þriðjudagur, 29. mars 2005

Hundelt...

Það gafst líka tími fyrir nokkrar sund- og gönguferðir þessa yndislegu sumardaga sem við fengum um páskana. Í einni gönguferðinni öðluðumst við Valur nýjan skilning á því hvað það þýðir að vera "hundeltur". Við vorum komin upp í hverfið hér fyrir ofan okkur og nýbúin að taka stefnu inn í Hólsgerði þegar það kom allt í einu hundur á fullri ferð og stökk upp á Val. Okkur brá nokkuð við þetta en héldum göngunni ótrauð áfram. Haldið þið þá ekki að hundurinn fari að elta okkur og síðan stökk hann af sama ákafa á alla sem á vegi okkar urðu en við vorum í því að tilkynna að við ættum ekki hundinn svo fólk héldi ekki að við værum svo kærulaus að hafa lausan hund á almannafæri.

Við fengum okkur sæti um stund á bekk og vonuðum að hundurinn myndi fara að elta einhverja aðra, en allt kom fyrir ekki. Hann hljóp kannski í smá stund á eftir einhverju fólki en svo kom hann aftur á fullri ferð tilbaka til okkar. Við vorum farin að örvænta um að sitja uppi með hundinn það sem eftir var - en viti menn, þegar við komum til móts við Möl og sand kom kona aðvífandi á bíl og bremsaði í snarhasti þegar hún sá hundinn. Hafði þá verið að leita að honum síðasta hálftímann. Mikið var ég glöð að hann skyldi komast aftur í hendur eigandans - og sennilega hefur hundurinn verið það líka!

Engin ummæli: