þriðjudagur, 15. mars 2005

Það getur verið ansi skemmtilegt

að horfa á samferðamennina í umferðinni á morgnana. Í morgun t.d. voru flestallir bílstjórar sem ég mætti svo ógurlega þreyttir. Einn sendibílstjóri geispaði svo ógurlega þegar hann ók fram hjá mér að ég hefði örugglega séð hvað hann borðaði í morgunmat hefði verið aðeins minna bil á milli bílanna. Langflestir sátu þó bara stjarfir við stýrið og störðu hálf brostnum augum fram fyrir sig. Það er eitthvað með þessa þriðjudaga, a.m.k. er heimilisfólkið mitt yfirleitt þreyttast á þriðjudagsmorgnum.

Hvað sem því líður þá hlýtur fólk að vera vaknað núna, þvílík er veðurblíðan úti. Sól, snjór, frost og blankalogn. Ég ákvað að ganga í vinnuna eftir hádegið til þess að anda að mér smá súrefni og koma hreyfingu á blóðið. Mikið sem það var hressandi. Var að hugsa um að lengja göngutúrinn en mundi þá eftir því að ég hafði lofað vinkonu minni að koma með henni út að ganga eftir vinnu í dag, svo ég á bara meira gott í vændum :-)

Engin ummæli: