fimmtudagur, 20. september 2007

Kvennaklúbbur á döfinni

og ég þarf að upphugsa einhverjar veitingar. Verkefni sem mér reynist alveg nógu erfitt alla jafna en í þetta sinnið er það enn erfiðara. Ég er nefnilega í smá hollustuátaki og er að reyna að sleppa sykri og ýmsum matvörum sem ég veit að fara illa í mig. Þá er það spurningin, á ég að hafa eingöngu hollusturétti í klúbbnum (sem krefst vinnu við að finna hollar uppskriftir og jafnframt er fólgin áhætta í því að vera með nýjungar sem maður hefur ekki smakkað)? Eða á ég að reyna að hafa gamla og þægilega rétti sem ég þarf ekki að hafa alltof mikið fyrir og sleppa því þá bara að borða það versta? Þriðji möguleikinn er að breyta uppskriftum og gera þær hollari, t.d. með því að nota hrásykur í staðinn fyrir hvítan (en þá borða ég samt sykur...). Hm, þetta er flókið. En ég þarf eiginlega að ákveða mig núna svo ég geti farið í búð og keypt inn og helst bakað eins og eina köku áður en ég fer til tannlæknis kl. eitt.

Í gær fékk ég nefnilega þá verstu tannpínu sem ég hef fengið um árabil. Það er einhver tönn að stríða mér, tönnin sjálf er samt ekki skemmd heldur telur tannlæknirinn að rótin sé hugsanlega dauð - ef ég hef skilið hann rétt - en ég skil ekki hvernig dauð rót getur framkallað svona mikla verki. Ég var stödd í heimsókn hjá vinkonu minni þegar fjörið byrjaði en reyndi að láta á engu bera, alveg þar til það var ekki hægt lengur því mér leið eins og hægri hluti kjálkans stæði í ljósum logum. Fór heim og tók tvær verkjatöflur, þar af eina parkódín, og hélt að það hlyti að slá á verkinn. Ekkert gerðist og mér leið bara verr ef hægt var. Tók aðra parkódín og svo enn aðra og var áfram að steindrepast í munninum. Datt í hug að hringja í tannlækninn og biðja hann hreinlega að deyfa mig en hann var þá á leið á fund og gaf mér í staðinn tíma í í dag. Þá settist ég inn í stofu og hlustaði á slökunartónlist og reyndi að slaka á og smám saman minnkaði verkurinn og áhrif allra parkódíntaflanna komu fram. En þetta verkjakast hafði þá staðið í þrjá og hálfan tíma og ég var gjörsamlega búin á því á eftir. Ekki get ég hugsað mér aðra eins verki aftur í bráð, svo ég neyðist víst til að taka boði tannlæknisins um að rótardrepa tönnina. Brr, fæ hroll við tilhugsunina.

Engin ummæli: