Við höguðum okkur að sjálfsögðu eins og ekta túristar, fórum í Universal Studios, Wet'n Wild og Sea World, að ógleymdri siglingu á vatni þar sem við sáum m.a. krókódíla (alligators) og fleiri "kvikindi". Já, og eins og sönnum Íslendingum sæmir fórum við að sjálfsögðu í eina (eða fleiri...) vettvangsferðir í verslunarmiðstöðvar og það sem Kaninn nefnir "factory outlets". Ég get þó lofað því að við höfum líklega orðið landanum til skammar í innkaupunum, sem sást best á því að aðeins ein íþróttataska bættist við töskufjöldann á heimleiðinni.
Við lentum í Keflavík kl. hálf sex í gærmorgun og vorum mætt í morgunkaffi til mömmu og Ásgríms um hálf sjö! Lögðum svo af stað norður klukkutíma síðar og vorum komin heim um eittleytið. Kettirnir voru glaðir að fá okkur heim og hið sama má segja um leikfélaga Ísaks en síminn stoppaði varla í morgun þegar þeir voru búnir að átta sig á því að hann var kominn heim.
Hér sit ég núna og á að vera að undirbúa mig fyrir kennslu morgundagsins en hvort sem það er ferðaþreytu, tímamismun (5 tíma munur á Orlando og Akureyri) eða einhverju öðru að kenna þá er ég ekkert gífurlega "próduktíf" þessa stundina. Var samt búin að ákveða að verðlauna mig með sundferð þegar ég er búin svo það er best að spýta í lófana!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli