrútafjörð. Þar fórum við yfir Laxárdalsheiði en gerðum svo stutt stopp í Búðardal. Ókum smá hring í plássinu og enduðum niðru í fjöru þar sem ég gerði smá tilraunir til að taka "listrænar" ljósmyndir. Þessi mynd af fuglunum átti hins vegar ekki að vera listræn...
Áfram héldum við og stoppuðum næst í Bjarkarlundi þar sem við borðuðum nýveidda bleikju, eldaða af ítölskum kokki staðarins. Eftir matinn fékk Valur sér kaffi og ég fékk te úr þeim stærsta bolla/könnu sem ég hef nokkru sinni drukkið úr. Svo héldum við áfram að þræða firði og heiðar og alls staðar var sérlega fallegt. Við stoppuðum hvað eftir annað til að taka myndir og teygja úr okkur. Valur er mikill áhugamaður um fossa og sést hér fyrir framan eitt stykki foss sem ég get ómögulega munað nafnið á núna í augnablikinu.
Við ókum yfir Dynjandisheiði
og þar var útsýnið ekki amalegt.
Svo skoðuðum við fossinn Dynjanda og teknar voru myndir...
Til Þingeyrar komum við um áttaleytið og vorum þá búin að vera á ferðinni í tíu tíma.
Leituðum að húsinu sem Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg konan hans eru nýbúin að festa kaup á og fundum það.
Hins vegar hafði gestgjöfunum seinkað og við þurftum að bíða aðeins eftir þeim. Eftir að hafa rúntað um staðinn lögðum við bílnum niðri í fjöru og biðum hin rólegustu. Svo birtust þau hjón og Guðbjörg eldaði dýrindis mat handa okkur.
Föstudagur
Eftir morgunmat og sundferð fórum við með Hirti og Guðbjörgu til Ísafjarðar en þar er Guðbjörg fædd og uppalin. Mér fannst gaman að sjá sumarhúsabyggðina fyrir utan bæinn og svo skoðuðum við húsin í Neðstakaupstað
og sjóminjasafnið þar sem þennan loftskeytaklefa var meðal annars að finna.
Við fengum okkur að borða í bakaríi og rúntuðum svo um bæinn og skoðuðum þónokkur af þeim gömlu húsum sem þar er að finna. Mörg þeirra er búið að gera upp og er mikil prýði að þeim. Svo ókum við í gegnum Hnífsdal (þar sem Hjörtur og Guðbjörg kynntust á balli í félagsheimilinu fyrir X mörgum árum síðan). Kirkjugarðurinn í Hnífsdal vakti athygli okkar enda stendur hann á frekar óvenjulegum stað úti við sjóinn.
Áfram héldum við til Bolungarvíkur. Þar skoðuðum við Valur sjóminjasafnið að Ósvör en þar hafa heimamenn reist nýja "gamla" verbúð sem sýnir hvernig þetta var allt í gamla daga. Hér sést Valur við spil sem notað var til að draga sexæringinn upp í fjöru:
Eftir að hafa skoðað Bolungarvík ókum við aftur til Ísafjarðar og þaðan fórum við Valur til Flateyrar en þar var hann að líta fornar slóðir. Hafði einhvern tímann á unglingsárum unnið eitt sumar þar í fiski og að sjálfsögðu var nauðsynlegt að kíkja á "pleisið". Þegar hér var komið sögu voru rigningarskúrar og þungt yfir og hefur það sjálfsagt ekki hjálpað til við skynjun mína á þorpinu. En mér fannst það hálf nöturlegt eitthvað, mikið af húsum í niðurníslu (sbr. þetta hér en þarna bjó Valur á verbúð hérna í den)
og ekki margt að sjá fyrir utan gíðarlegan snjóflóðavarnargarð og minnismerki um fórnarlömb snjóflóðsins sem féll 1995.
Þegar við komum aftur til Þingeyrar var Hjörtur byrjaður að rífa utan af bíslaginu sem svo er kallað en markmiðið hjá þeim er að gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd og í því felst að rífa bíslagið (ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér hvað bíslag er þá þýðir það yfirbyggður inngangur eða eitthvað í þá áttina).
Eftir kvöldmat fórum við svo út að ganga í góða veðrinu.
Laugardagur
Hjörtur og Guðbjörg héldu áfram að rífa bíslagið af húsinu
en við Valur skelltum okkur í sund á Suðureyri við Súgandafjörð. Þangað fannst mér mjög sérstakt að koma, þetta er pínulítið þorp með nánast ekkert undirlendi og gamall flugvöllur kúrir uppi í hlíðinni.
Þar hafði Valur þurft að lenda í sjúkraflugi þegar hann var að leysa héraðslækninn á Patreksfirði af eftir fimmta árið í læknisfræðinni. Skyggnið hafði ekki verið gott og hélt hann að flugmaðurinn væri á leiðinni inn í fjallið hreint og beint en allt gekk það nú vel.
Hér sit ég á bekk við flugvallarendann :-)
Sundlaugin var ágæt þó hún væri svolítið "þreytt" og vorum við eina fólkið í lauginni framan af. Þar var líka heitur pottur og var vatnið í honum vel heitt. Sundlaugarvörðurinn kom svo með kaffi handa okkur, þannig að það væsti ekki um okkur í pottinum. Yfir okkur sveimuðu hrafnar og uppi í hlíðinni fyrir ofan sundlaugina voru kindur á beit. Skemmtilega speisað allt saman einhvern veginn. Eftir sundið vorum við orðin glorhungruð en eini veitingastaðurinn á staðnum var lokaður og bensínsjoppan freistaði ekki, svo við renndum aftur til Ísafjarðar og borðuðum taílenskt skyndifæði. Fórum svo á bókasafnið og sátum dágóða stund inni í þeirri vinalegu byggingu sem áður hýsti sjúkrahúsið og glugguðum í blöð og tímarit.
Á leið til Þingeyrar ókum við út Dýrafjörð og kíktum að Núpi þar sem heljarinnar skólabyggingar standa víst auðar núna. Skoðuðum garðinn Skrúð
þar sem brjálaður þröstur gerði margar atlögur að höfðinu á mér en hann var víst bara að verja hreiðrið sitt. Hef lent í þessu með kríur en ekki þresti. Því miður flaug hann svo hratt að hann náðist ekki á mynd...
Eftir smá pásu heima í húsi drifum við okkur aftur út, í þetta sinn ókum við uppá Sandafell, sem er fjallið fyrir ofan Þingeyri, en þar uppi er endurvarpsstöð og frábært útsýni til allra átta. Þar fengum við ýmis veðursýnishorn, meðal annars var blankalogn og sjóðheitt í smá stund og þá var upplagt að fá sér smá kríublund.
Þegar við komum aftur niður í bæinn var Guðbjörg að klippa fíflablöð til að nota í salat.
Hún er frábær kokkur (eins og Valur en í þetta sinn slapp hann alveg við eldamennskuna) og sérstaklega hugmyndarík þegar kemur að salötum. Vildi að ég hefði þó ekki væri nema smá af hennar hæfileikum í salat-deildinni. Finnst nefnilega salöt svo góð. Eftir matinn fórum við út að ganga, meðal annars niður á bryggju þar sem við hittum mann sem var að koma í land. Hafði hann smíðað bátinn sinn eftir teikningu sem hann fann á netinu og tók það bara einn og hálfan dag.
Sunnudagur
Nú var komið að heimferð og lögðum við í hann um níuleytið til að hafa tímann fyrir okkur. Ákváðum að fara aðra leið heim og fórum Djúpið sem kallað er. Í gegnum Ísafjarðarkaupstað og þaðan til Súðavíkur þar sem við skoðuðum minnismerki um snjóflóðið 1995. Ekki laust við að við yrðum hálf döpur í bragði enda margir sem fórust þarna, alveg eins og á Patreksfirði.
En rétt hjá minnismerkinu var þessi fallega fíflabreiða og minnti á að alltaf birtir til um síðir.
Við sáum eynna Vigur úr fjarlægð
og margt fleira bar fyrir augu, svo sem þennan bílakirkjugarð
sem var við sveitabæ í ónefndum firði (þessir firðir renna allir saman í höfðinu á mér).
Síðasta myndin var tekin þar sem við borðuðum nestið okkar, áður en farið var yfir Steingrímsfjarðarheiði.
En svo brunuðum við áfram, yfir heiðina og framhjá Hólmavík en stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur í gogginn. Ókum svo nánast án þess að stoppa alla leið heim en akstursskilyrðin voru reyndar ekki góð því við mættum hundruðum bíla á leiðinni. Allir að koma frá Akureyri þar sem hafði verið margmenni um helgina, á bíladögum ofl. Það gekk þó slysalaust sem betur fer. Heim komum við, átta tímum eftir brottför frá Þingeyri, og var ég aldeilis fegin að komast út úr bílnum. En ferðin var virkilega skemmtileg og við eigum örugglega eftir að fara fljótlega aftur vestur. Þurfum náttúrulega að fylgjast með því hvernig framkvæmdunum við húsið miðar :-)