sunnudagur, 11. nóvember 2007

Hrefna hér kemur blogg ;-)

Já læknanemanum fannst víst mamma sín standa sig illa í blogginu svo hér kemur heiðarleg tilraun til að bæta úr því.

Helstu fréttir dagsins eru þær að ég er fallin! Það er að segja, ég er búin að borða bæði sykur og hvítt hveiti þrjá daga í röð...

Byrjaði á föstudaginn í erfidrykkju Petreu frænku minnar, þar sem ég stóðst þó Hnallþórurnar en fékk mér tvær sneiðar af smurbrauðstertum (úr hvítu brauði) í staðinn. Seinna um daginn fór ég í konuklúbb þar sem boðið var uppá margar gerðir af "bruchettum" úr hvítu snittubrauði og súkkulaðiköku. Skemmst er frá því að segja að ég fékk mér hvoru tveggja. Og til að kóróna daginn þann var pítsa frá Greifanum í kvöldmat og ég fékk mér að sjálfsögðu líka pítsu. Jamm, það held ég nú. Í gær stóð ég mig nú bara nokkuð vel framan af en a.m.k. ein sneið af Djöflatertu rataði á diskinn minn í kaffinu og þrjú After eight súkkulaði enduðu ævina í mínum maga um kvöldið. Þá var nákvæmlega engin mótstaða af minni hálfu, ég vorkenndi sjálfri mér fyrir gríðarlegt ofnæmiskast sem ég hafði fengið fyrr um daginn (var að klóra hundi og fékk þvílíkan allsherjar kláða í kjölfarið) og einnig var skrokkurinn á mér sérlega slæmur (vegna vefjagigtarverkja), þannig að um hreint og tært huggunarát var að ræða. Og til að kóróna þetta allt saman hef ég innbyrt tvær sneiðar af Djöflatertu í dag og keypti (og borðaði) þar að auki eitt súkkulaðistykki þegar ég fór í Bónus áðan...

Þrátt fyrir þessa hrösun hef ég ákveðið að vera góð við sjálfa mig (þ.e. ekki hugsa neitt um það að mig skorti sjálfsstjórn o.s.frv.) heldur hugsa bara að á morgun sé nýr dagur og þá geti ég haldið áfram að borða hollan mat. Það finnst mér ansi flott hjá mér :-)

Engin ummæli: