miðvikudagur, 19. desember 2007

Ég hef örugglega áður bloggað um tilviljanir

því ég hef einhverra hluta vegna afskaplega gaman af ýmis konar tilviljunum. Eins og t.d. einu sinni þegar ég var að koma keyrandi heim og mætti eintómum silfurlituðum bílum. Um daginn var ég í barnaafmæli (eins og lesendur þessa bloggs vita líklega) og í afmælinu voru aðrir fullorðnir, auk mín, mamma barnsins, móðursystir, amma, nágrannakona og loks samstarfskona mömmunnar úr háskólanum. Í dag komu svo mamman og móðursystirin í búðina til mín, skömmu síðar kom nágrannakonan líka í búðina, og þegar ég fór í Hagkaupp í kvöld hitti ég þar konuna úr háskólanum. Ég hef enga þeirra hitt síðan í afmælinu og fannst það skemmtileg tilviljun að rekast á þær allar sama daginn (tja nema ömmuna sem var farin heim á Akranes).

Annars er ég að reyna að standa mig í stykkinu þessa dagana sem móðir skólabarns en það gengur misvel. Gærkvöldið fór í að prenta út jólakort handa rúmlega 50 bekkjarfélögum Ísaks og ég var barasta nokkuð ánægð með að hann skyldi geta mætt með kortin á réttum tíma í skólann. Á morgun eru svo stofujól hjá honum og þá er ætlast til þess að öll börnin mæti með smákökur en kakó fá þau í skólanum. Hér er búið að baka tvær smákökusortir og allar kökurnar eru því miður búnar... Mér tókst að redda málinu með því að stinga uppá að hann færi með laufabrauð með sér í skólann - og keypti líka einn poka af piparkökum sem hann fer með líka. Ég held nú hreinlega að þetta sé í fyrsta skipti sem svona illa er statt í smákökumálum heimilisins svo stuttu fyrir jól. Þannig að nú er víst mál til komið að bretta uppá ermarnar og baka!

Engin ummæli: